Risi Murcia Maersk er flutningaskip í eigu danska fyrirtækisins. Það er 399 metrar á lengd og getur flutt 19.630 tuttugu feta gáma í einni og sömu ferð.
Risi Murcia Maersk er flutningaskip í eigu danska fyrirtækisins. Það er 399 metrar á lengd og getur flutt 19.630 tuttugu feta gáma í einni og sömu ferð.
Stefán E. Stefánsson ses@mbl.is Ítalsk-svissneski flutningarisinn Mediterranean Shipping Company (MSC) hefur fellt danska flutningafyrirtækið Maersk af stalli sem stærsta skipaflutningafyrirtæki í heimi.

Stefán E. Stefánsson

ses@mbl.is

Ítalsk-svissneski flutningarisinn Mediterranean Shipping Company (MSC) hefur fellt danska flutningafyrirtækið Maersk af stalli sem stærsta skipaflutningafyrirtæki í heimi. Þykir þetta nokkrum tíðindum sæta í ljósi þess að Maersk hefur um áratugaskeið haft yfirburðastöðu á þessum markaði og jafnvel vísað til þess sem „konungs úthafanna“. Titilinn hefur Maersk borið á grundvelli þeirrar flutningagetu sem það býr yfir en hún hefur á síðustu árum verið um 4,3 milljónir 20 feta gáma á hverjum tíma. Með miklum fjárfestingum í nýjum og notuðum skipum hefur MSC nálgast Maersk, á þennan mælikvarða. Það er mat fyrirtækisins Alphaliner, sem sérhæfir sig í greiningu á flutningamörkuðum heimsins, að MSC hafi rennt sér fram úr danska risanum í þessari viku þegar það tók við nýju skipi í flota sinn í Singapúr. Alphaliner bendir á að á síðustu árum hafi MSC keypt 128 notuð flutningaskip og að þau miklu viðskipti eigi sér enga hliðstæðu í sögunni. Með kaupunum munar nú aðeins litlu á fyrirtækjunum tveimur eða u.þ.b. 2.000 gámaeiningum. Hins vegar gerir Alphaliner ráð fyrir því að MSC muni auka á forskot sitt á komandi árum, ekki síst í ljósi þess að það hefur lagt inn fleiri pantanir en keppinautarnir á markaðnum fyrir nýjum skipum.

Líkt og Business Insider fjallaði um í október síðastliðnum hefur Maersk á sama tíma lagt meiri áherslu á að styrkja stöðu sína í landflutningum víða um heim, auk tækniþróunar af ýmsu tagi. Þá hafa stjórnendur Maersk stigið varfærin skref í nýsmíði stærstu skipa.

Maersk er skráð í kauphöllina í Kaupmannahöfn og er metið á jafnvirði 8.500 milljarða íslenskra króna.