Skipulag atvinnumannadeilda í hópíþróttum í Evrópu og Bandaríkjunum er svo ólíkt að áhugavert er að kynna sér og bera saman. Norður-Ameríka er svo fjölmenn og markaðurinn svo gífurlega stór.
Skipulag atvinnumannadeilda í hópíþróttum í Evrópu og Bandaríkjunum er svo ólíkt að áhugavert er að kynna sér og bera saman. Norður-Ameríka er svo fjölmenn og markaðurinn svo gífurlega stór. Í Bandaríkjunum eiga félögin deildirnar eins og NBA, NFL, NHL og MLB. Yfirleitt skila félögin hagnaði og eru mikils virði. Meirihlutaeigendur í bandarískum íþróttaliðum hafa til að mynda eignast meirihluta í stórum enskum knattspyrnufélögum. Sem dæmi var virði FC Liverpool innan við helming virðis Boston Red Sox en þar eru sömu meirihlutaeigendur. Nú er virði Liverpool orðið svipað og margra bandarískra liða.

Þar sem skipulagið er allt annað koma einnig upp annars konar vandamál. Til dæmis hafa leikmenn í bandarísku deildunum af og til farið í verkfall. Þeir sem spila í deildunum eru saman í stéttarfélagi og skiptir þá ekki máli fyrir hvaða lið þeir spila. Stundum hafa menn grínast með að íþróttamennirnir hafi samþykkt að fara í verkfall þegar varahlutir í Ferrari-bílana hafa hækkað úr hófi fram. Árið 1987 var verkfall í NFL í rúmar þrjár vikur. Washington Redskins náði í aðra leikmenn til að spila á meðan. Allt varð vitlaust. En leikmennirnir sem fengu óvænt tækifæri í NFL spiluðu þrjá leiki fyrir Washington og unnu þá alla. Þegar verkfallinu lauk hurfu þeir á braut.

Sjaldgæft er að íþróttafólk fái annað tækifæri í hæsta gæðaflokki. Ef menn komast ekki í NFL eða MLB þá er ekki margt annað í boði. Þeir sem ekki komast í NBA eða NHL geta fengið góða samninga í Evrópu. Verkfallsbrjótarnir hjá Washington tóku þátt í að vinna meistaratitilinn því Washington varð meistari þetta tímabil. Því er þó ekki haldið mjög á lofti.