Sveinkar Búist er við að þessir jólasveinar mæti á Hána í kvöld, líkt og þeir gerðu í fyrra og mörg undanfarin ár.
Sveinkar Búist er við að þessir jólasveinar mæti á Hána í kvöld, líkt og þeir gerðu í fyrra og mörg undanfarin ár. — Morgunblaðið/Óskar Pétur Friðriksson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Úr bæjarlífinu Ómar Garðarsson Vestmannaeyjum Þegar kemur að því að skemmta sjálfum sér og öðrum eru Vestmannaeyingar fremstir meðal jafningja og eru fundvísir á tilefni. Árið fyrir og eftir Covid byrjar með þrettándagleði sem slær öllu við í...

Úr bæjarlífinu

Ómar Garðarsson

Vestmannaeyjum

Þegar kemur að því að skemmta sjálfum sér og öðrum eru Vestmannaeyingar fremstir meðal jafningja og eru fundvísir á tilefni. Árið fyrir og eftir Covid byrjar með þrettándagleði sem slær öllu við í glæsileika. Jólasveinar, álfar, púkar, Grýla og Leppalúði að ógleymdum tröllum af öllum stærðum og gerðum koma til byggða til að skemmta Eyjamönnum áður en þau halda heim á leið.

Allt byrjar þetta á Hánni , einu af fjöllunum við bæinn. Þar hefst blysför jólasveinanna með stórkostlegri flugeldasýningu. Þramma þeir niður snarbratta og stundum glerhála hlíðina. Blysin stór og þung og eldsneytið, torf sótt norður í Eyjafjörð.

Upphaf þrettándagleðinnar með þessu sniði má rekja aftur til miðrar síðustu aldar en uppákomur tengdar þrettándanum eiga sér lengri sögu í Eyjum. Þá voru íbúarnir grænir og bláir, grænn var einkennislitur Knattspyrnufélagsins Týs sem á heiðurinn af þrettándagleðinni. Íþróttafélagið Þór var blátt í gegn og þeir hörðustu hrósuðu sér af því að hafa aldrei borðað grænar baunir.

Harður kjarni Týrara byrjaði leikinn og svo komu nýjar kynslóðir sem tóku við kyndlinum og bættu um betur. Það er mikil sæmd að fá að klæðast jólasveinabúningi. Gengur svo langt að menn þora ekki að veikjast. Geta misst stöðuna í hendur einhvers annars sem er ófús að sleppa kyndlinum á næsta ári. Þarna er líka heiður fjölskyldunnar í hættu því jólasveinastöður ganga í erfðir frá föður til sonar.

Nú liggja Þór og Týr í dvala og hafa frá árinu 1997 gengið fram undir merkjum ÍBV. Hafa Týrarar í þeim bræðingi og líka Þórarar séð til þess að þrettándagleðin heldur sessi sínum og vel það. Ekki voru hörðustu Týrarar sáttir við þá ákvörðun ÍBV að halda sig ekki við sjötta janúar heldur þá helgina sem liggur næst þrettándanum, föstudaginn og hafa þá laugardaginn upp á að hlaupa ef veður er til ama.

Aftur að gleðinni . Þegar jólasveinar koma niður bíður þeirra misfríður hópur trölla og púka og stærstur hluti bæjarbúa ásamt gestum. Gengið er í gegnum bæinn sem jólasveinar fara fyrir og á eftir koma foreldrarnir, Grýla og Leppalúði í viðhafnarvagni. Heilsað er upp á íbúa Hraunbúða áður en safnast er saman við bálköstinn við Löngulág.

Þar er dansað og duflað og stundum finnst þeim yngstu nóg um lætin en gleðin er allsráðandi og þeir sem að gleðinni standa fá sína umbun fyrir mikla vinna. Verða til minningar sem lifa og draga að brottflutta sem vilja að börnin kynnist því sem þau upplifðu í æsku.

Í fyllingu tímans halda Grýla og Leppalúði og þeirra hyski til heimkynna sína í Helgafelli með viðkomu á Sjúkrahúsinu. Gestir fara heim þar sem bíður heitt kakó og meðlæti og kannski eitthvað út í. Allir meira en sáttir með gleðina sem lýsir upp svartasta skammdegið.

Grímuball Eyverja , félags ungra sjálfstæðismanna, hefur í áratugi verið hluti af þrettándanum í Eyjum. Þar fær hugmyndaflug foreldranna að njóta sín þegar kemur að því að útbúa búninga á börnin. Og keppnin er mikil því vegleg verðlaun eru í boði. Sem dæmi má nefna að eitt árið þóttu hafmeyja, fiðrildi, eðla, ljón og snjókarlar skara fram úr.

Þessu sem hér er lýst á ekki við daginn í dag því þrettándagleðin í kvöld verður í mýflugumynd. Jólasveinar mæta á Hána en engin verður gangan. Kófið nær ekki að kæfa alveg en ÍBV fer að settum reglum um sóttvarnir. Það á líka við grímuballið sem verður að bíða. En hvers vegna að velta fyrir sér því sem varla verður?

Svarið er einfalt . Í fyrsta lagi er þetta skrifað öllum sjálfboðaliðum til heiðurs. Ekki síst úti á landi þar sem er til staðar fólk sem hefur metnað fyrir sitt bæjarfélag og vill hag þess sem mestan. ÍBV-íþróttafélag er gott dæmi um þetta. Auk þess að standa fyrir þrettándagleði, þjóðhátíð, tveimur stórum knattspyrnumótum ungmenna og öflugu unglingastarfi teflir félagið fram meistaraflokkum í efstu deildum karla og kvenna í fótbolta og handbolta.

Seinni ástæðan er að ekki er ástæða til að tína til fréttir af vettvangi dagsins frá Vestmannaeyjum á þessum vettvangi. Þar hefur Morgunblaðið staðið sig mjög vel. Höfum við Óskar Pétur Friðriksson verið í framlínunni og heiður fyrir okkur að vera lítil hjól á öflugri fréttastofu Morgunblaðsins. Hjá öðrum fjölmiðlum, nema Stöð 2, eru Vestmannaeyjar því miður utan seilingar.