Brú milli húsa Starfsstöðvar Landsbankans við Hafnarstræti og Tryggvagötu eru tengdar með veglegri göngubrú.
Brú milli húsa Starfsstöðvar Landsbankans við Hafnarstræti og Tryggvagötu eru tengdar með veglegri göngubrú. — Morgunblaðið/Eggert
Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is Hafinn er undirbúningur að sölu fasteigna Landsbankans við Hafnar- stræti en reiknað er með að bankinn flytji í nýjar höfuðstöðvar í Austur- höfn við Reykjavíkurhöfn í árslok. Þessar upplýsingar fékk Morgunblaðið hjá Rúnari Pálmasyni upplýsingafulltrúa bankans.

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Hafinn er undirbúningur að sölu fasteigna Landsbankans við Hafnar- stræti en reiknað er með að bankinn flytji í nýjar höfuðstöðvar í Austur- höfn við Reykjavíkurhöfn í árslok. Þessar upplýsingar fékk Morgunblaðið hjá Rúnari Pálmasyni upplýsingafulltrúa bankans.

Landsbankinn er nú með starf- semi í 12 húsum í miðborginni og á fjögur þeirra (Hafnarstræti 10, 12 og 14 og Austurstræti 11). Bankinn mun við flutningana í árslok hætta notkun þessara húsa. Leigusamningar vegna átta húsa renna flestir út á þessu ári. Húsin við Hafnarstræti eru samtals um 3.000 fermetrar að stærð.

Sögulegt hús og friðað

Rúnar segir að sérstaklega verði hugað að framtíð Austurstrætis 11 (Landsbankahússins) enda hafi húsið menningarlegt og sögulegt gildi og sé friðað. „Við munum leita leiða til að húsið fái notið sín til framtíðar,“ segir Rúnar.

Framkvæmdir við nýbyggingu Landsbankans í Austurhöfn ganga vel og eru að mestu leyti í samræmi við áætlanir, upplýsir Rúnar. Nú er gert ráð fyrir að bankinn flytji í hús- ið í lok árs 2022, um hálfu ári seinna en upphaflegar áætlanir frá 2018 gerðu ráð fyrir.

Árið 2020 var áætlað að húsið myndi kosta um 11,8 milljarða króna. Ofan á þá fjárhæð bætast breytingar á byggingarvísitölu en áhrif vegna Covid-19 hafa leitt til þess að ýmis byggingarefni hafa hækkað í verði.

„Ótímabært að fjalla um áætlun um endanlegan kostnað því við erum enn að semja um ýmsa þætti sem geta haft áhrif til hækkunar eða lækkunar,“ segir Rúnar.

Landsbankinn keypti lóðina Aust- urbakka 2 árið 2014. Efnt var til arki- tektasamkeppni og báru Arkþing ehf. og C.F. Møller sigur úr býtum. Tillaga þeirra heitir Kletturinn. Gerð aðaluppdrátta nýrra höfuðstöðva Landsbankans lauk í desember 2018 og í kjölfarið sótti bankinn um byggingarleyfi til byggingarfulltrúans í Reykjavík.

Sótt var um leyfi til að byggja „steinsteypt 5 hæða verslunar- og skrifstofuhús, einangrað að utan og klætt blágrýti, með tveggja hæða bílageymslu fyrir 102 bíla undir hluta húss á reit 6 á lóð nr. 2 við Austurbakka,“ sagði í umsókn Landsbankans. Fram kom í umsókninni að heildarstærð hússins með bílakjallara yrði 21.497 fermetrar. Húsið sjálft verður 16.500 fermetrar. Bankinn hyggst nýta um 10.000 m 2 í nýju húsi, um 60% af flatarmáli hússins, en selja eða leigja frá sér um 6.500 m 2 sem nýtist fyrir verslun og aðra þjónustu. Í framhaldi af útboði var samið við ÞG verk um að byggja húsið og hófust framkvæmdir í ágúst 2019.

Offramboð á atvinnuhúsnæði?

Þegar Landsbankinn flytur í nýja húsið losnar tæplega 15 þúsund fer- metra skrifstofuhúsnæði í miðbæn- um. Bent hefur verið á að þetta kunni að leiða til offramboðs á atvinnuhúsnæði í miðbænum. Reykjavíkurborg hefur haft til skoðunar að að heimila umbreytingu á skrifstofu- húsnæði á svæðinu í íbúðir.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sagði í viðtali við Morgunblaðið í nóvember 2020 að slík breyting geti falið í sér tækifæri til að fjölga íbúðum og þannig færa líf í Kvosina eftir að hefðbundnum skrifstofutíma lýkur.