Ágúst Elí Björgvinsson
Ágúst Elí Björgvinsson
Ágúst Elí Björgvinsson, landsliðsmarkvörður í handknattleik, skiptir um félag í Danmörku í sumar og gengur til liðs við Ribe-Esbjerg frá Kolding þar sem hann hefur samið til tveggja ára.

Ágúst Elí Björgvinsson, landsliðsmarkvörður í handknattleik, skiptir um félag í Danmörku í sumar og gengur til liðs við Ribe-Esbjerg frá Kolding þar sem hann hefur samið til tveggja ára. Ekki verður um langt ferðalag að ræða við vistaskiptin því aðeins 70 kílómetrar eru á milli borganna á sunnanverðu Jótlandi.

Ágúst er á öðru tímabili sínu með Kolding sem er í hörðum fallslag en liðið er í þrettánda sæti af fimmtán liðum í dönsku úrvalsdeildinni þar sem tvö neðstu liðin falla. Ribe-Esbjerg er hins vegar í áttunda sæti, reyndar aðeins fjórum stigum ofar, en í mikilli baráttu um að komast í átta liða úrslitin um danska meistaratitilinn.

Ágúst er 26 ára gamall FH-ingur og varði mark Hafnarfjarðarliðsins þar til hann gekk til liðs við Sävehof í Svíþjóð árið 2018 og lék þar í tvö ár. Hann hefur verið fastamaður í íslenska landsliðinu að undanförnu, á 41 landsleik að baki og er einn þriggja markvarða þess sem eru á leið á Evrópumótið í næstu viku. vs@mbl.is