Háma Línulega dagskráin er ekki dauð.
Háma Línulega dagskráin er ekki dauð. — Ljósmynd/Pexels
Hámhorfið kom með streymisveitunum. Hámhorf er sú iðja að hanga klukkustundum saman yfir þáttaröð og graðga hana í sig á mettíma.

Hámhorfið kom með streymisveitunum. Hámhorf er sú iðja að hanga klukkustundum saman yfir þáttaröð og graðga hana í sig á mettíma. Hámhorf var reyndar alveg til áður en streymisveiturnar komu til sögunnar en það var bara aðeins flóknara, þá þurfti maður að standa upp og skipta um geisladisk í DVD-spilaranum. Vanalega var maður líka að horfa á eitthvað gamalt og mjög fáir voru að horfa á það sama og maður sjálfur. Núna þykir hins vegar ekkert eðlilegra en að gleypa í sig átta þátta seríu á einum degi og streymisveiturnar hafa gert þetta allt mun þægilegra fyrir mann.

En hversu mikil stemning er í hámi? Núna eru tvær íslenskar þáttaraðir í sýningu, Verbúðin og Svörtu sandar, og kemur nýr þáttur inn á hverjum sunnudegi. Ég er ekki frá því að það sé skemmtilegri stemning þegar allir ganga í takt og þurfa að bíða jafn lengi eftir næsta þætti. Það reynir líka aðeins meira á minnið en að sama skapi myndast líflegar umræður eftir hvern þátt, allavega þegar um er að ræða góða þáttaröð. Það er kannski nauðsynlegt að hafa jafnvægi í þessu öllu saman. Eiga eitthvað á lager sem maður getur hámað í sig þegar maður brýtur saman þvottinn og gera svo vel við sig á sunnudagskvöldum, leggja símann frá sér og horfa á þátt vikunnar í línulegri dagskrá. Línulega dagskráin hefur allavega sannað að hún er ekki alveg dauð.

Sonja Sif Þórólfsdóttir