Stórmót Elliði Snær Viðarsson verst svissneskum leikmanni á HM í Egyptalandi. Nú liggur leiðin á EM þar sem Ísland mætir Portúgal á föstudaginn.
Stórmót Elliði Snær Viðarsson verst svissneskum leikmanni á HM í Egyptalandi. Nú liggur leiðin á EM þar sem Ísland mætir Portúgal á föstudaginn. — AFP
EM 2022 Kristján Jónsson kris@mbl.is „Maður er orðinn frekar spenntur þótt ekki sé alveg komið að mótinu. Manni finnst það alla vega því dagarnir eru lengi að líða. Menn eru klárir í þetta og það er augljóst. Æfingarnar eru að verða harðari og harðari,“ sagði Elliði Snær Viðarsson, landsliðsmaður í handknattleik, þegar Morgunblaðið ræddi við hann.

EM 2022

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

„Maður er orðinn frekar spenntur þótt ekki sé alveg komið að mótinu. Manni finnst það alla vega því dagarnir eru lengi að líða. Menn eru klárir í þetta og það er augljóst. Æfingarnar eru að verða harðari og harðari,“ sagði Elliði Snær Viðarsson, landsliðsmaður í handknattleik, þegar Morgunblaðið ræddi við hann.

Landsliðið undirbýr sig nú hér heima fyrir EM í Ungverjalandi og Slóvakíu en fyrsti leikur Íslands er eftir viku. Elliði lék stórt hlutverk í miðri vörn íslenska liðsins á HM í Egyptalandi í fyrra. Lærði Elliði mikið á HM?

„Það er alveg óhætt að segja. Ég dró mikinn lærdóm af mótinu. Þetta var eldskírn fyrir mig en engin pressa á mér heldur. EM verður allt annað mót fyrir mig vegna þess að allt aðrar kröfur eru gerðar til mín á þessu móti heldur en því síðasta.“

Elliði varð 23 ára í nóvember og er á sínu öðru ári hjá Gummersbach í næstefstu deild í Þýskalandi. Elliði er á þeim aldri þar sem leikmenn geta tekið miklum framförum.

„Mér finnst ég hafa tekið miklum framförum í Þýskalandi. Ég hef unnið mikið í því að styrkja mig og hef komið mér betur fyrir í Þýskalandi en þar er spilaður aðeins öðruvísi handbolti en hér heima. Allir sem sjá mig spila vita að mér veitir ekki af fleiri kílóum og unnið er markvisst að því,“ segir Elliði.

Getur tekið smá tíma

Ef nálgun íslenska liðsins á EM verður í framhaldi af HM í fyrra þá mun töluvert mæða á Elliða í vörninni í mótinu. Hefur landsliðið eytt meiri tíma í vörn eða sókn í undirbúningi sínum fyrir EM til þessa?

„Þetta helst svolítið í hendur. Þegar þú æfir vörnina þá geturðu æft sóknina í leiðinni. Undanfarið voru tveir dagar þar sem meiri áhersla var lögð á sókn og næstu tvo daga var meiri áhersla lögð á vörn. Við höfum einnig spilað aðeins í lok æfinga og reynum að finna réttu blönduna. Hverjir eiga best saman inni á vellinum. Það getur alltaf tekið smá tíma að slípa sig saman,“ sagði Elliði og í hans huga er ekki ástæða til að velta sér of mikið upp úr því að Ísland fái ekki vináttulandsleiki fyrir EM eftir að áætlaðir vináttuleikir gegn Litháen duttu upp fyrir.

„Nei, það er ekki vandamál þannig séð. Við höfum þá meiri tíma til að æfa sem lið. Ég vil meina að við komum ferskari inn í mótið því mikil orka hefði getað farið í tvo vináttuleiki. Maður skilur þessa ákvörðun hjá Litháunum enda eru allir að reyna að fara eins varlega og hægt er varðandi veiruna.“

Ánægja með störf Guðjóns

Gummersbach var í baráttu um að komast upp um deild á síðasta tímabili en gaf eftir þegar leið á tímabilið. Nú er liðið aftur í góðri stöðu þegar tímabilið er hálfnað.

„Eins og staðan er núna þá mætti flauta tímabilið af því þá værum við komnir upp. Við erum frekar brattir en höfum því miður brennt okkur aðeins í desember. Við vorum frekar lélegir í tveimur leikjum í desember. Þótt við höfum verið efstir megnið af tímabilinu þá er hörkusamkeppni um að komast upp í efstu deild. Við megum því ekki misstíga okkur en það er ekkert launungamál að við stefnum á að fara upp. Við klúðruðum því sjálfir á síðasta tímabili. Hvernig sem stendur á því. Það urðu óvænt úrslit í tveimur til þremur leikjum sem gerðu það að verkum. Þá töpuðum við fyrir liðum sem voru neðar í deildinni en við,“ segir Elliði en hann leikur undir stjórn Guðjóns Vals Sigurðssonar hjá Gummersbach. Guðjón hefur mikla reynsla sem leikmaður en er aðeins á sínu öðru tímabili sem þjálfari.

„Ég held að hann sé kominn lengra sem þjálfari en hægt sé að ætlast til eftir svo stuttan tíma í starfi. Guðjón hefur ákveðnar skoðanir og vill spila hraðan og skemmtilegan handbolta. Við viljum auðvitað spila góða vörn enda er það nauðsynlegt og spila léttleikandi í sókn. Það er mjög mikil ánægja með hans störf hjá Gummersbach. Margir ungir leikmenn eru hjá félaginu sem hentar leikstílnum nokkuð vel,“ segir Elliði Snær Viðarsson.