Vilhjálmur Einarsson fæddist í Reykjavík 14. maí 1936. Hann andaðist á Hjúkrunarheimilinu Sólvangi í Hafnarfirði 31. desember 2021.

Systkini Vilhjálms eru: Birna, f. 8. júlí 1932, d. 17. apríl 2013. Leó, f. 29. janúar 1934, d. 18. júní 1935. Rúnar, f. 27. desember 1937. Sævar, f. 9. apríl 1942. Tvíburarnir Karl Axel og Gunnar, f. 21. febrúar 1947. María, f. 3. febrúar 1950.

Hálfsystir Vilhjálms samfeðra er Hrafnhildur, f. 30. júlí 1950.

Eiginkona Vilhjálms er Elísabet Valgeirsdóttir, f. 6 júlí 1936 á Gemlufalli í Dýrafirði, dóttir hjónanna Ingibjargar Margrétar Guðmundsdóttur, f. 15. september 1901, d. 8. mars 1993, og Valgeirs Jónssonar, f. 3. apríl 1899, d. 5. júlí 1981.

Börn Vilhjálms og Elísabetar eru: 1) Erla María, f. 19. mars 1961, börn: Vilhjálmur Daði, f.1980, í sambúð með Kolbrúnu Aðalsteinsdóttur, þau eiga þrjú börn, Hugrún, f. 1989, gift Aitor García Sánchez og eiga þau einn son, Heiðdís, f. 1993, og Birta María, f. 2003. 2) Einar Kristinn, f. 7. nóvember 1964, kvæntur Sigrúnu Ómarsdóttur, börn: Arnór, f. 1989, Viktor, f. 1989, í sambúð með Anítu Ösp Ingólfsdóttur, og Haukur, f. 1995. 3) Valgeir, f. 16. maí 1969, kvæntur Ingunni Óladóttur, börn: Björn Leví, f. 1996, Elísabet, f. 2003, og Arnór Ingi, f. 2006. 4) Björn Þröstur, f. 25 október 1971, kvæntur Maríu Gunnarsdóttur, börn: Soffía Finnbjörk, f. 2000, og Telma Karen, f. 2002. 5) Ásdís Eva, f. 7. febrúar 1977, í sambúð með Árna Ólafssyni, börn: Daníel Einar, f. 2006, Óskar Örn, f. 2007, og Róbert Ingi, f. 2012.

Fyrir átti Elísabet dótturina Ingibjörgu Sólrúnu Magnúsdóttur, f. 14. maí 1956, sem Vilhjálmur gekk ungri í föðurstað. Ingibjörg Sólrún er gift Þorleifi Ragnarssyni, börn: Elísabet, f. 1977, gift Birgi Leifi Hafþórssyni, og eiga þau þrjú börn, Halldór Ægir, f. 1979, kvæntur Sjöfn Evu Andrésdóttur og eiga þau þrjú börn, Svanhildur Sóley, f. 1992, í sambúð með Sigurði Árna Magnússyni og eiga þau tvö börn.

Vilhjálmur ólst upp í Reykjavík, hann var sterkur námsmaður og lauk námi frá Samvinnuskólanum þar sem hann dúxaði í sínum árgangi. Eftir útskrift hóf hann nám í Sjómannaskólanum í Reykjavík og lauk námi sínu þar með framúrskarandi árangi.

Vilhjálmur stundaði sjóinn um árabil en fór svo að vinna við teppalagnir og starfaði sjálfstætt við þá iðn til 75 ára aldurs auk þess sem hann rak földunarverkstæði.

Vilhjálmur hafði góða tenórrödd og var mjög tónviss. Hann nam einsöng hjá Snæbjörgu Snæbjarnardóttur og söng með m.a. með Karlakórnum Fóstbræðrum og síðar með Skagfirsku Söngsveitinni.

Vilhjálmur og Elísabet hófu búskap í Reykjavík 1960 en ákváðu 1967 að færa sig um set og festu þá kaup á húsi í Garðabæ, Goðatúni 3, þar sem Elísabet býr enn.

Útfór fór fram í kyrrþey.

Elsku yndislegi pabbi minn!

Ég á svo erfitt með að trúa að þú sért farinn. Og þó okkur líði vel að vita að þú þjáist ekki lengur þá er eitthvað svo tómt hér án þín. Ég á svo mikið af góðum minningum, enda alltaf verið algjör pabbastelpa. Yngsta barnið, dekurdísin hans pabba síns. Þú varst alltaf svo duglegur að leyfa mér að koma með þér hvert sem er, í vinnuferðir út á land, söngferðir með kórnum ykkar mömmu, í vinnuna hvort sem var uppi á velli hjá Varnarliðinu eða á földunarverkstæðið, sem var eins og að leika sér í teppahimnaríki fyrir okkur krakkana. Allra bestu minningarnar eru þegar við kúrðum saman fyrir háttinn í ykkar rúmi og þú fórst með bænirnar með mér. Ég naut þess svo að fá alla athygli þína og geta spjallað við þig um allt og ekkert. Bara við tvö. En þú hefur líklega verið búinn að fá nóg þegar þú settir regluna: „Ásdís, það má ekki tala þegar maður er búinn að segja amen, nú verðurðu að byrja upp á nýtt.“

Pabbi var yndislegur maður. Það sem einkenndi hann var hvað hann var sanngjarn, heiðarlegur, gamansamur, félagslyndur og einstaklega barngóður og mikill dýravinur. Hann var alla tíð einstaklega duglegur og vinnusamur. Maður man hann varla öðruvísi en vinnandi frá því eldsnemma að morgni og oft langt fram á kvöld. Alla mína tíð átti hann og rak földunarverkstæði og var teppalagningarmaður. Hann var mikill söngmaður, söng með Skagfirsku söngsveitinni ásamt mömmu, og söng með Fóstbræðrum líka. Þegar hann varð gamall þá þótti honum leiðast að hann væri búinn að missa söngröddina. Hann hafði líka gaman af að spila. Var mikill bridge-maður og ef hann var einn þá var hann mikið að leggja kapal og svo vorum við með snókerborð í bílskúrnum sem veitti honum mikla gleði. Hann var mikill keppnismaður og þótti nú ekki gaman að tapa. Enda sem betur fer vann hann oftast.

Þetta síðasta ár hefur verið vægast sagt erfitt.

Pabbi lést á Sólvangi á gamlárskvöld kl. 23.50. Við systur og elsku Beta systurdóttir mín og jafnaldra sátum hjá honum fyrr um kvöldið og rifjuðum upp að mamma sendi hann alltaf út að sprengja með okkur krökkunum kl. 23.50 þegar við vorum yngri. Við systkini, mamma og nokkur barnabörn náðum að vera með honum síðasta daginn. Ég er svo þakklát og ánægð að hafa verið með honum þegar hann kvaddi, svo friðsæll og loks laus við verki og kvalir.

Elsku pabbi. Ég verð alltaf litla stelpan þín. Ég og strákarnir mínir munum alltaf sakna þín, þú átt stóran hlut í hjörtum okkar. Ég veit að þú passar okkur og fylgist með okkur.

Hvíldu í friði, elsku besti pabbi.

Pabbi

Með ást þinni

kenndir þú mér að elska.

Með trausti þínu

kenndir þú mér að trúa.

Með örlæti þínu

kenndir þú mér að gefa.

Takk pabbi.

Þín

Ásdís, Árni Kr. og afastrákarnir Daníel Einar, Óskar Örn og Róbert Ingi.

Ég var rétt fimm ára þegar við hittumst fyrst. Ég feimin og forvitin og spurði þig hvort þú ætlaðir að verða pabbi minn. Það stóð ekki á svari frá þér: „Já, mamma þín hefur gefið mér helminginn í þér.“ Málið var útrætt, ég hafði eignast pabba. Þú þreyttist aldrei á að segja þessa sögu og ljómaðir í hvert sinn og þú rifjaðir þetta upp.

Þú sagðist heldur aldrei gleyma deginum sem ég fæddist, það var á tvítugsafmælisdaginn þinn. Þann dag fórst þú fyrst á sjóinn, varst sjóveikur og sagðir að þið mamma hefðuð því þjáðst á sama tíma. Þú sást spaugilegu hliðarnar á svo mörgu og varst mikill húmoristi.

Minningarnar hrannast upp, þú að fara með okkur eldri systurnar í bíó. Þá var enginn bíll til á heimilinu og tókum við þá strætó frá Langholtsveginum. Þú nýrakaður og búinn að setja þig rakspíra og kallaðir svo fram til okkar systranna: „Hver vill rakkossinn?“

Svo var það aðfangadagurinn, þú skreyttir alltaf jólatréð og við vorum alltaf jafn spennt systkinin að vakna til að skoða tréð. Eftir matinn var það svo uppvaskið sem skyldi klárað áður en pakkarnir voru opnaðir. Þú tókst þá yfir stjórnina í eldhúsinu, fékkst okkur til að hjálpa þér við að ganga frá, mamma átti frí frá uppvaskinu þetta eina kvöld.

Þú lagðir mikið á þig og vannst oft myrkranna á milli til að búa fjölskyldunni gott heimili þar sem allir voru velkomnir til lengri eða skemmri dvalar.

Þú komst oft örmagna heim eftir langan vinnudag og hentir þér þá í sófann. Þitt uppáhald í sjónvarpinu var svo billjardinn, þú áttir líka alvörubilljardborð í bílskúrnum sem var óspart notað þegar fjölskyldan hittist, það fór þó oftast svo að það varst þú sem vannst leikinn, enda gamall billjardmeistari.

Söngurinn var sameiginlegt áhugamál ykkar mömmu, þið sunguð bæði með Skagfirsku söngsveitinni, sóttuð æfingar í Drangey í hverri viku og lærðuð svo textana utan að þegar heim var komið. Eftirminnileg voru söngferðalögin ykkar hérlendis sem og erlendis, þessar ferðir gáfu ykkur svo mikið.

Fyrsta sætið í huga þínum skipaði þó ætíð mamma og fjölskyldan öll. Þér fannst svo gaman þegar við hittumst. Fastur liður var þegar leið að stórafmælunum okkar að þú spurðir hvað við ættum að gera á afmælisdaginn. Mér þótti það ekkert sérlega skemmtileg tilhugsun þegar ég var tvítug og þrítug, en eftir það bara skemmtilegt. Eftirminnileg afmælisferð stórfjölskyldunnar var svo til Lúxemborgar þar sem við héldum saman upp á 50 og 70 ára afmælin okkar.

Heilsu þinni hrakaði hratt síðasta árið. Minnið gaf sig og líkamleg heilsa sömuleiðis. Elsku mamma annaðist þig vel fram að þeim tíma og þótti sárt að sjá á bak þér þegar þú lagðist inn á spítala í lok mars sl. Síðustu mánuðina dvaldir þú á Sólvangi þar sem vel var um þig hugsað, en hugurinn var samt alltaf heima hjá mömmu.

Það var erfitt að horfa upp á þig vanmáttugan síðustu misserin, en alltaf varstu glaður þegar við hittumst.

Á kveðjustund vil ég þakka þér allt það góða sem þú miðlaðir til mín um lífið og tilveruna og endalausa trú þína á mér.

Þín dóttir,

Ingibjörg (Inga).

Elsku besti afi minn,

Það er erfitt að hugsa til þess að þú sért farinn frá okkur og ekki lengur í Goðatúninu með ömmu, en Goðatúnið var svo stór partur í lífi mínu.

Afi var hlýr og góður maður með mikinn húmor. Mér er minnisstætt að hann gerði einstaklega flottan gogg á munninn og fíflaðist við okkur krakkana. Afi var góður bridgespilaði en hann spilaði líka við okkur barnabörnin ólsen ólsen og lönguvitleysu. Mér gekk oft illa að sitja kyrr þegar ég var krakki. Afi var ekkert að æsa sig yfir því þegar ég tók fimleikaæfingar nánast yfir öxlina á honum þegar hann var að horfa á sjónvarpið, en hann furðaði sig þó á því hvernig mér tækist að horfa á sjónvarpið á haus.

Það er aðdáunarvert hvað afi nennti að hafa okkur eldri barnabörnin með sér, en við vorum á sama aldri og Ásdís sem var yngst. Við fengum oft að fara með afa á verkstæðið hans þar sem teppin voru geymd, þar gátum við leikið okkur tímunum saman. Toppurinn var að fá að fara með afa þegar hann var að vinna á svæði varnaliðsins í Keflavík þar sem herinn hafði aðsetur. Það var eins og að fara til útlanda. Þar var hægt að kaupa sælgæti og drykki úr sjálfsala eins og 3 Musketeers og dr, Pepper.

Amma og afi voru í kór og eru mér minnisstæðar æfinga- og kórferðir sem ég var svo heppin að fá að fara með í. Sennilega hefur það verið til að halda Ásdísi frænka selskap, en við vorum jafn gamlar.

Ég gleymi aldrei þegar afi var að monta sig af okkur Ásdísi hvað við sungum vel, sennilega hefur það orðið til þess að við fórum í Skólakór Garðabæjar, en hann var afskaplega stoltur af okkur. Þegar kom að því að ég fór að læra á píanó kættist afi, en varð líka jafn svekktur þegar ég vildi hætta nokkrum árum síðar. Hann reyndi allt til að múta mér, en því miður vann hann ekki þann slag.

Þegar ég komst á táningsaldur fékk ég stundum að fara með afa að leggja teppi. Við vorum mætt á Grand hótel og ég fékk það hlutverk að leggja listana, mikið sem var ég stolt þegar því verki lauk. Mörgum árum seinna var ég stödd á hótelinu með manninum mínum og montaði ég mig þá af meistaraverki okkar afa.

Afi elskaði að spila snóker, hann átti flott keppnisborð úti í bílskúr og var vanur að vinna flesta þá sem hann keppti við. Afi var mikill keppnismaður og vann nánast alla. Þegar maðurinn minn kom inn í fjölskylduna var afi fljótur að bjóða honum út í skúr í einn leik, afi hafði ekki nokkra trú á að þessi ungi maður gæti unnið sig en svo fór þó að afi tapaði leiknum, hann var ekkert sérstaklega góður í að tapa en hann jafnaði sig fljótt.

Afi kvaddi okkur á gamlárskvöld, ég og systur mömmu sátum hjá honum fyrr um kvöldið og vorum að rifja upp að amma hafði alltaf rekið afa út með okkur krakkana rétt fyrir kl tólf til að sprengja upp flugelda. Afi ákvað að kveðja þennan heim á sama tíma, þegar 10 mínútur voru eftir af gamla árinu.

Hjartans þakkir fyrir allt elsku besti afi minn og eins og amma segir „hvíldu í guðs friði“. Þín afastelpa

Elísabet (Beta).