,,Ég var með þetta gildismat að það væri rosalega gott ef það væri brjálað að gera og stundataflan þétt. Að vera alltaf að.

,,Ég var með þetta gildismat að það væri rosalega gott ef það væri brjálað að gera og stundataflan þétt. Að vera alltaf að. Mér finnst ennþá mikið hrós ef sagt er að ég sé dugleg, en lífið er aðeins fallegra en að dugnaður sé æðsta markmiðið,“ segir Eva María Jónsdóttir sem sá í tíma að lífið getur verið rólegra og að við getum sinnt öðru en framleiðni, munadýrkun og mammoni.

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

Ég er að hressast en öndunin er enn þung hjá mér. Ég býð ekki í það hvernig þetta hefði orðið ef ég væri ekki þríbólusett, ég var þó nokkuð veik, en ég er þakklát fyrir að hafa ekki orðið veikari,“ segir Eva María Jónsdóttir, verkefnisstjóri hjá Árnastofnun, sem er nýrisin upp úr covid. Eva hefur verið í rúmt hálft ár í launalausu leyfi frá starfi sínu til að einbeita sér að nýrri iðju, sem jógakennari og jóga nidra-leiðbeinandi, aðallega hjá Dans og jóga, Hjartastöðinni. Þann 19. janúar nk. hefst sjálfstætt námskeið þar sem Eva mun kenna og útskýra jóga nidra og virkni þess fyrir heilsu okkar og hvíld. Námskeiðið verður haldið á rislofti Lyfjafræðisafnsins við Neströð á Seltjarnarnesi, en þar hefur gefist vel að leiða fólk í djúpa slökun nú í nýliðnum desembermánuði.

,,Á síðustu árum hafa stærri áskoranir á persónulega sviðinu sótt á mig. Ég sagði sem svo þegar ég varð fimmtug að ég hefði ekki haft mikið fyrir lífinu framan af, en eftir hálfa öld væri hafið skeið í mínu lífi sem skekur veröldina. Ég fór í launalaust leyfi frá vinnu minni um mitt síðasta ár, til þess að kenna jóga og stunda það, hafa það hluta af mínu daglega lífi,“ segir Eva og bætir við að áður hafi hún klárað jógakennaranám frá skóla Kristbjargar Kristmundsdóttur. Eftir það hafi hún fundið hjá sér hvöt til að minnka við sig vinnu.

,,Ég prófaði aðeins að kenna jóga á meðan ég var enn að vinna, en mér fannst talsverð þversögn í því að haska mér úr vinnunni til að fara að kenna jóga, fara stressuð út í umferðina og drífa mig svo aftur í vinnuna eftir jógatíma. Ég fann hvað þetta var fáránlegt, enda þarf að lofta svolítið um svo þetta skili tilætlaðri breytingu á lífsstíl og lífsgæðum,“ segir Eva sem byrjaði fyrir alvöru að kenna jóga í haust og bætti fljótlega við sig námi í að leiða jóga nidra-djúpslökun.

,,Ég lærði að leiða I AM jóga nidra hjá Kamini Desai í tveimur löngum lotum á Sólheimum í Grímsnesi nú í haust. Þessi kennari er alin upp á jógasetri í Bandaríkjunum af indverskri fjölskyldu sinni, en faðirinn er svokallaður jógagúrú. Hún þekkir samt alveg lífið finnst mér gott að taka fram, og um það má lesa nánar í bók hennar Life Lessons Love Lessons, því það hljómar eins og mjög verndað umhverfi að alast upp á jógasetri. Enginn sleppur samt við breyskleika mannskepnunnar og við erum ekki sloppin fyrir horn þó við stundum jóga,“ segir Eva og hlær.

Áreiti á skynfærin okkar

Eva segir að jóga nidra sé ævaforn djúpslökunaraðferð og að elstu heimildir þar um séu taldar vera ritaðar á sanskrít í kringum 700 fyrir Krists burð.

,,Jóga nidra gengur út á að slaka, en oft byrjum við tímana á að opna aðeins líkamann, teygja okkur og fara í léttar jógastöður, virkja þannig líkamann til að taka á móti slökuninni, svo hann sé opinn fyrir þessu ferðalagi. Slökunin felst samt í að gera ekki neitt, andstaðan við að gera eða hugsa,“ segir Eva og bætir við að jóga sinni okkur alhliða.

,,Að fara í jógastöður er aðeins einn hluti af jógaiðkun, því það er líka hægt að vera í tilbeiðslujóga, fræðslujóga og slökunarjóga. Fólkið sem uppi var fyrir nokkur þúsund árum, á þeim tíma sem ævafornu Vedahandritin voru rituð, það vissi að þetta þyrftum við að gera. Mannfólkið hefur alltaf verið að glíma við það sama. Í jóga er verið að leitast við að hafa jafnvægi í líkama og sál. Þetta snýst um góða heilsu, því þegar við missum jafnvægið á einhvern hátt gefum við sjúkdómum og allskonar vanlíðan tækifæri. Jóga gengur út á að leiðrétta skekkjuna, koma okkur aftur í jafnvægi og halda okkur þar. Þetta er ekki flóknari hugmynd en það. Við þurfum að muna eftir því að hvíld er nauðsyn þegar við erum búin að erfiða, alveg eins og lyftingaþjálfari dóttur minnar segir: ,,Hvíld er hluti af þjálfuninni.“ Þegar við erum að erfiða andlega, þá þurfum við líka andlega hvíld. Við höldum mörg að hana sé að finna með því að setjast með síma í hönd og vafra eða fyrir framan tölvu og horfa á þætti, en það er ekki andleg hvíld, það er áreiti á skynfærin okkar. Við þurfum líka að hvíla þau og vernda, því þetta er allt einhvers konar áreiti á kerfin okkar.“

Var í mjög mikilli spennu

Þegar Eva er spurð að því hvað jógaiðkun og það að gerast leiðbeinandi hafi gert fyrir hana, segir hún að fyrst og fremst hafi það breytt hennar gildismati.

,,Ég var með þetta gildismat að það væri rosalega gott ef það væri brjálað að gera og stundataflan þétt. Að vera alltaf að. Mér finnst ennþá mikið hrós ef sagt er að ég sé dugleg, en lífið er aðeins fallegra en að dugnaður sé æðsta markmiðið. Lífið er fallegra þegar maður hægir á og situr í sér og situr vel í því sem maður er að gera, ekki með asa eða rembingi. Að vera ekki að troðast til að gera sem mest og göslast á milli. Jógaiðkunin hefur gefið mér meiri ró og sjálfsalúð. Það er engin ástæða til að vera alltaf með svipuna á lofti. Ég áttaði mig á að ég hef verið meiri hlutann af lífinu í mjög mikilli spennu, en slíkt gengur ekki upp til lengdar, það kemur alltaf að því að maður þarf að slaka. Með því að leiða jóga og stunda, þá kom þetta tækifæri til mín, að raunverulega slaka á, að gefa eftir.“

Ekki eins einfalt og hún hélt

Eva segir að fólk þurfi meðvitað að æfa sig í að slaka, því okkur er það ekki öllum tamt í hraða nútímans.

,,Ósjálfráða taugakerfið okkar býr yfir bæði sef-kerfi og drif-kerfi. Margir fókusera á drifkerfið og sinna sefkerfinu einungis af skyldu, við hugsum sem svo, jú ég verð víst að sofa smá, en þá hugum við ekkert að því að slaka líka í vökutímanum. Við vitum að við þurfum að sofa, og gerum það af skyldu, rétt eins og að bursta tennurnar, en það er alls ekki nóg. Við þurfum að hvíla sköpunarkraftinn okkar og skynfærin, þess vegna slökkvum við ljósin þegar við göngum til hvílu og reynum að losa okkur við öll rafmagnstæki úr svefnherbergjum okkar. Þetta er ekki svo einfalt eins og ég hélt lengi, að best væri að vera á fullu í vökunni, sofa af skyldu og halda svo áfram á fullu spani á nýjum degi,“ segir Eva og bætir við að það komi sennilega að því í lífi hvers manns að vera stoppaður í þeim æðibunugangi.

,,Við erum heppin sem sýnt er þetta í tæka tíð, áður en við dettum niður veik, í kulnun eða áður en við lendum á bráðadeildinni þegar líkaminn tekur völdin og stoppar fólk af, þegar taugakerfið okkar getur ekki tekið við meiru. Ég er mjög þakklát fyrir að hafa séð þetta í tíma, en það gerðist þegar við stórfjölskyldan fórum til Balí um áramótin 2019 til 2020. Þar var víða í boði að fara í jóga, og við gerðum það alltaf öll, þessar þrjár kynslóðir sem vorum saman í ferðinni, með allskonar ólíka líkamlega getu. Þá sáum við að lífið þarf ekki að vera þessu marki brennt sem það er í okkar vestræna samfélagi. Lífið getur verið rólegra og við getum sinnt öðru en framleiðni, munadýrkun og mammoni, þessari kapítalísku hugmyndafræði sem litar allt líf okkar sem lifum í svokölluðum vestrænum velferðarríkjum. Slíkt gildismat og sú hugmyndafræði keyrir okkur í þrot.“

Þurfum að lykla inn í dagana

Eva segir að á Balí hafi verið fallegt að sjá fólk gefa sér tíma í daglegu amstri til að kveikja á reykelsi og færa guðunum einhverja smálega fórn, kannski eina kexköku eða jafnvel sígarettu!

,,Fólk tók sér tíma í andlegt líf í hversdeginum, hvað svo sem manni finnst um trúarbrögð og annað slíkt. Við sáum þetta alls staðar, bæði fullorðnir og unglingar, alls staðar gaf fólk sér tíma til að gera þetta. Við á Vesturlöndum tökum okkur varla tíma til að borða, við gerum það gjarnan á hlaupum, hvað þá að við leggjumst í slökun á miðjum vinnudegi. Við fáum jafnvel samviskubit ef við fáum okkur göngutúr í hádeginu. Þetta hefur verið stimplað inn í okkur, að vera alltaf á fullu. Ég held að við eigum ekki aðeins að hugsa um að stytta vinnudag og vinnuviku, heldur lykla líka inn í dagana okkar viðurkenningu á því að við höfum þörf fyrir að lifa andlegu lífi.“

Áhugasamir geta skráð sig á námskeiðið á Facebook: Námskeið: Hvað gerist í jóga nidra?