Sidney Poitier
Sidney Poitier
Leikarinn Sidney Poitier er látinn, 94 ára að aldri. Utanríkisráðherra heimalands Poitiers, Bahamaeyja, tilkynnti andlát hans í gær skv. frétt The Guardian .

Leikarinn Sidney Poitier er látinn, 94 ára að aldri. Utanríkisráðherra heimalands Poitiers, Bahamaeyja, tilkynnti andlát hans í gær skv. frétt The Guardian . Poitier fæddist í Miami en foreldrar hans voru frá Bahamaeyjum og þar ólst hann upp fram að 15 ára aldri þegar hann flutti aftur til Bandaríkjanna.

Poitier varð fyrstur þeldökkra leikara til að hljóta Óskarsverðlaun sem besti leikari í aðalhlutverki, árið 1964 fyrir Lilies of the Field og ruddi brautina fyrir þá sem á eftir komu og var þeim mikil og mikilvæg fyrirmynd. Hann hóf leikferil sinn í American Negro-leikhúsinu í Harlem og fyrsta mikilvæga kvikmyndahlutverk hans var í No Way Out frá árinu 1950 þar sem hann lék lækni sem þurfti að takast á við kynþáttafordóma og þótti myndin of eldfim til að hægt væri að sýna hana í Suðurríkjum Bandaríkjanna. Fyrstu Óskarstilnefninguna hlaut hann fyrir leik sinn í The Defiant Ones frá árinu 1958 þar sem kynþáttafordómar komu við sögu líkt og í svo mörgum kvikmyndum Poitiers sem og ástarsambönd fólks af ólíkum kynþáttum. Einna þekktastar kvikmyndanna sem hann lék í voru To Sir With Love , In the Heat of the Night og Guess Who's Coming to Dinner? og á áttunda áratugnum leikstýrði Poitier sínum fyrstu kvikmyndum og voru margar þeirra gamanmyndir, m.a. Stir Crazy frá 1980. Poitier hlaut fjölda tilnefninga, verðlauna og viðurkenninga á ferli sínum, m.a. Bafta-verðlaunin 1959 sem besti erlendi leikarinn, heiðursverðlaun Óskarsins 2002 og Frelsisorðu Bandaríkjaforseta árið 2009. Þá var hann aðlaður af Elísabetu II. Englandsdrottningu árið 1974.