Sigurbjörn Þorkelsson
Sigurbjörn Þorkelsson
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson: "Við þurfum nauðsynlega á orkuskiptum í mannlegum samskiptum að halda. Hollum og nærandi náttúrulegum kærleikslausnum."

Ég held að við þurfum nú öll að núllstilla. Hugsa okkar gang, endurræsa. Við erum í raun á hálfgerðum byrjunarreit. Jafnt í trúmálum sem og í umgengni hvert við annað, náttúruna og loftslagið.

Við búum yfir mikilli sögu, hafsjó af þekkingu og reynslu aldanna en erum þó með skammtímaminni. Ekki síst við sem höldum okkur alltaf hafa allt á hreinu og svörin við öllum ráðgátum mannsins.

Ég held að við þurfum öll að taka háttaskiptum með endurnýjun hugarfarsins. Við þurfum nefnilega nauðsynlega á orkuskiptum í mannlegum samskiptum að halda. Hollum og nærandi náttúrulegum kærleikslausnum.

Þar sem við tökum að sjá hvert annað með kærleiksríkum augum Jesú Krists, frelsara þessa heims, sem á uppsprettu sína í hjarta Guðs, höfundar og fullkomnara lífsins.

Endurnýjanleg orka

Við þurfum á þeirri endurnýjanlegu orku að halda frá degi til dags. Hinni einu sönnu lífvænlegu orku sem Jesús Kristur er. Þeirri einu orku sem varir ekki aðeins á milli staða eða út daginn og ekki aðeins ævinlega heldur eilíflega.

Hjartafylli

Við þurfum að leiðrétta alls konar kúrsa í höfðinu á okkur. Við þurfum að biðja um að fá hjartafylli af frelsaranum, Jesú, og heilögum anda hans.

Við þurfum á sálgæslu hvert annars að halda, ekki dómgæslu. Samstöðu, skilningi og stuðningi en ekki hræðsluáróðri og baktali og því að gera lítið úr eða tortryggja hvert annað.

Það sem meðal annars er að fara með okkur er samanburður og öfund. Okkur var aldrei ætlað að vera eins eða með sömu skoðanir en við vorum kölluð til að verða samferða, vera eitt í Kristi Jesú. Lifa í auðmýkt og tillitssemi, virðingu og þakklæti fyrir sköpunina og yfir sigri lífsins.

Þakkir

Um leið og ég bið og óska landsmönnum öllum blessunar Guðs á nýju og spennandi ári, kærleika og friðar vil ég fá að nota tækifærið og þakka fyrir gefandi og uppörvandi samferð á ævinnar vegi fram á þennan dag. Þá þakka ég Morgunblaðinu og fulltrúum þess góð samskipti og lipurð í gegnum árin og lesendum þess öllum fyrir lestur greina minna hér á síðum blaðsins frá árinu 1984 eða í 38 ár. Hjartans þakkir fyrir allt.

Með kærleiks- og friðarkveðju, blessunaróskum og bænum.

– Lifi lífið!

Höfundur er ljóðskáld og rithöfundur og aðdáandi lífsins.