Stunga Á miðvikudaginn voru 10-11 ára börn bólusett í Vallaskóla.
Stunga Á miðvikudaginn voru 10-11 ára börn bólusett í Vallaskóla. — Morgunblaðið/Sigmundur Sigurgeirsson
Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is „Þetta gekk allt saman stórvel hjá okkur,“ segir Margrét Björk Ólafsdóttir, hjúkrunardeildarstjóri á Heilbrigðisstofnun Suðurlands, um bólusetningar grunnskólabarna sem hófust hjá stofnuninni í vikunni.

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Þetta gekk allt saman stórvel hjá okkur,“ segir Margrét Björk Ólafsdóttir, hjúkrunardeildarstjóri á Heilbrigðisstofnun Suðurlands, um bólusetningar grunnskólabarna sem hófust hjá stofnuninni í vikunni.

Byrjað var að bólusetja 10-11 ára gömul börn á miðvikudaginn og stefnt er að því að bólusetja 7-9 ára í næstu viku. Í vikunni þar á eftir verða svo 5-6 ára börn bólusett. Bólusett var í Vallaskóla á Selfossi og þangað voru boðuð börn úr allri Árnessýslu. Um er að ræða samstarfsverkefni þriggja heilsugæslustöðva, á Selfossi, í Hveragerði og á Laugum.

„Það var um 60% mæting hjá þeim börnum sem boðuð voru. Það var svipað og við bjuggumst við. Ég hefði nú viljað sjá aðeins meira en þetta er bara að fara af stað og breytist kannski seinna,“ segir Margrét.

Sem kunnugt er hefst bólusetning grunnskólabarna á höfuðborgarsvæðinu í Laugardalshöll eftir helgi. Margrét segir að ekki hafi verið eftir neinu að bíða á Selfossi, bóluefnið var komið og því ákveðið að byrja strax. Nágrannar þeirra í Rangárþingi voru enn fyrr á ferðinni en þar hófst bólusetning grunnskólabarna á milli jóla og nýárs.

Bólusetningin hófst í Vallaskóla klukkan 16 eftir að starfsmenn voru farnir úr skólanum. „Þá byrjuðum við og vorum til rúmlega 20 um kvöldið. Eitt barn var bólusett í einu inni í stofu með foreldri og hjúkrunarfræðingi. Svo biðu börnin í um 15 mínútur í biðrými við hliðina.“

Skiptar skoðanir hafa verið á bólusetningum barna í samfélaginu en Margrét kveðst ekki hafa orðið vör við neinar athugasemdir á miðvikudaginn. „Ekki nema að einn skólahjúkrunarfræðingur fékk tölvupóst frá foreldri sem var á móti bólusetningunni. Ég veit að það eru ekki allir sammála um þetta en bólusetningin er öllum frjáls og það er enginn neyddur í hana. Við höldum okkar striki í næstu viku og erum líka að bólusetja fullorðna áfram.“