[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Leikstjórn og handrit: Adam McKay. Aðalleikarar: Leonardo DiCaprio, Jennifer Lawrence, Rob Morgan, Jonah Hill, Mark Rylance, Tyler Perry, Timothée Chalamet, Ron Perlman, Ariana Grande, Scott Mescudi, Himesh Patel, Melanie Lynskey, Cate Blanchett og Meryl Streep. Bandaríkin, 2021. 138 mín.

E kki horfa upp eftir Adam Mckay er byggð á sannri sögu sem hefur ekki enn átt sér stað. Adam McKay stillir upp mögulegum aðstæðum til þess að varpa ljósi á vandamál nútímasamfélags.

Kate Dibiasky (Jennifer Lawrence), doktor í stjörnufræði við Michigan State University, uppgötvar áður óþekktan loftstein rétt innan við braut Júpíters. Prófessorinn hennar, dr. Randall Mindy (Leonardo DiCaprio), reiknar út að loftsteinninn stefnir í átt að jörðinni og er nógu stór til að eyða öllu lífi á jörðu sem NASA staðfestir síðar. Dibiasky og Mindy kynna niðurstöður sínar í Hvíta húsinu þar sem þau mæta algjöru áhugaleysi hjá Janie Orlean (Meryl Streep) forseta og syni hennar og starfsmannastjóra, Jason (Jonah Hill). Við tekur erfið atburðarás þar sem dúóið, Dibiasky og Mindy, reynir að sannfæra stjórnvöld og almenning um að mannkynið eigi aðeins sex mánuði eftir ólifað sé ekki brugðist við strax. Vandamálið er ekki að okkur skorti tæknina til þess að koma í veg fyrir þessi örlög heldur vilji stjórnvalda og almennings til þess að ganga í málið. Stjórnmálamenn gera atburðinn að pólitísku máli og líta á hann sem kenningu en ekki vísindalega staðreynd og almenningur fylgir fljótt í kjölfarið þar sem fólk er of upptekið við að fylgjast með stjörnuparinu, Riley Bina (Ariana Grande) og DJ Chello (Kid Cudi).

Söguþráður kvikmyndarinnar er klók leið til þess m.a. að varpa ljósi á þá miklu ógn sem stafar af gróðurhúsaáhrifum sem stjórnvöld og almenningur virðist í sífellu efast um, jafnvel þó að hús nágrannans brenni til kaldra kola. Um leið og söguþráðurinn gagnrýnir aðgerðaleysi stjórnvalda og almennings varpar Mckay einnig ljósi á raunverulegt kostnaðargjald kapítalisma þar sem neysla er ofar öllu. Skýrt dæmi um þetta í kvikmyndinni er þegar milljarðamæringurinn og forstjóri tæknifyrirtækisins BASH, Peter Isherwell (Mark Rylance), er að kynna nýjustu símategundina, BASH liif 14.3. Bash liif hljómar einnig eins og „bash life“ en það er einmitt það sem Peter Isherwell kemur til með að gera í lok kvikmyndarinnar, slá lífið, og um leið áhorfandann, utan undir. Í kynningunni sýnir hann hvernig síminn mælir vellíðan eiganda síns og hvernig síminn bregst við. Hann tekur sem dæmi myndskeið af hvolpi sem liggur ofan á hænu en því er ætlað að kæta dapran eiganda. Í þessu atriði sýnir Mckay hvernig tæknin hefur snúist gegn okkur í búningi tækniframfara þar sem myndskeiðið kemur í veg fyrir að neytandi dvelji í raunverulegum og oft krefjandi tilfinningum eins og sorg. Í þessu tilviki sviptir síminn neytandann valdi og heldur honum um leið uppteknum við annað efni en það sem skiptir raunverulegu máli, eins og hæg eyðing jarðar. Mark Rylance leikur Peter Isherwell stórkostlega með því að bregða sér í form Mark Zuckerberg og annarra vélmenna.

Ofangreint atriði er eitt af ófáum atriðum myndarinnar sem eru bein ádeila á samfélagsmiðla sem bregða hulu yfir það sem skiptir raunverulegu máli og hafa oft gífurleg áhrif á pólitískar skoðanir einstaklinga. Það er þessi beitta gagnrýni á ýmsa bresti samfélagsins sem heillar marga áhorfendur.

Kvikmyndin er þó ekki allra og hefur m.a. verið gagnrýnd fyrir að innihalda of margar persónur sem leiknar eru af stórstjörnum en bæta engu við söguþráðinn eins og Yule sem Timothée Chalamet leikur. Það sem virðist hins vegar fara fram hjá sumum gagnrýnendum eru tengsl stórstjarnanna við raunheiminn. Áhorfendur eru minntir á það að þeir vita ef til vill meira um ástarlíf Chris Evans heldur en loftslagsáhrif. Þegar áhorfendur sjá Timothée Chalamet þá sjá þeir, þar af leiðandi, kyntákn ungu kynslóðarinnar en ekki þann guðhrædda uppreisnarsegg sem hann leikur. Önnur gagnrýni beinist að því hvernig Mckay leyfir sér að flakka á milli kvikmyndagreina. Í fyrstu virðist myndin vera dramamynd en þegar lengra líður á kvikmyndina færist hún nær gamanmynd þar sem svartur húmor er í fyrirrúmi. Þetta flakk veldur ákveðnum tilfinningasveiflum meðal áhorfenda sem eru nauðsynlegar því líkt og hjá persónum myndarinnar getur stundum reynst erfitt að gera greinarmun á röngu og réttu í hinu kapítalíska samfélagi.

Ekki horfa upp er erfið áhorfs af því hún minnir okkur á þau örlög sem við stöndum frammi fyrir ef við höldum áfram í sama fari og skilur eftir sig ónotatilfinningu þrátt fyrir að vera stórfyndin. Áhorfendur geta þá alltaf leitað til samfélagsmiðla til þess að kæta sig; eitt hundamyndband á dag kemur skapinu í lag!

Jóna Gréta Hilmarsdóttir

Höf.: Jóna Gréta Hilmarsdóttir