Kjartan Helgason fæddist í Reykjavík 13. september 1932. Hann lést 1. janúar 2022.

Kjartan ólst upp í Hvammi í Hrunamannahreppi. Foreldrar hans voru Helgi Kjartansson, f. 1895, d. 1977, bóndi í Hvammi í Hrunamannahreppi, og Elín Guðjónsdóttir, f. 1902, d. 1982, húsfreyja í Hvammi.

Kjartan kvæntist 4. mars 1967 Björgu Björnsdóttur kennara. Hún er dóttir Björns Laxdal Jónssonar og Kristjönu Kristjánsdóttur.

Börn Kjartans og Bjargar eru fjögur: 1) Kristjana, f. 30. október 1962. Áður gift Oddi Má Gunnarssyni og eru börn þeirra; Björg María, f. 1989, Hrafn Valtýr, f. 1991, og Bryndís Bergmann, f. 2002; 2) Bryndís, f. 10. apríl 1967, sonur hennar er Kjartan Ásgeirsson, f. 2005; 3) Helgi, f. 3. febrúar 1970, kvæntur Ernu Óðinsdóttur og eru börn þeirra; Kjartan, f. 1996, Halldór Fjalar, f. 2000, og Þórey Þula, f. 2004; 4) Björn, f. 6. ágúst 1973, kvæntur Agnieszka Szwaja, dóttir þeirra er Anna, f. 2019. Dóttir Björns úr fyrra sambandi er Sandra Michaela, f. 2009.

Systkini Kjartans voru Jóhannes, f. 1929, d. 2021, og Guðrún, f. 1936.

Kjartan var í heimavistarskóla á Flúðum, lauk landsprófi frá Gagnfræðaskóla Vesturbæjar 1949 og búfræðiprófi frá bændaskólanum Stend Jordbrukskule í Noregi 1956. Hann var bóndi í Hvammi frá 1962, fyrst í félagsbúi við foreldra sína og síðar í félagi við bróður sinn fram til 1980. Til að byrja með stundaði hann hefðbundinn búskap sem síðar vék fyrir garðyrkju sem var hans aðalstarf allt til starfsloka 2008.

Kjartan gegndi margvíslegum trúnaðar- og félagsstörfum í Árnessýslu. Hann var formaður Ungmennafélags Hrunamanna 1956-1958 meðan á byggingu Félagsheimilis Hrunamanna stóð. Hann sat í sýslunefnd Árnessýslu 1966-1988, var hreppstjóri Hrunamannahrepps frá 1970 og þar til embætti hreppstjóra var lagt niður. Hann sat í hreppsnefnd Hrunamannahrepps 1982-1994. Hann var formaður kjörstjórnar Hrunamannahrepps og annaðist utankjörfundaratkvæðagreiðslu sem fram fór í Hvammi. Þá sat hann í stjórn Sölufélags garðyrkjumanna 1991-1995.

Kjartan tók virkan þátt í leikfélagi ungmennafélagsins og lék m.a. hlutverk morðingjans í Músagildrunni 1965 og Ægis Ó. Ægis forstjóra í gamanleiknum Delerium búbónis 1975. Kjartan hafði unun af söng og söng m.a. í kirkjukór Hrunakirkju í um 40 ár, Flúðakórnum og hin síðari ár með kórnum Tvennir tímar, kór eldri borgara í uppsveitum Árnessýslu.

Kjartan var á undan sinni samtíð hvað varðaði umönnun barna sinna sem hann sinnti heima við samhliða öðrum störfum þegar kona hans vann við kennslu í Flúðaskóla.

Útför hans fer fram frá Hrunakirkju í dag, 8. janúar 2022, klukkan 14.

Hlekkur á streymi:

https://www.mbl.is/andlat

Í dag kveðjum við náttúrubarnið hann afa okkar, Kjartan Helgason. Afi var ekki bara garðyrkjubóndi að atvinnu, hann elskaði Hvamminn og deildi þeirri ást með okkur barnabörnunum. Það var eins og að stíga inn í annan heim að koma inn í gróðurhúsið með afa, fylgjast með tómatplöntunum vaxa og blómstra, býflugunum frjóvga þær og tómötunum roðna og þeytast um á vögnunum sem héngu úr loftinu. Hann sinnti öllu af einskærri alúð, hvort sem það var fólkinu sínu, jörðinni, garðyrkjunni, hestunum, köttunum eða býflugum.

Það voru forréttindi að fá að eyða sumrunum hjá ömmu og afa í Hvammi, fyrst og fremst við útreiðar, sílaveiðar og í pottinum. Afi kenndi okkur einnig ótalmargt, eins og að keyra traktor og verjast kríuárásum, örnefni inni á Hrunamannaafrétti og mikilvægi þess að ná góðum lúr í hádeginu. Hann missti aldrei kraftinn og stóð eins og klettur við hliðina á ömmu og okkur öllum alla tíð.

Elsku afi, takk fyrir allt.

Björg María, Hrafn Valtýr og Bryndís Bergmann.

Ein af mínum fyrstu minningum úr barnæsku tengjast Kjartani föðurbróður mínum. Þetta er ljúf og skemmtileg minning, alveg eins og hann var sjálfur. Kjartan hafði farið til Noregs að heimsækja skólabræður og vini og keypti þar gjafir handa okkur systkinunum. Í minn hlut kom forláta skyrta sem ég kallaði alltaf norsku skyrtuna. Mér þótti hún afskaplega merkileg af því hún var keypt í útlöndum og ég vildi helst alltaf vera í henni. Þetta byrjaði sem sagt mjög vel, en þegar skyrtan gleymdist smám saman var það hlý nærvera og afbragðshúmor sem gerði Kjartan að ákjósanlegri fyrirmynd í mínum augum. Kjartan og pabbi ráku saman félagsbú um kúabúskap og því var eðlilega mikill samgangur og samvinna á milli fjölskyldnanna. Þegar ég var farinn að geta hjálpað til við búskapinn sagði Kjartan stundum fyrir verkum, og eftir á að hyggja var þetta í góðu samræmi við nútímamannauðsstjórnun. Hógvær og uppbyggileg leiðsögn og hrós ef vel gekk. Á gleðistundum var Kjartan öflugur liðsmaður, sagði skemmtisögur og söng oft skrýtin lög sem við yngra fólkið lærðum ósjálfrátt. Í hestaferðum var hápunktur skemmtilegheitanna á kvöldin þegar Kjartan söng braginn um Þórð Malakoff í heild sinni með miklum tilþrifum. Við hin kunnum bara viðlagið. Nú skilur leiðir og er ég Kjartani þakklátur fyrir góða samfylgd og margar ljóslifandi minningar.

Helgi Jóhannesson.

Á nýársnótt andaðist hann Kjartan í Hvammi, á nítugasta aldursári.

Hann var hið mesta valmenni á allan hátt, naut mikils trausts samferðamanna sinna, óumdeildur í sinni sveit, hæglátur, gætinn og glöggur. Ungur að árum varð hann hreppstjóri í Hrunamannahreppi og hélt því embætti svo lengi, sem það embætti var við lýði. Milt og hrokalaust yfirvald sem sjaldan þurfti að skipta sér af mannlegum deilum. Samt var hann oft kallaður „Hreppstjórinn“, ekki sem bínefni heldur sæmdarheiti, sem enginn annar hefði betur borið. Hógværð, kurteisi og fáguð framkoma var honum eðlislæg og varð til þess að eftir honum var tekið hvar sem var. Skapstillingarmaður svo agaður að aldrei skipti hann skapi svo vitað sé.

Þannig var hann Kjartan í Hvammi en hann kunni manna best að gleðjast með glöðum. Var bráðskemmtilegur með góðan húmor, söngvinn og vinsæll á gleðistundum, launfyndinn og kunni frá mörgu að segja.

Kjartan var alla tíð garðyrkjubóndi, að vísu með kúabúskap í félagi með Jóa bróður sínum einhver ár, lengst af með gróðurhús og kálræktun. Á þessum árum var útiræktun trúlega erfiðasta búgreinin. Vinnuaflið mest skólakrakkar, sem hættu um réttir en kálið þá hálfsprottið og mikið óupptekið enn í görðum. Var þá ekkert í stöðunni annað en galla sig upp, jafnvel áður en bjart var orðið, út í sunnlenska slagviðrið og standa við allan daginn og skera kálið. Mörg voru haustin sem Kjartan var í þessu ati æðrulaus, rólegur og verkadrjúgur.

Kjartan giftist Björgu Björnsdóttir kennara, bráðgreindri atorkukonu, og eignuðust þau fjögur börn vel af guði gerð, sem hafa staðið sig vel í lífinu.

Í gömlum söngtexta segir „að lífið sé lotterí“ eða heppni og svo vorum við Helga heppin að eiga Kjartan að næsta nágranna hátt í hálfa öld. Hann var góður nágranni sem við áttum margar ógleymanlegar stundir með, bæði ríðandi um hálendi Íslands og í ferðalögum í útlöndum. Betri ferðafélaga var ekki hægt að fá.

Aðstandendum sendum við innilegar samúðarkveðjur.

Jón Hermannsson.