Sýnataka Biðröð var eftir sýnatöku við Suðurlandsbraut í gær og þurfti fólk að dúða sig vel í kulda og snjókomu. Rúmlega átta þúsund manns eru í sóttkví.
Sýnataka Biðröð var eftir sýnatöku við Suðurlandsbraut í gær og þurfti fólk að dúða sig vel í kulda og snjókomu. Rúmlega átta þúsund manns eru í sóttkví. — Morgunblaðið/Eggert
Stefán E. Stefánsson ses@mbl.is Samtök atvinnulífsins hafa lagt mat á heildarlaunakostnað atvinnulífsins vegna þess gríðarlega fjölda fólks á vinnumarkaði sem nú sætir sóttkví og einangrun.

Stefán E. Stefánsson

ses@mbl.is

Samtök atvinnulífsins hafa lagt mat á heildarlaunakostnað atvinnulífsins vegna þess gríðarlega fjölda fólks á vinnumarkaði sem nú sætir sóttkví og einangrun. Telja samtökin á grundvelli útreikninga að kostnaður atvinnulífsins á fyrsta fjórðungi þessa árs geti verið allt að 12 milljarðar króna, 8 milljarðar vegna einangrunar og 4 milljarðar vegna sóttkvíar.

Heilbrigðisráðherra breytti í gær reglum um sóttkví þeirra sem annars vegar hafa verið bólusettir þrisvar og hins vegar þeirra sem bólusettir hafa verið tvisvar en greinst með kórónuveirusmit að auki.

Útreikningar samtakanna voru gerðir áður en reglugerðinni var breytt, en samtökin munu meta á næstu dögum hvaða áhrif liðkun sóttkvíar muni hafa á kostnaðarmatið. Byggjast útreikningarnir á því að 1.200 manns smitist á dag en að þeim fari fækkandi þegar líður á spátímann, í lok mars.

Í gær sættu 18.245 einstaklingar sóttkví eða einangrun hér á landi vegna takmarkana yfirvalda til að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar. Hefur fjölgað mjög í þeim hópi frá því að faraldurinn náði sér á strik á lokadögum aðventunnar.

Ríkissjóður hefur skuldbundið sig til þess að greiða, með ákveðnum skilyrðum, launakostnað fyrirtækja vegna frátafa starfsfólks á almennum vinnumarkaði vegna þessara aðgerða.

Ásdís Kristjánsdóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri SA, segir vandasamt að leggja mat á kostnaðinn en hann sé þó verulegur.

Víðtækari reglur um sóttkví

„Ljóst er að kostnaður atvinnulífsins er gríðarlegur vegna þess fjölda sem nú sætir sóttkví og einangrun. Til að setja ofangreindar fjárhæðir í samhengi þá er áætlað að ríflega 7 milljarðar króna renni til Alþingis á þessu ári samkvæmt fjárlögum. Í samanburði við önnur nágrannaríki höfum við verið með heldur víðtækari reglur um sóttkví gagnvart bólusettum einstaklingum og börnum,“ segir Ásdís.

„Í ljósi þessa er jákvætt að stjórnvöld eru að stíga skref í átt til liðkunar gagnvart þríbólusettum einstaklingum og við munum endurskoða mat okkar í kjölfarið. Útreikningar okkar taka ekki tillit til þess hvert vinnuframlagið er frá einstaklingum í sóttkví eða einangrun. Það fer eftir eðli starfa hvort einstaklingar hafa tök á því að vinna heima, en það er líklega minnihluti.“

Bendir hún á að auk þess sé mönnun á mörgum vinnustöðum mjög miklum vandkvæðum bundin vegna fjölda starfsmanna í sóttkví eða einangrun. „Það veldur því að yfirvinnugreiðslur stóraukast og þar með kostnaður margra fyrirtækja.“

Tæplega 27 þúsund óbólusettir

Alls eru nú tæplega 27 þúsund manns á aldrinum 12-59 ára skráðir óbólusettir á Íslandi. Flestir eru í aldurshópnum 16-29 ára eða tæplega níu þúsund manns.