Bræðurnir Bergþór og Snorri Mássynir segja hlaðvörp frábæran miðil.
Bræðurnir Bergþór og Snorri Mássynir segja hlaðvörp frábæran miðil. — Morgunblaðið/Ásdís
Snorri og Bergþór Mássynir hafa haldið úti hlaðvarpinu Skoðanabræður í tvö ár. Snorri er nú að hætta vegna anna en hlaðvarpið heldur áfram. Ásdís Ásgeirsdóttir asdis@mbl.is

Bræðurnir Snorri og Bergþór Mássynir fengu að velja kaffihús til að spjalla við blaðamann og völdu Prikið sem líklega er mikill hipsterastaður ungmenna í dag. Hvað veit miðaldara blaðakona? Umræðuefnið yfir kaffinu er hlaðvarp þeirra bræðra, Skoðanabræður, sem notið hefur mikilla vinsælda hjá ungu kynslóðinni. Snorri er í dag fréttamaður hjá Stöð2 og Bergþór er umboðsmaður og útgefandi tónlistarmanna og er auk þess í meistaranámi í ritlist. Hlaðvarpið hefur tekið sinn tíma en þeir bræður hafa gefið út tvo þætti á viku næstum frá upphafi. Allt að tíu þúsund manns hlusta á bræðurna í viku hverri. Snorri hyggst nú einbeita sér að fréttunum og lætur Jóhanni Kristófer Stefánssyni, sem gengur undir nafninu Joey Christ, eftir sætið sitt við míkrófóninn.

Viðtöl við fræga og ófræga

Snorri og Bergþór eru synir Margrétar Jónsdóttur Njarðvík, rektors á Bifröst, og Más Jónssonar sagnfræðings. Eiga þeir einn eldri bróður, Ara, sem þeir segja mikinn heimshornaflakkara. Blaðamaður sér strax að þar gæti verið áhugavert viðtalsefni fyrir Sunnudagsblaðið og spyr hvort hann hafi aldrei farið í viðtal. Snorri og Bergþór misskilja spurninguna og halda að átt sé við hlaðvarpið. En ljóst verður af svarinu að stórfjölskyldan hefur öll fengið að mæta þangað í hljóðverið.

„Jú, hann hefur komið í viðtal. Við höfum líka tekið viðtal við mömmu, pabba, frænkur okkar, Palla frænda og fleiri. Við erum ófeimnir við það, enda er þetta óhefðbundinn fjölmiðill,“ segir Snorri og segir frá upphafinu að ævintýri Skoðanabræðra.

„Vorið 2019 var Bergþór að hugsa um að stofna hlaðvarp og það var eiginlega tilviljun að við ákváðum að gera það saman. Planið var að tala um hvað sem er og taka fólk í viðtöl og svo vatt það svo rosalega upp á sig,“ segir Snorri.

„Við tölum um tónlist, blaðamennsku, stjórnmál, samfélagið og internetið til að mynda. Þannig að vinnan okkar og hlaðvarpið hafa alltaf farið vel saman,“ segir Snorri.

„Ástæðan fyrir vinsældum hlaðvarpsins hjá unga fólkinu er kannski að ég get veitt innsýn inn í poppheiminn, heim fræga fólksins og rappara, á meðan Snorri er í hefðbundnum fjölmiðlum. Það er því góð blanda og þar af leiðandi var líka auðvelt að fá gesti í þáttinn, því þeir voru vinir okkar,“ segir Bergþór.

„Við opnum okkur líka um persónuleg mál þannig að þetta er fjölbreytt og frjálst,“ segir Snorri.

Bróðurlegt samstarf

Eru þið góðir vinir?

„Já, og við höfum líka átt gott faglegt samband,“ segir Snorri.

„Algjörlega. Þar sem ég vinn mikið í tónlist vinn ég með fólki sem er óáreiðanlegt. Það besta við Snorra er að ef hann segist ætla að gera eitthvað fyrir vissan tíma, verður það gert. Þannig að við höfum unnið mjög vel saman,“ segir Bergþór.

„Þetta hefur verið bróðurlegt samstarf,“ segir Snorri og segir þá hafa verið góða vini framan af ævi en að unglingsárin hafi verið erfiðari.

„Við vorum miklir vinir sem börn, saman í herbergi, spiluðum tölvuleiki og fórum út á hjólabretti. En síðan kemur gelgjan og þá er ég tveimur árum eldri og ekki kúl að vera með krakkann í kringum sig,“ segir Bergþór og brosir.

„Hann var ekki góður við mig; þetta var mikið mótlæti,“ segir Snorri og segist skilja vel afstöðu Bergþórs á þessum árum.

„En þetta hefur blessast mjög vel á síðustu árum,“ segir Snorri.

Heilbrigð sjónarmið

Bræðurnir segjast stoltir af því að hlaðvarpið þeirra hafi hjálpað unglingum, og þá sér í lagi ungum drengjum.

„Þetta er aldurinn sem krakkar byrja að drekka, stunda kynlíf, nota eiturlyf, byrja í samböndum og kynnast kannski skuggahliðum lífsins. Þeir sjá kannski að þetta er svolítið ömurlegt líf, sem það er. En þú þarft að finna það jákvæða og komast í gegnum það og við höfum verið mjög opnir með þetta, að lífið geti verið algjört helvíti en það getur líka verið mjög skemmtilegt og jafnvel sé hægt að hlæja að erfiðleikum,“ segir Snorri.

„Við höfum sagt krökkunum að það muni ekki hjálpa að reykja gras ungur og að þau eigi ekki að byrja að drekka fyrr en í fyrsta lagi eftir tíunda bekk,“ segir Snorri.

„Já, og sleppa reykingum og öðru tóbaki. Ég tala líka áfengi niður,“ segir Bergþór.

„Við höfum haldið heilbrigðum sjónarmiðum á lofti,“ segir Snorri og segir þá einnig hafa verið með opna umræðu um geðsjúkdóma.

Hafiði sagt eitthvað sem þið sjáið eftir?

„Já, já, klárlega, en við meinum engum illt,“ segir Bergþór en segist óhræddur við að segja sannleikann.

„Við lentum í DV þegar við töluðum eitt sinn af ónærgætni og það kom ekki vel út. Við báðum afsökunar og lærðum af því,“ segir Bergþór.

„Það er hressandi að lenda í DV,“ segir Snorri og brosir.

Orkan í herberginu

Er einhver þáttur sem stendur upp úr?

„Við fáum til okkar fólk og erum kannski með fyrirframmótaðar hugmyndir um umræðuefni en það vita allir að þetta er bara spjall. Útkoman veltur á því hvernig orkan er í herberginu og að allir séu glaðir og til í að spjalla og þori að segja það sem það vill segja,“ segir Bergþór og segir það mjög misjafnt hvernig til tekst.

„En varðandi þætti sem standa upp úr man ég eftir þættinum með Högna Egilssyni,“ segir Bergþór og segjast þeir einnig hafa gert hliðarseríur um allt frá Norðurlöndunum til Kanye West.

Bræðurnir eru sammála um að hlaðvörp séu frábær viðbót við aðra fjölmiðla.

„Við höfum verið að búa til alls konar skrítið efni sem samt er hlustað á. Það var gert grín að því í Skaupinu að hlaðvarparar taki bara viðtöl við aðra hlaðvarpara um hlaðvörpin sín. Gott og vel, það er það sem hlaðvarparar gera og við erum ekkert saklausir af því, en það er alveg galið að afgreiða hlaðvörp sem einhvern aukahlut í samfélaginu. Stór og lítil hlaðvörp hafa mikla vigt þegar kemur að því að móta hugmyndafræði okkar tíma. Ég held að Skoðanabræður hafi alveg lagt sitt á vogarskálarnar og munu halda því áfram. Þetta er mjög nýstárleg fjölmiðlum og þótt ég hafi unnið á vefmiðli, í prenti og sjónvarpi, hefði ég aldrei viljað vera án hlaðvarpsins. Þarna er tækifæri til að gera eitthvað allt annað og hlaðvarpið á algjörlega rétt á sér,“ segir Snorri sem eins og fyrr segir, hyggst nú hætta í Skoðanabræðrum.

Kjarkleysi að staðna

Hvernig finnst þér Snorri að vera að hætta?

„Mér finnst það auðvitað leiðinlegt. Það er aldrei gaman að kveðja og maður fær stundum bakþanka. En ég held það sé mjög sniðugt að opna þáttinn og aldrei að vita nema ég komi aftur seinna. Það er kjarkleysi að staðna og það þarf stundum að hrista upp í hlutunum. Ég get þá einbeitt mér að sjónvarpinu því það er rosalega mikið að gera,“ segir Snorri.

„Ég tek þessum breytingum fagnandi og Jóhann er einn minn nánasti vinur,“ segir Bergþór, en rapparinn og leikstjórinn Jóhann Kristófer Stefánsson tekur nú við af Snorra.

„Hann er stórt nafn og gott að fá hann inn í þáttinn,“ segir Bergþór sem segist alls ekki vilja hætta að stjórna hlaðvarpsþætti.

„Ég er rosalega stoltur af þessu sköpunarverki okkar,“ segir hann og Snorri bróðir hans bætir við:

„Það er ljóst að Skoðanabræður munu aldrei hætta.“