Fyrsti áfanginn Vignir Vatnar Stefánsson vel nestaður að tefla á netinu.
Fyrsti áfanginn Vignir Vatnar Stefánsson vel nestaður að tefla á netinu. — Morgunblaðið/Ómar Óskarsson.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Vignir Vatnar Stefánsson, sem er 18 ára gamall, vann glæsilegan sigur á því sem kallast „túrbó-mót“ í Dyflinni á Írlandi en túrbó-nafngiftin vísar til þess að tefldar eru tvær skákir flesta keppnisdagana.

Vignir Vatnar Stefánsson, sem er 18 ára gamall, vann glæsilegan sigur á því sem kallast „túrbó-mót“ í Dyflinni á Írlandi en túrbó-nafngiftin vísar til þess að tefldar eru tvær skákir flesta keppnisdagana. Vignir krækti í sinn fyrsta áfanga að stórmeistaratitli. Hann hlaut 7 ½ vinninga af 9 mögulegum, 1 ½ vinningi á undan næstu mönnum sem voru Spánverjinn Garcia Gonzakles og Sam Collins frá Írlandi. Eftir mótið stendur stigatala Vignis í 2484 elo. Mótið á Írlandi má skilgreina sem „áfangamót“ en meðal tíu skákmanna sem tefldu allir við alla voru nokkrir ungir skákmenn í „áfangaleit“ og síðan nokkrir eldri og reyndari.

Fjaðrafok á HM í atskák

Heimsmeistaramótin í atskák og hraðskák fóru fram í Varsjá í Póllandi dagana 26.-30. desember og er óhætt að segja að mótshaldarinn, FIDE, hafi hvorki virt helgidaga hins kristna heims né heldur ómíkron-afbrigðið sem var í veldisvexti um heim allan jóladagana. Dagsetningar minntu á sovésku meistaramótin sem oft kláruðust milli jóla og nýárs. Þó að meginþorri keppenda kæmi frá skáksamböndum A-Evrópuþjóðanna var slæðingur keppenda annarra þjóða í Varsjá, þ.ám. frá Noregi, og eins og oftast átti heimsmeistarinn Magnús Carlsen athygli áhorfenda og NRK-sjónvarpsstöðin norska var með beinar útsendingar frá öllum viðureignum hans. Magnús hefur verið sigursæll á þessum vettvangi en nú brá svo við að hvorki í atskákmótinu né í hraðskákmótinu náði hann sigri. Fáránlegt ákvæði í regluverki FIDE um keppnina kom í veg fyrir að hann fengi að tefla um sigurinn í atskákmótinu. Fjórir urðu þar efstir að vinningum, þar á meðal Magnús, en í reglum var kveðið á um að tveir efstu á mótsstigum skyldu tefla um heimsmeistaratitilinn.

Nepomniachtchi og 17 ára gamall Úsbeki, Nodirbekk Abdusattorov , tefldu til úrslita og vann Úsbekinn og er því heimsmeistari í atskák. Í hraðskákinni var það svo Frakkinn Vachier-Lagrave sem bar sigur úr býtum eftir aukaeinvígi við heimamanninn Jan-Krzysztof Duda.

Í kvennaflokki vann rússneska skákkonan Alexandra Kosteniuk atskákmótið og í hraðskákinni bar sigur úr býtum 17 ára gömul stúlka frá Kasakstan, Bibisara Assaubayea .

Í atskákinni var teflt eftir tímamörkunum 15 10 og í hraðskákinni voru þau 3 2. Skert tímamörk bjóða vitanlega upp á aragrúa afleikja en líka snilldartilþrif, sbr. þessa viðureign Magnúsar við eina af vonarstjörnum Írana:

Varsjá 2021; HM í hraðskák, 13. umferð:

Magnús Carlsen – Parham Maghsoodloo

Frönsk vörn

1. e4 e6 2. d4 d5 3. e5 c5 4. c3 Db6 5. Rf3 Bd7 6. Bd3 Bb5

Þekkt leikaðferð sem kostar sennilega fullmikinn tíma.

7. dxc5 Bxc5 8. b4! Bf8

Eftir 8. ... Bxf2+ 9. Ke2 lokast biskupinn inni.

9. Be3 Da6 10. Bxb5 Dxb5 11. a4 Dc6 12. O-O Re7 13. Rd4 Dd7 14. b5!

Þessi leikur tekur c6-reitinn frá riddurunum en meira býr undir.

14. ... Dc7 15. Rd2 Rd7 16. c4 dxc4 17. Hc1 c3 18. b6!

Óþægilegur hnykkur. Svartur getur ekki hindrað för riddarans til b5.

18. ... Dxe5 19. Rc4 Dd5 20. Rb5! Dxd1 21. Rc7+ Kd8 22. Hfxd1 Hc8 23. Re5 Rd5 24. Rxd5 exd5

Skárra var 24. ... Rxe4 en eftir 25. Hxc3! er svarta staðan vonlaus.

25. Hxd5 Ba3 26. Hxd7+ Ke8

27. Hc7! Hxc7 28. bxc7 Ke7 29. Hxc3

- og svartur gafst upp.

Helgi Ólafsson helol@simnet.is

Höf.: Helgi Ólafsson helol@simnet.is