Réttarhöld í Þýskalandi munu engin áhrif hafa á Assad Sýrlandsforseta, en þar er þó hnykkt á glæpum hans

Í Koblenz í Þýskalandi situr fyrrverandi yfirmaður úr sýrlensku leyniþjónustunni fyrir rétti. Anwar Raslan var háttsettur og stýrði fangelsi í Damaskus. Segja yfirvöld að hann beri ábyrgð á dauða 48 manna og pyntingum 4.000 manna árin 2011 og 2012 og saka hann um glæpi gegn mannkyni. Vitni hafa komið fram og lýst framgöngu hans og um leið hefur verið dregin upp skuggaleg mynd af þeim hryllingi sem stjórn Assads útdeilir í Sýrlandi, af kúgun, pyntingum og morðum.

Raslan gerðist liðhlaupi og forðaði sér úr landi 2012 og fékk hæli af mannúðarástæðum í Þýskalandi. Hann dró aldrei dul á hlutverk sitt og það var ekki fyrr en mörgum árum síðar að yfirvöld tóku við sér. Í apríl 2020 hófust réttarhöldin gegn honum og öðrum manni, sem var lægra settur og var dæmdur í fangelsi í febrúar í fyrra. Dóms yfir Raslan er að vænta í næstu viku og er búist við að hann verði þungur.

Réttarhöldin í Koblenz vekja margar spurningar. Vitaskuld eiga þeir sem fremja voðaverk að standa reikningsskil gerða sinna. Ýmsir spyrja hins vegar hvaða tilgangi þessi réttarhöld þjóni. Flóttamenn frá Sýrlandi verði nú tregari til þess að segja satt og rétt frá vegna þess að vitnisburður þeirra kynni að verða notaður gegn þeim og þá verði erfiðara að draga upp rétta mynd af því sem er að gerast í landinu. Um leið muni harður dómur í máli Raslans draga úr líkum á því að liðsmenn Assads hlaupist undan merkjum.

En það er engin spurning um nauðsyn þess að halda óhæfuverkum ógnarstjórnar Bashars al-Assads á lofti. Faðir hans komst til valda árið 1970 og í rúmlega hálfa öld hafa þeir feðgar haldið Sýrlendingum í greipum kúgunar og ofbeldis. Nú er Sýrland rjúkandi rúst og ekki sér fyrir endann á valdaskeiði sonarins.