[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Höskuldur Daði Magnússon Ágúst Ingi Jónsson Sala á áfengi í komuverslun Fríhafnarinnar á Keflavíkurflugvelli nam á síðasta ári rúmum 860 þúsund lítrum. Það er umtalsvert meira en árið á undan þegar ferðalög lögðust nánast af.

Höskuldur Daði Magnússon

Ágúst Ingi Jónsson

Sala á áfengi í komuverslun Fríhafnarinnar á Keflavíkurflugvelli nam á síðasta ári rúmum 860 þúsund lítrum. Það er umtalsvert meira en árið á undan þegar ferðalög lögðust nánast af. Árið 2020 seldust tæpir 600 þúsund lítrar af áfengi í Fríhöfninni og nemur aukningin á milli ára um 44%. Þessi aukning rímar ágætlega við fjölgun ferðamanna á milli ára en nýlega kom fram að um 700 þúsund manns sóttu Ísland heim árið 2021. Salan í fyrra er þó enn aðeins um þriðjungur þess sem hún var árið 2019.

Eins og kom fram í Morgunblaðinu í vikunni var sala í Vínbúðunum svipuð árið 2021 og árið á undan. Alls seldust ríflega 26 milljónir lítra þar í fyrra sem var 1,6% minna en árið 2020.

Velta Vínbúðanna var nokkuð minni árið 2021 en árið á undan. Samkvæmt upplýsingum frá ÁTVR var veltan í áfengi 35.588 milljónir án vsk. Veltan í tóbaki var hins vegar 9.370 milljónir án vsk. Í heildina gerir það tæplega 45 milljarða króna. Að því er fram kom í ársskýrslu ÁTVR fyrir árið 2020 fór heildarvelta fyrirtækisins í fyrsta sinn yfir 50 milljarða það árið og hafði aldrei verið hærri.