„Framlag mitt inn í framtíðina í þessari bók er áherslan sem ég legg á alþjóðavæðinguna og alþjóðavæðingu fjármagnsins sem ég tel að þjóðfélagið allt verði að vakna til vitundar um,“ segir Ögmundur Jónasson.
„Framlag mitt inn í framtíðina í þessari bók er áherslan sem ég legg á alþjóðavæðinguna og alþjóðavæðingu fjármagnsins sem ég tel að þjóðfélagið allt verði að vakna til vitundar um,“ segir Ögmundur Jónasson. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ögmundur Jónasson, fyrrverandi ráðherra, hefur verið áberandi á vettvangi þjóðmála um áratuga skeið.

Ögmundur Jónasson, fyrrverandi ráðherra, hefur verið áberandi á vettvangi þjóðmála um áratuga skeið. Nú hefur hann sent frá sér bókina Rauði þráðurinn, þar sem hann lítur yfir farinn veg í fjölmiðlum, verkalýðsbaráttu og stjórnmálum, en talar ekki síður inn í framtíðina. Hann segir að núverandi stjórnarmynstur hefði hentað vel í móðuharðindunum en eigi alls ekki við í dag. Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is

E inhvern tíma hefði Ögmundur Jónasson ábyggilega hrokkið í kút ef grímuklæddur maður hefði nálgast heimili hans í skjóli morgunmyrkursins. Í dag lætur hann sér hvergi bregða; hefði líklega þvert á móti orðið meira undrandi væri ég bersnjáldra á þessum síðustu og verstu pestartímum. Hann býður til stofu, þar sem rjúkandi heitt te er á borðum og við tökum upp almennt hjal. Eins og svo oft þegar tveir fjölmiðlamenn koma saman stöldrum við einmitt fyrst við fagið, fjölmiðlana. Ögmundur hefur orð á því hversu vænt honum þyki alltaf um gamla góða dagblaðið, ekki síst hið físíska form þess. Netmiðlar séu ágætir til síns brúks en ekkert jafnist þó á við að setjast niður með hafragrautinn og kaffibollann í morgunsárið og fletta brakandi nýju blaðinu. Svo prentilminn leggur að vitum. „Ég held líka,“ segir hann, „að eldri kynslóðunum finnist mál þá fyrst trúverðug þegar þau eru komin á prent, að ég tali nú ekki um bók. Þá er fast land undir fótum.“

Hann brosir.

Það er einmitt sá síungi miðill, bókin, sem hefur leitt mig á fund gamla ráðherrans og baráttumannsins í Vesturbænum en á dögunum kom út hjá útgáfunni Sæmundi bókin Rauði þráðurinn, þar sem Ögmundur lítur um öxl yfir litríkan feril í fjölmiðlum, verkalýðsbaráttu og stjórnmálum – og eftir atvikum fram á veginn. Í ljós kemur að hann stingur ekki síst niður penna til að brýna samferðarmenn sína á óvissutímum. Þess vegna segir hann „endurminningar“ ekki fullnægjandi lýsingu .

„Kveikjan að þessari bók er sú að mig hefur alltaf langað til að skrifa mína eigin sögu; láta ekki aðra alfarið um það,“ útskýrir Ögmundur. „Ég tel að í ýmsum efnum geti ég varpað ljósi á ýmislegt sem aðrir hafa ekki komið auga á eða hreinlega ekki viljað sjá. Það er líka til í dæminu. Ég lít á söguna og framsetningu og skilning á henni sem kollektíft verk, ekki eins manns verk, heldur eins konar mósaíkverk og mitt framlag þá flísar inn í stóru myndina. Ég tala þarna að uppistöðu til um rúmlega fjörutíu ára tímabil í sögu fjölmiðla, verkalýðshreyfingar og stjórnmála á Íslandi, sitthvoru megin við aldamótin, en byrja líka á byrjuninni – geri grein fyrir þeim þráðum sem ég er ofinn úr. Í mér er allt litrófið – rauður, blár og grænn og jafnvel bleikur – og ég lærði snemma að draga fólk aldrei í dilka eftir pólitík. Manngildi einstaklinganna ræðst ekki af stjórnmálaskoðunum þeirra.“

Menn voru merktir og merktu aðra

Hitt sá Ögmundur þó snemma – hversu miklu máli pólitíkin skiptir í lífinu. „Í samskiptum fólks réð pólitísk afstaða miklu, sérstaklega á öldinni sem leið. Menn voru merktir og merktu aðra. Ég gaf aldrei mikið fyrir slíkar merkingar þegar meta átti manngildið. Öðru máli gegndi um stjórnmálahreyfingar. Í stjórnmálabaráttunni þyrftu markmiðin að vera skýr enda ætlað að segja til um hvert stefnt skuli með samfélag okkar. Þarna varð mín niðurstaða afdráttarlaus – hún endaði í hinum rauða þræði.“

– Hvernig tók þitt fólk því? Fram kemur í bókinni að faðir þinn hafi verið sjálfstæðismaður?

„Það tók því vel. Að mér standa margir rauðir og jafnvel eldrauðir en líka bláir. Ég er ættaður héðan af Grímsstaðaholtinu annars vegar og úr Húnavatnssýslu hins vegar og norðanmennirnir voru bláir á litinn með stöku undanvillingum, eins og mér. Það voru kraftmiklir menn og ekkert síður róttækir, þótt þeir teldu að samfélaginu væri betur borgið á annan hátt en vinstrimenn og sósíalistar. Ég er alinn upp á heimili þar sem loftaði mjög vel um og allar skoðanir voru liðnar. Móðir mín kunni að meta náttúruverndarsinnann Eystein og Kvennaframboðið þegar það vildi fella valdastóla og innleiða jöfnuð og lýðræði.“

– Þú hefur haldið þessum þræði gegnum allt þitt líf. Hefurðu aldrei efast?

„Nei,“ svarar hann ákveðið. „Ég hef aldrei hvikað frá grundvallarsannfæringu minni. Áherslurnar hafa hins vegar að einhverju leyti breyst. Ég hef alltaf viljað samfélag jafnaðar, þar líður okkur best og þegar til langs tíma er litið skilar það líka bestum árangri. Nánast frá frumbernsku hef ég líka verið andsnúinn hvers konar stjórn að ofan, aldrei þolað að ráðskast væri með mig, þess vegna nefni ég anarkisma í bókinni, sem er þjóðfélag laust við vald að ofan. Þá hefur frelsishugsjón Johns Stuarts Mills alltaf verið sterk í mér, það er að sérhver maður eigi að vera frjáls svo lengi sem hann skaðar ekki aðra. Þegar ég segi að áherslur hafi breyst þá er það sérstaklega þarna, ég hef orðið áhyggjur af frelsi okkar, hélt áður að ekki gæti stefnt annað en fram á við í þeim efnum. Það er af og frá. Ég er að sjálfsögðu ekki að tala um frelsi fjármagnsins heldur að losna undan oki þess og síðan hvers kyns valdstjórn.“

Nauðsynlegt er að læra af reynslunni en Ögmundur telur ekki skipta minna máli að horfa til framtíðar. „Framlag mitt inn í framtíðina í þessari bók er áherslan sem ég legg á alþjóðavæðinguna og alþjóðavæðingu fjármagnsins sem ég tel að þjóðfélagið allt verði að vakna til vitundar um. Við komum mjög snemma auga á þetta hjá BSRB og segja má að samtökin hafi í kringum aldamótin verið einskonar rannsóknarstofnun í félagslegum efnum. Við horfðum til alls heimsins og sendum menn til Nýja-Sjálands, Suður-Afríku og Evrópu. Við uppgötvuðum þó fljótlega að vænlegra væri að flytja þekkinguna inn, þá gætu fleiri notið hennar, og fram kemur í bókinni hvílíkur fjöldi kom til landsins á vegum BSRB; sérfræðingar í samgöngumálum, símamálum, efnahagsmálum, orkumálum og ýmsu öðru. Þetta var liður í þeirri viðleitni að vekja fólk til umhugsunar um að fjármagnið er að ná undirtökunum á heimsvísu, í öllum samfélögum með eignarhaldi og áhrifum sínum. Þessu bæri að sporna gegn af alefli. Í öllum slíkum tilvikum hefur verið reynt að fara bak við tjöld en þegar upplýst hefur verið hvað í raun og veru er á seyði rís mótmælaalda um heim allan. Sem aftur verður til þess að málin eru stöðvuð en aðeins tímabundið því áfram heldur svo lestin. Þetta hefur til dæmis orðið til þess að Evrópusambandið, sem stofnað var á félagslegum grunni, hefur með tímanum orðið lítið annað en tæki markaðarins. Þess vegna segi ég: Vöknum til vitundar um þetta og látum ekki stela samfélögum okkar frá okkur! “

Varinn á gagnvart auðmönnum

– Þú hefur augljóslega haft þetta að leiðarljósi þegar þú sem dómsmálaráðherra synjaðir beiðni kínverska auðkýfingsins Huangs Núbós um jarðarkaup á Grímsstöðum á Fjöllum á sínum tíma. Sástu blikur á lofti?

„Já, ég gerði það. Ég hef alltaf haft varann á þegar auðmenn eru farnir að safna landi á sína hendi og þeim mun varasamara er það eftir að lögum var breytt árið 1998 á þann veg að menn kaupa nú ekki bara land heldur alveg niður úr, það er að segja vatn og öll jarðefni. Ég tala nú ekki um ef þetta eru erlendir auðmenn enda þýðir það að hægt er að flytja eignarhald á þessum verðmætum út úr landinu. Þá segja menn: Er einhver munur á íslenskum og erlendum auðmönnum? Svar mitt er já. Það skiptir í öllu falli máli hvort auðmaðurinn býr á Grímsstöðum eða í Genf. Búi hann hér eru góðar líkur á því að honum sé annt um skólann á svæðinu og Sölku Völku kemst hann ekki hjá að hafa fyrir augum sér. Ef eignarhaldið er á hinn bóginn komið í erlenda kauphöll, þar sem það gengur kaupum og sölum, þá erum við komin víðsfjarri þeim veruleika sem heitir samfélag á Íslandi. Það skiptir ekki lengur nokkru máli.“

– Stórveldahagsmunir fléttuðust líka inn í Núbó-málið. Kínverjar hafa í auknum mæli verið að gera sig breiða á norðurslóðum. Tókstu mið af því?

„Auðvitað hlaut að vera horft til þess. Þú þarft að vera illa dofinn eða deyfður ef þú gerir ekki ráð fyrir þeim möguleika enda liggur fyrir að Kínverjar hafa verið að hasla sér völl í öllum heimsálfum.“

– Þú hefur þá ekki keypt þá skýringu að Núbó væri umhverfissinnað skáld?

„Þau eru víða skáldin,“ svarar hann brosandi. „Sannleikurinn er hins vegar sá að þegar hlustað var á málflutning Núbós erlendis var annað en ljóðagerð í hans huga. Hann var að minnsta kosti athafnaskáld og við Íslendingar höfum lært að hafa ber varann á gagnvart þeim.“

– En þetta mál var þungt og erfitt í ríkisstjórn VG og Samfylkingar.

„Já, það var það. Vegna þess að mörgum við það borð var mjög annt um að þetta mál næði fram að ganga, forsætisráðherranum sérstaklega [Jóhönnu Sigurðardóttur]. Sveitarstjórnarmenn á svæðinu og þingmenn kjördæmisins, þar á meðal úr mínum flokki, voru hlynntir málinu, þannig að ég var frekar einn í þessu máli innan ríkisstjórnarinnar. Þjóðin stóð hins vegar öll með mér. Það sýndu skoðanakannanir. Almenningur á Íslandi vill halda eignarhaldi á jörðum á landinu innan landsteinanna og hafa það dreift. Annað sem var fróðlegt í þessu máli var að sendimenn annarra ríkja fylgdust grannt með framvindu þess; það átti ekki síst við um Bandaríkin en sendiherrar fleiri ríkja komu á minn fund að forvitnast um málið. Þetta var þungt mál og minnti okkur á hversu auðvelt getur verið að grípa þjóð sem er á hnjánum. Og leggist hún sjálf á hnén er hún mjög aðgengileg bráð. Þarf þá ekki einu sinni til hremmingar eins og við höfðum lent í, það er efnahagshrunið. Fyrir litla þjóð eins og Íslendinga mega hrægammar aldrei verða gæludýr. Það er svo gríðarlegt fjármagn á hendi auðmanna heimsins að kaup á Eyjafirði eða Mývatnssveit er ekki meira en gefur þeim í aðra hönd með morgunkaffinu á góðum degi í kauphöllinni.“

Hið samræmda göngulag krafan

Þetta var ekki í fyrsta skiptið sem Ögmundur lét hrikta í stoðum í stjórnarráðinu. Frægt var þegar hann sagði af sér sem heilbrigðisráðherra vegna þess að hann aðhylltist ekki sömu lausn og forystumenn stjórnarflokkanna í Icesave-málinu. Við blasir að spyrja hvort krafan í ríkisstjórn og á Alþingi yfir höfuð sé að menn gangi í takt?

„Já, já, já, hið samræmda göngulag er krafan, í öllum flokkum, og það er mjög varasamt fyrir lýðræðið þegar sú krafa verður of stíf. Auðvitað gera menn ýmislegt til að halda hópinn og ég er alls ekki að tala gegn málamiðlunum, en svo eru mörk sem aldrei á að fara yfir. Það gengur ekki fyrir stjórnmálamenn að segja eitt fyrir kosningar og annað eftir þær. Þingmenn eiga að standa við það sem þeir lofuðu kjósendum sínum og ef annars er krafist af þeim eiga þeir að sýna staðfestu og aldrei fórna sjálfstæðri dómgreind sinni.“

– Láta menn auðveldlega beygja sig til fylgispektar?

„Það gerist of oft, já. Þegar Jóhanna Sigurðardóttir, eða einhver í hennar búðum, fann upp hugtakið með villikettina sem ekki væri hægt að smala þá leyfði ég mér að spyrja hvort illsmalanlegir kettir væru ekki síður skaðvænlegir en pólitískir sauðir. Hjarðmennskan er það hættulegasta sem er til á Alþingi – og það á við í öllu jarðlífinu. Til þess að uppræta hana þurfum við öll að breyta okkar kompás; reyna að skilja þá sem eru á öndverðum meiði við mann sjálfan og leyfa þeim að halda sínu máli fram með rökum og af sanngirni. En síðan takast menn á um þau málefni sem byggja á gagnstæðum hagsmunum. Ekki á það við um öll mál, fjarri lagi. Ég hef stundum sagt að fjarlægi maður úr heila sérhvers manns það sem segir í hvaða stjórnmálaflokki hann er þá munum við komast að raun um að 80% mála verða mjög auðleyst. Það sem eftir stendur er hin raunverulega pólitík. Hvað finnst þingmanninum um kvótakerfið, NATÓ, ESB, einkavæðingu raforkunnar og þar fram eftir götunum? Það eru hin stóru hagsmunamál þjóðarinnar. Árangur á þingi felst ekki í því að koma slíkum málum í salt með því að leysa ágreining til málamynda. Þvert a móti þarf að örva umræðu í þjóðfélaginu, virkja þjóðfélagið í baráttunni um hin stóru mál. Telji menn sig vera að ná árangri með þögninni þá er það misskilningur; með þeim hætti er þvert á móti verið að slæva og deyfa. Það er ekkert að því að takast á um raunveruleg þjóðþrifamál. Það er þvert á móti nauðsynlegt. Það er eina leiðin til að hreyfa þjóðfélagið áfram.“

– Ertu með þessu að segja að Alþingi Íslendinga sé ekki í nógu góðum tengslum við þjóðina?

„Almennt er viðhorfið á Alþingi að þjóðfélaginu skuli stýrt eins og skipi og þar séu hinar stóru ákvarðanir teknar í brúnni. Ég held aftur á móti að vilji menn berjast fyrir alvöru breytingum þá þurfi að berjast fyrir breyttum viðhorfum í þjóðfélaginu, breyttum tíðaranda sem aftur gerir samfélagslegar breytingar og lausnir gerlegar. Flokkarnir sem kenna sig við félagshyggju eru komnir langt frá rótum sínum og ætli menn sér að færa hinn pólitíska pendúl til baka, hefja félagsleg sjónarmið til vegs á ný, þarf að gera pólitík aftur að pólitík. Það verður ekki gert yfir kaffibolla, aðeins með því að vekja samfélagið. Sofandi samfélag í nánast opnum skolti heimsauðmagnsins er ekki sérlega notaleg tilhugsun. En vill hægri sinnað fólk inn í þann skolt, fólk sem talar fyrir samkeppni á markaði, hve lengi ætlar það að samsama sig gráðugu fjárfestingarkapítali sem enga samkeppni vill sjá? Það eru ekki bara vinstrimenn sem þurfa að horfa í eigin barm, það þurfa hægri menn að gera líka. Einnig þeir þurfa pólitíska örvunarsprautu.“

Sá eftir heilbrigðisráðuneytinu

– Var ekki erfitt að segja af sér ráðherradómi?

„Jú, það var mjög erfitt. Ég sá óskaplega eftir því að fara úr heilbrigðisráðuneytinu. Í verkalýðsbaráttunni fannst mér alltaf skipta mestu máli hvað hendir fólk þegar það fer á lífeyri og þegar það verður veikt. Ekkert í þessu lífi skiptir máli ef maður sjálfur eða þeir sem standa manni nærri tapa heilsunni og fá ekki meina sinna bót. Ég hafði mikinn metnað til að leggja mitt af mörkum í þessu mikilvæga ráðuneyti en varð snemma að stíga út enda var mér hótað því að stjórnin færi frá myndi ég ekki skipta um skoðun í Icesave-málinu. Þá var ekki um annað að ræða en að víkja sjálfur. Ekki kom til greina að hvika í Icesavemálinu og ekki vildi ég hafa það á samviskunni að fella ríkisstjórnina.“

Seinna kom í ljós að þjóðin var á bandi Ögmundar. Hún vildi fá að tjá sig um málið í þjóðaratkvæðagreiðslu, þar sem hún felldi samninginn sem lá á borðinu. „Það var okkar gæfa að ná að klára Icesave-málið með þeim hætti sem við gerðum. Þökk sé íslensku þjóðinni og öflugum hópum í samfélaginu, svo sem InDefence sem hélt úti öflugum andmælum. Hafi Íslendingar einhvern tíma kennt heiminum eitthvað þá var það þessi lexía í lýðræði. Þetta var það sem erfiðast var að kyngja fyrir Evrópusambandið og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, að þjóðin fengi aðgang að ákvörðun í máli sem snerti milliríkjasamninga og fjármál. Íslenska þjóðin stóð á rétti sínum í þessu máli.“

– Hvernig var stemningin við ríkisstjórnarborðið þegar endanleg niðurstaða lá fyrir?

„Hún var vel undir frostmarki.“

Hann brosir.

– Þú stóðst á sannfæringu þinni en það kostaði sitt enda lögðu nánir samherjar þínir og vinir, Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra og Svavar Gestsson, sem fór fyrir samninganefnd ríkisstjórnarinnar, ofurkapp á að fá Icesave-samninginn samþykktan.

„Ef það er einhvern tíma rétt að segja að vík hafi orðið milli vina þá var það þarna. Það gætti óánægju og reiði út af þessu öllu saman og menn urðu sárir sem að einhverju leyti byggðist á misskilningi, eins og ég fer yfir í bókinni. Í mér er engin bræði eða heift en mér er samt í mun að skýra málin, ekki síst þegar menn ætla mér annað en reyndin var. En auðvitað hafði þetta áhrif á samskipti okkar til skemmri og lengri tíma.“

– Samstarfsflokknum var heldur ekki skemmt og fáir sem lesa bókina munu komast að þeirri niðurstöðu að þú berir hlýju og ást í brjósti í garð Samfylkingarinnar. Og öfugt.

„Það er alveg rétt. Afstaða mín í Icesave-málinu og fleiri málum skapaði mér ekki vinsældir innan Samfylkingarinnar. Þar komum við að enn einni ástæðunni fyrir því að ég skrifaði þessa bók en mig langaði að skýra frá mínum sjónarhóli hvað átti sér stað þegar menn reyndu að sameina félagshyggjuvænginn í íslenskum stjórnmálum í einum flokki, Samfylkingunni. Það sem ég sagði þá og segi enn er að það sem þjóðfélag í gerjun þarf á að halda er að örva umræðuna og færa átök og ágreining fram í dagsljósið en ekki breiða þar yfir. Sjáðu bara hvað gerðist í Bretlandi undir lok seinustu aldar, þegar Blairistarnir komust til valda. Þá var straujárnið bara hitað og allur ágreiningur flattur út. Í framhaldinu fór flokkurinn að gera hina undarlegustu hluti og hefur ekki borið sitt barr síðan. Sama var uppi á teningnum hér; kratarnir voru komnir lengst til hægri og jafnvel hægra megin við Sjálfstæðisflokkinn í ýmsum málum. Ég vildi á hinn bóginn horfa á kjósendurna. Hvað vilja þeir? Eru þeir á sama máli og forystan? Fjármagnsöflin hafa löngum fundið sér heimili í Sjálfstæðisflokknum og raunar upp á síðkastið lúxusbústað í Viðreisn, þar eru hægrikreddurnar í miklum hávegum hafðar. Kæra vinstrimenn sig virkilega um að samlagast þessum öflum og þessari hugmyndafræði? Þangað voru kratarnir þó komnir og vildu sameinast á forsendum markaðshyggju.“

Flokkar geti fæðst og dáið

Ögmundi finnst miklu vænlegra að skapa skilyrði á vinstri vængnum þar sem flokkar geta bæði fæðst og dáið. „Mínar röksemdir á þessum tíma voru skýrar: Vinnum endilega saman á félagshyggjuvæng stjórnmálanna en ekki í einum flokki. Þá deyfum við þessa pólitísku umræðu sem þarf að vera fyrir hendi til að samfélagið geti verið lifandi. Á þeirri forsendu var ég tilbúinn að starfa með Samfylkingunni þegar sá möguleiki kom upp og vildi alls ekki sprengja þá ríkisstjórn þegar hún var komin á koppinn. En ég vildi líka hafa leyfi til að gagnrýna hana. Það er það sem vantar í stjórnmálin, að geta verið með málefnalega gagnrýni án þess að því sé tekið persónulega.“

– Þá kemur upp í hugann fyrrverandi forseti lýðveldisins, Ólafur Ragnar Grímsson, sem þú gagnrýndir talsvert á sinni tíð, ekki síst á „klappstýruárunum“ svokölluðu. Í bókinni segir þú hann ekki hafa hrifist af þeirri orðræðu en þó ekki tekið henni persónulega nema kannski rétt í hita augnabliksins.

„Já, hann gat skilið þar á milli. Ég skammaðist mikið út í Ólaf Ragnar og gagnrýndi opinberlega. Beindi orðum mínum raunar að fleirum sem ég tilgreini í bókinni. Ólafur Ragnar gegndi síðar mikilvægu hlutverki í alþjóðlegri umræðu á hrunárunum, enda ekki beinlínis þekktur af hlédrægni og feimni, og gerði málstað þjóðarinnar mikið gagn. Raunar held ég því fram í bókinni að það hafi verið aðgöngumiði hans að samfélaginu aftur. Hann endurheimti traust sem hann hafði glatað. Það var svo sem ekki bara forsetinn sem fór fram úr sér í aðdraganda hrunsins; þjóðin tók líka þátt í dansinum og hossaði útrásarvíkingum í kjöltu sér.“

– Eins og afreksmönnum á ólympíuleikum.

„Já, já. Icesave-reikningarnir þóttu til að mynda mikill snilldarleikur, þegar þeim var komið á fót. Nokkrum mánuðum síðar var Geir H. Haarde, einn manna, dreginn fyrir landsdóm til að gjalda fyrir það sem þjóðin nánast öll hafði hvatt hann til að gera, stuðla að útrás og útþenslu. Auðvitað voru gerð alvarleg pólitísk mistök í aðdraganda hrunsins en þau átti að úkljá í kosningum en ekki fyrir dómstólum.“

– Þú greiddir sjálfur atkvæði með því á þingi að draga Geir fyrir dóm en gengst við því í bókinni að það hafi verið verstu mistökin á þínum pólitíska ferli.

„Þetta var það hræðilegasta sem ég gerði á mínum þingferli. Níðingsverk. Ég áttaði mig raunar á því strax við atkvæðagreiðsluna eins og ljósmynd sem birtist á forsíðu Morgunblaðsins daginn eftir ber glöggt með sér (sjá hér á opnunni). Málið var lagt upp kollektíft, ákæra átti fjóra ráðherra úr báðum stjórnarflokkunum, en á endanum var Geir einn leiddur í gapastokkinn. Þarna breyttist málið að eðli til og snerist upp í ofsóknir á hendur einum manni. Það var ekki meining þeirra sem að þessu stóðu og þeim þótti þetta illt. En því betur sem ég hugsaði málið þá þótti mér þetta hafa verið rangt gagnvart öllum þeim sem átti að ákæra. Allt var þetta heiðvirt fólk sem var að reyna að gera sitt besta. Mistökin lágu í hinum pólitíska kompás. Og vissulega voru þau mistök ekki smá. En þetta voru ekki fyrstu mistökin í íslenskri pólitík og örugglega ekki þau síðustu.“

ESB-málið gríðarlega erfitt

– Annað þungt mál var umsóknin um aðild að ESB sem Samfylkingin lagði mikla áherslu á í téðu ríkisstjórnarsamstarfi þvert á vilja VG. Þar lentir þú og fleiri í miklum hremmingum, ekki satt?

„Jú, ég lenti í miklum hremmingum í ESB-málinu. Ég studdi umsóknina en var um leið gagnrýninn á aðild að Evrópusambandinu. Þarna er illskiljanleg mótsögn sem ég reyni að skýra í bókinni. Kannanir á þessum tíma, haustið 2008 og fram á vorið 2009, þegar stjórnin var mynduð, sýndu að yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar vildi ganga inn í ESB og taka upp evru. Þessu urðum við að bregðast við á einhvern hátt. Mér þótti eðlilegt að bera málið undir þjóðina við upphaf þessarar vegferðar en taldi það jafnframt stórvarasamt því líkur væru á að við myndum tapa þeirri atkvæðagreiðslu.“

– Af hverju keyrði Samfylkingin þá ekki á þjóðaratkvæðagreiðsluna?

„Það var vanhugsað af hennar hálfu að gera það ekki. Össur [Skarphéðinsson] vildi þjóðaratkvæðagreiðslu á þessu stigi en Jóhanna ekki. Það var eins gott, því hefðu sjónarmið Samfylkingarinnar orðið ofan á í þjóðaratkvæðagreiðslu á þessu stigi hefðum við andstæðingarnir verið dæmdir til þagnar.“

– Síðan var flogið með umsóknina til Brussel.

„Já, niðurstaðan var sú að sækja um aðild án þess að spyrja þjóðina og við í VG samþykktum það gegn hörðum mótmælum innan flokksins en á þeirri forsendu að hver maður gæti galað með sínu nefi. Það gerðum við sum og ég sjálfur mjög ákveðið allan tímann meðan ég sat í þessari ríkisstjórn. Í upphafi töldum við að málinu yrði lokið á einu og hálfu ári en það gekk ekki eftir. Á þeim tímapunkti áttum við að setja niður hælana og krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu. Hefði það verið gert er ég sannfærður um að málið hefði verið út úr heiminum.“

– Svo var bullandi óánægja í grasrót flokksins allan tímann.

„Bullandi óánægja. Sem var mjög erfitt og fór illa með okkur. Sjálfur lenti ég á milli tvegga póla; annars vegar þeirra sem alls ekki vildu sækja um og hins vegar þeirra sem vildu sækja um og halda umsókinni til streitu jafnvel eftir að kjörtímabilinu lyki. Ég vildi hins vegar koma með krók á móti bragði þegar sýnt var að ESB hygðist draga málið á langinn, setja niður tímasetningu og segja að við kysum um þá niðurstöðu sem þá lægi fyrir. Þetta er ekki gerlegt sögðu nauðhyggjumenn. En auðvitað var það gerlegt sem við sem stjórnvald á Íslandi kæmum okkur saman um og þar með hefði málið verið út úr heiminum.“

– Nú hefurðu staðið fyrir utan þingið í nokkur ár, hvernig líst þér á stöðuna í dag og nýju gömlu ríkisstjórnina sem var að taka við?

„Þetta stjórnarmynstur hefði verið í góðu lagi í móðuharðindunum eða í heimsstyrjöld en gengur ekki núna. Nú heyrir maður að þau ætli að ná sátt um kvótakerfið. Sátt um hvað og við hvern? Og hverjar eiga áherslur okkar í utanríkismálum að vera? Ef menn eru sjálfum sér samkvæmir og fara eftir þeim hugsjónum sem þeir segjast hafa þá gengur þetta dæmi ekki upp. Yfirlýst markmið ganga í gagnstæðar áttir og hljóta því einhverjir að vera að svíkja sína kjósendur illa. Þetta er mjög óheilbrigt fyrir stjórnmálin og samfélag sem brýnt er að ræsa og lífga við eftir erfiða tíma. Það fylgir engin örvun þessari ríkisstjórn.“

– Ertu með þessu að segja að við séum dæmd til stöðnunar?

„Já, það finnst mér. Það er verið að frysta hin félagslegu viðhorf sem er afleitt á tímum þegar hinn þungi straumur í heiminum öllum er á forsendum fjármagnsins. Það er málið. Gegn því þarf að rísa upp og hvernig fara vinstrimenn að því? Ekki með því að komast að einhverjum málamiðlunum í litlum herbergjum. Þvert á móti þarf að fara með kyndlana um samfélagið og fíra upp.“

– En bauð það sem kom upp úr kjörkössunum upp á eitthvað annað mynstur?

„Það hefði alveg verið hægt að mynda annars konar og mun skárri stjórn. Nú eða þá skipa sér í stjórnarandstöðu. VG hafði ekki lítil áhrif í stjórnarandstöðu fyrsta áratuginn sem sá flokkur lifði. Ekki vanmeta áhrif vígreifrar baráttu.“

Allir geta lært

– Er Samfylkingin þá vænlegri til samstarfs nú en hún var á árunum 2009-13?

„Allir geta lært og athyglisvert var að þegar skoðanakönnun var gerð um afstöðu fólks til einkareksturs í heilbrigðisþjónustunni fyrir síðustu kosningar kom í ljós að 100% kjósenda Samfylkingarinnar voru á hinni félagslegu sveif. Kjósendur eru lykilatriðið í þessari jöfnu; það er miklu auðveldara fyrir þá sem kosnir eru á félagslegum forsendum að ná saman en að vinna með einhverjum sem kosnir eru á allt öðrum forsendum. Í því er ekki fólgin nein lítilsvirðing gagnvart andstæðingi á öndverðum meiði heldur þvert á móti virðing við hann og kjósendur hans. Hægrisinnaðir kjósendur hafa ekkert síður verið sviknir, þó í minna mæli sé, því undansláttur gagnvart þeim hefur verið minni en gagnvart vinstri sinnuðum kjósendum. Í stuttu máli þá ganga þessi kaffibollastjórnmál, þar sem keppikefli er það eitt að sigla lygnan sjó, ekki til lengdar.“

Ögmundur nefnir í þessu sambandi átökin á íslenskum vinnumarkaði á níunda og sérstaklega tíunda áratugnum sem hverfðust um tvo stórviðburði, annars vegar verkfall BSRB 1984 og hins vegar Þjóðarsáttina 1990. Um þetta fjallar hann ítarlega í bókinni.

„Þarna voru tveir meginstraumar í þjóðfélaginu; annars vegar var kauphækkunarkrafan samfara gagnrýni á hávaxtastefnu fjármálakerfisins og hins vegar verðhjöðnunarstefna en þessi sjónarmið sameinuðust í Þjóðarsáttinni svokölluðu. Sjálfur hafði ég fylgt kauphækkunarmönnum og andstæðingum fjármálaokurs í Sigtúnshópnum. Í dag er vísað í Þjóðarsáttina eins og verið sé að fletta upp í helgiritum en veruleikinn var allt annar. Meginhluti þjóðarinnar sagði sig nefnilega fljótlega frá Þjóðarsáttinni þegar hún sá að böggull fylgdi skammrifi. Hann var sá að nota átti lognið og stöðugleikann til að umbylta samfélaginu í þágu markaðshyggju. Menn byrjuðu til dæmis fljótlega að selja aðgang að heilsugæslustöðvum, sem var ókeypis hér áður. Þjónustugjöldin áttu að innræta sjúklingum kostnaðarvitund, eins og það var kallað. Þannig hófu menn undirbúning markaðsvæðingar sem var þá að byrja að gera vart við sig alþjóðlega. Lognið sem þarna skapaðist var með öðrum orðum misnotað. Síðar hafa menn búið til nýjar sáttir, svo sem með draumi um SALEK sem átti að færa samninga á vinnumarkaði undir handarjaðar sérfræðinga á miðstýrðu borði og nú síðast Lífskjarasamninginn. Þegar ég heyrði þá nafngift fór um mig enda ljóst að einhver auglýsingastofan hafði komið að málum og markmiðið að búa til það andrúmsloft að þeir sem vildu ganga lengra eða gera hlutina öðruvísi en miðstýrt vald vildi væru að eyðileggja „lífskjarasamninginn“. Og það var alveg bannað. Hvað, ertu á móti bættum lífskjörum? Sjálfur vil ég hafa hemil á verðlagi, vöxtum og svo framvegis og er ekki andvígur samfloti í kjarasamningum en svo eru mörk, ég vil ekki handjárna alla þjóðina. Það þarf að vera líf í tuskunum og ákveðinn hreyfanleiki. Það á ekkert síður við á vinnumarkaðnum en í stjórnmálunum. Það er fyrst og fremst straujárnið sem ég er á móti; þessi vinna má ekki fara fram undir straujárni sem „sérfræðingar“ stýra.“

Áhugsamur um fréttamennsku

Við ljúkum spjalli okkar þar sem við hófum það, á fjölmiðlum. Ögmundur var í áratug, frá 1978-88, fréttamaður á Ríkissjónvarpinu, starf sem hann sótti um fyrir orð tengdaföður síns, Andrésar Björnssonar, þáverandi útvarpsstjóra. Í bókinni kemur fram að hann hafi kunnað ákaflega vel við sig í fréttunum og gat hæglega hugsað sér að gera það að ævistarfi sínu. Það varð þó ekki.

„Ég fór í sagnfræði og stjórnmálafræði án þess að vita hvað ég vildi taka mér fyrir hendur. Ég sóttist eftir almennri menntun sem síðan gagnaðist mér ágætlega í fréttamennskunni. Ég var mjög áhugasamur um það starf og gat alveg hugsað mér það til frambúðar. En ég vildi líka vera virkur í samfélaginu. Áður en yfir lauk áttaði ég mig þó á því að ekki voru allir áhugasamir um það. Ég sóttist eftir starfi fréttastjóra Ríkissjónvarpsins árið 1988 og þrátt fyrir góðan stuðning starfsmanna fór það á annan veg. Þá steig ég inn á annan vettvang, var kjörinn formaður BSRB, sem átti ágætlega við mig. Sjálfur sé ég ekkert því til fyrirstöðu að blaða- og fréttamenn taki þátt í hinni pólitísku umræðu, ef þeir svo kjósa. Síðan skulum við bara dæma þá af verkum þeirra. Sjálfur vildi ég láta dæma mig af verkum mínum en ekki hvað ég segði annars staðar. Hvernig rækti ég starf mitt? Ég lagði í mínum störfum ríka áherslu á að öll sjónarmið kæmust að, bæði frá hægri og vinstri. Við það voru ekki allir sáttir. Vildu bara sinn uppáhaldslit.“

Talandi um skoðanir blaðamanna þá kveðst Ögmundur sjá eftir gömlu flokksblöðunum. „Ég hef alltaf viljað skoðanir og sjá skarpar línur. Þannig var það á tímum flokksblaðanna. Hart var tekist á, líf of fjör. Og maður vissi hvar allir stóðu.“

– Þú gagnrýnir suma fjölmiðla í bókinni fyrir einhliða fréttaflutning í Icesave-málinu. Voru þeir hlutdrægir í því máli?

„Já, sumir. Sérstaklega Ríkisútvarpið og Fréttablaðið. Sama staða var uppi í orkupakkamálinu. Morgunblaðinu og Stöð 2 gekk betur að leiða fram ólík sjónarmið eins undarlegt og það kann nú að hljóma að þessi orð komi frá mér. En þannig var það.“

Hann segir fjölmiðlun enn þá heilla sig og mjög áhugavert sé að fylgjast með því sem er að gerast á þeim vettvangi í dag.

„Margir fögnuðu því þegar samfélagsmiðlarnir komu fram á sjónarsviðið, þar með opnaðist almenningi leið inn í umræðuna. En viti menn, þar eru krumlur fjármálavaldsins komnar sem annars staðar og loka bara á menn ef þeim líkar ekki hvað þeir eru að segja. Mér leist ekki á blikuna þegar farið var að tala um upplýsingaóreiðu og að koma þyrfti skikk á hana. Hvar endar sú vegferð? Ríkisvaldið er farið að teygja sig þarna inn, eftir atvikum í samkrulli við þá sem eiga þessa stóru miðla eins og Twitter og Facebook. Þá er nú stutt fram á bjargbrúnina fyrir lýðræðið. Fjölmiðlun er gríðarlega mikilvæg í lýðræðissamfélagi enda byrja einræðisöflin, þar sem þau vilja festa sig í sessi, alltaf á að loka þeim eða beygja þá undir sig. Varðstaða um frjálsa fréttamennsku, góða og mikla umfjöllun er lykilatriði fyrir framtíð lýðræðisþjóðfélagsins.“