En mikið kveikti það í mér að kannski prófa á nýju ári að standa upp úr sófanum, setja á mig húfu og vettlinga og arka af stað út í kuldann.

Það er alltaf svolítið erfitt að koma sér á fætur og drífa sig í vinnuna í byrjun nýs árs. Ekki hjálpar til þegar kötturinn vekur mann klukkan fimm, svo sex, svo sjö og að lokum klukkan átta, þá búinn að hella heilu vatnsglasi á gólfið, stela hárteygjunni, henda símanum í gólfið og spígspora yfir andlit mitt. Þið gætuð hugsað: af hverju lokar hún hann ekki bara úti? Jú, það gerði ég en þá upphófst stöðugt klór á hurðina og ámátlegt mjálm.

Matarskálin reyndist auðvitað tóm og hann mjög ósáttur að vonum.

Annars er fínt að kveðja 2021, það hörmungarár í sögu mannkyns. Persónulega hef ég þó ekki yfir neinu að kvarta, enda ein af þeim heppnu; þríbólusett, aldrei fengið Covid og hvorki lent í sóttkví né einangrun. Sjö, níu, þrettán, því bara það að vera úti í bæ er eins og að spila rússneska rúllettu þessa dagana. Enginn er óhultur nema sá sem lokar sig inni og hittir engan. Líklega megum við flest búast við að smitast á næstu vikum og þá er bara að takast á við það með æðruleysi.

Eftir áralangar tilraunir til að setja mér háleit áramótaheit ætla ég að sleppa því í ár. Vissulega á að borða hollar og hreyfa sig, en það gildir svo sem alltaf þótt maður fari reglulega út af sporinu. Fyrstu dagar janúarmánaðar fara í að trappa sig niður í sykrinum því afar vont er að gera það „cold turkey“. Hausverkurinn sem fylgir er slæmur og alveg óþarfi að kvelja sig. Í janúar í fyrra var bara borðað grænt og aftur grænt og hamast í ræktinni. Nokkur kíló fuku en komu bara strax aftur í febrúar. Nú tek ég þetta hægar, enda lífsreynd kona þegar kemur að megrunarkúrum.

Það er nefnilega ljóst að þeir virka alls ekki!

Í blaði dagsins er viðtal við Leif Örn Svavarsson, ævintýra- og fjallamann með meiru. Hann kallar ekki allt ömmu sína en hann hefur til að mynda farið á hæstu fjöll allra heimsálfa og báða pólana, og það ekki einu sinni heldur tvisvar! Maður verður bara þreyttur í kringum svona fólk.

Mitt helsta afrek á sviði fjallamennskunnar er að hafa klifið Helgafellið nokkrum sinnum og Esjuna tvisvar á lífsleiðinni. En mikið kveikti það í mér að kannski prófa á nýju ári að standa upp úr sófanum, setja á mig húfu og vettlinga og arka af stað út í kuldann. Kannski upp brekku jafnvel. Mögulega lítið fjall! Sjáum til, ég lofa engu. Það er nefnilega svo gott að liggja undir teppi uppi í sófa með góða bók, nú eða liggja undir sæng og glápa á Netflix.

Og ekki vil ég enda með kalsár á fingrum!