Evrópuleikir Sunna Jónsdóttir og samherjar í ÍBV mæta Sokol Pisek frá Tékklandi tvisvar í Vestmannaeyjum um helgina, í dag og á morgun.
Evrópuleikir Sunna Jónsdóttir og samherjar í ÍBV mæta Sokol Pisek frá Tékklandi tvisvar í Vestmannaeyjum um helgina, í dag og á morgun. — Morgunblaðið/Íris Jóhannsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Handbolti Bjarni Helgason bjarnih@mbl.

Handbolti

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is „Þetta verkefni leggst ótrúlega vel í okkur og sjarminn yfir Evrópukeppninni er öðruvísi en gengur og gerist þannig að tilhlökkunin í leikmannahópnum er mikil,“ sagði Sunna Jónsdóttir, leikmaður kvennaliðs ÍBV í handknattleik, í samtali við Morgunblaðið.

ÍBV mætir Sokol Pisek frá Tékklandi í sextán liða úrslitum Evrópubikarsins í dag og á morgun en báðir leikirnir fara fram í Vestmannaeyjum.

„Það er mjög þægilegt fyrir okkur að báðir leikirnir fara fram í Eyjum og þetta hentar okkur vel því að við erum með nokkra útlendinga í hópnum sem eru nýkomnir aftur til Vestmannaeyja eftir jólafrí. Það hefði verið erfitt og leiðinlegt fyrir þær að þurfa að rífa sig upp fyrir langt og erfitt ferðalag, sérstaklega í miðjum kórónuveirufaraldri.

Við erum þess vegna mjög ánægðar og þakklátar fyrir það að spila í Eyjum. Heimavöllurinn hefur alltaf verið einn af okkar styrkleikum, líka núna þrátt fyrir að það verði minna um áhorfendur vegna faraldursins, og okkur líður best í Eyjum,“ sagði Sunna.

ÍBV sló grísku liðin PAOK og Panorama út í 2. og 3. umferð keppninnar en Eyjaliðið lék báða leikina við PAOK í Grikklandi en báða við Panorama í Eyjum.

„Við renndum aðeins blint í sjóinn í þessari keppni og það eru margir leikmenn í hópnum sem voru að spila sína fyrstu Evrópuleiki á þessari leiktíð. Þetta hefur verið ótrúlega gaman og þetta er frábær reynsla að taka þátt í svona verkefni.

Við höfum haft það að markmiði að taka einn leik fyrir í einu og á sama tíma höfum við líka verið ágætlega heppnar með mótherja. Við erum mjög stoltar af þeim árangri sem við höfum náð og markmiðið er að sjálfsögðu að fara áfram í átta liða úrslitin.“

Annar sjarmi í Evrópu

ÍBV hefur ekki gengið sem skyldi á Íslandsmótinu en liðið er í sjöunda og næstneðsta sæti úrvalsdeildarinnar með 4 stig eftir sjö leiki.

„Það er annar sjarmi yfir þessu og það er öðruvísi undirbúningur sem fylgir þessum leikjum, samanborið við þá leiki sem maður er vanur að spila hérna heima í deildinni og bikarnum. Þetta er líka frábær stökkpallur fyrir unga leikmenn sérstaklega. Mér finnst ótrúlega mikilvægt að íslensk lið nýti sér þáttökurétt sinn í þessum Evrópukeppnum og reyni eftir fremsta megni að vera með í þessum keppnum.

Á sama tíma fylgir þessu mjög mikill kostnaður en við höfum verið heppnar og höfum því ekki þurft að borga fyrir þátttökuna í ár úr eigin vasa. Við höfum verið mjög duglegar þegar kemur að öllu sem snýr að fjáröflun og eins þá hafa fyrirtækin hérna í Vestmannaeyjum staðið mjög þétt við bakið á okkur sem hefur verið ómetanlegt.“

Getur ÍBV farið alla leið í keppninni í ár?

„Við höldum áfram að taka einn leik fyrir í einu og svo sjáum við bara til hverju það mun skila okkur,“ sagði Sunna við Morgunblaðið.