Gátan er sem endranær eftir Guðmund Arnfinnsson: Ligg ég þarna lon og don. Lambaspörð þar megum sjá. Þar er illra vætta von. Víst það flýtur sjónum á. Helgi R. Einarsson er með fyrstu lausn ársins: Í bóli mínu oft ég er. Alloft sparð í bólið fer.

Gátan er sem endranær eftir Guðmund Arnfinnsson:

Ligg ég þarna lon og don.

Lambaspörð þar megum sjá.

Þar er illra vætta von.

Víst það flýtur sjónum á.

Helgi R. Einarsson er með fyrstu lausn ársins:

Í bóli mínu oft ég er.

Alloft sparð í bólið fer.

Köttur í Bjarna bóli' er vá.

Bólið flýtur sjónum á.

Sjálfur skýrir Guðmundur gátuna svona:

Í bóli ligg ég lon og don.

Lambaspörð á bóli sá.

Í bóli er illra vætta von.

Við ból festa skipi má.

Þá er limra:

Emma varð eldrauð í framan,

af því að henni fannst gaman

að berja hann Finn

bónda sinn

í bólinu sundur og saman.

Síðan er ný gáta eftir Guðmund:

Sólin skjótt nú skína fer,

skartar morgunroði,

nýársgáta nú er hér

næsta rýr í boði:

Kátur mjög er karlinn sá.

Kvað hann bragi snjalla.

Krásum lumar einatt á.

Aldurhniginn valla.

„Gleðin“ er ljóð í Smalavísum Þorsteins Valdimarssonar:

Gleðin er fífill

í garði manns

og ljóð, sem vaknar

á vörum hans –

vaknar af leiknum

liðlangan dag,

þegar fífillinn sofnar

um sólarlag.

„Réttarferð“ er limra í bókinni „Ljóð úr lífshlaupi“ eftir Sturlu Friðriksson :

Í Skeiðarrétt drykkurinn draup

og drengirnir fengu þar staup,

en óhemju bjór sá

fór allur í Þjórsá

aftur við Tröllkonuhlaup.

Og þar er „Ljóska“:

Ljósku hann eitt sinni unni

frá ystu tá upp að munni,

en ofan við það

var allt óskrifað blað

í miðlægum gagnagrunni.

Stephan G. Stephansson orti í vökulok:

Standist ég vetrar storma

stórum batnar minn hagur

fyrst vorið er allra orma

upprisudagur.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is