Óveður kom víðast í veg fyrir þrettándabrennur, en jólin voru nú samt kvödd eftir föngum. Síðustu flugeldunum var skotið á loft til þess að binda enda á þau með viðeigandi hætti, þó raunar væru fáir úti við í vonda veðrinu og veirunni.
Óveður kom víðast í veg fyrir þrettándabrennur, en jólin voru nú samt kvödd eftir föngum. Síðustu flugeldunum var skotið á loft til þess að binda enda á þau með viðeigandi hætti, þó raunar væru fáir úti við í vonda veðrinu og veirunni. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Nýja árið fór rólega af stað, en margir héldu sig heima við fyrsta kastið meðan Ómíkron-bylgjan hélt áfram að rísa, veðráttan var rysjótt og skammdegið grúfði yfir eftir óvenjustuttar hátíðar.

Nýja árið fór rólega af stað, en margir héldu sig heima við fyrsta kastið meðan Ómíkron-bylgjan hélt áfram að rísa, veðráttan var rysjótt og skammdegið grúfði yfir eftir óvenjustuttar hátíðar.

Mörg smit greindust um hátíðarnar, en áhrifin voru minni en óttast var. Átta manns lágu á gjörgæslu um helgina, sjö þeirra óbólusettir.

Skotið var á glugga íbúðar í Kórahverfi, að líkindum með loftbyssu, að morgni nýársdags. Það er sjöunda skotárásin í hverfinu frá upphafi desember. Lögreglan handsamaði mann í framhaldinu.

Katrín Atladóttir , borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, tilkynnti að hún hygðist ekki leita endurkjörs, en rétt fyrir jólin hafði Eyþór Arnalds, oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn, greint frá því að hann myndi ekki bjóða sig fram í vor.

Guðni Th. Jóhannesson forseti sæmdi tólf fálkaorðunni á Bessastöðum á nýársdag. Það voru þau Áslaug Geirsdóttir prófessor, Bjarni Felixson íþróttafréttamaður, Gerður Kristný Guðjónsdóttir rithöfundur, Haraldur Ingi Þorleifsson frumkvöðull, Jóhanna Guðrún Kristjánsdóttir menntunarfræðingur, Katrín Fjeldsted læknir, Kristín Þorkelsdóttir hönnuður, Ólafía Jakobsdóttir, fv. sveitarstjóri, Sigurður Flosason tónskáld, Sigurjón Arason verkfræðiprófessor, Stefán Haukur Jóhannesson sendiherra og Trausti Valsson prófessor.

·

Aftakaveður gerði fyrir austan og gekk sjór á land í Borgarfirði eystra og olli m.a. skemmdum á smábátahöfninni.

Ákvörðun um að bjóða 5-11 ára börnum bólusetningu mætti mikilli gagnrýni, þar sem ráðgert var að hún færi fram í grunnskólum þeirra. Afráðið var að flytja hana í Laugardalshöll.

Um 700.000 erlendir ferðamenn heimsóttu Ísland á liðnu ári, sem er alveg bærilegt og ívið meira en var árið 2012 í upphafi ferðamannabylgjunnar. Og miklu meira en 2020 þegar þeir voru 486 þúsund.

Um 5,5 milljónir manns heimsóttu einokunarverslanir Áfengis- og tóbaksverslunarinnar í fyrra.

Kia tók fram úr Toyota á síðasta ári hvað sölu nýrra bíla áhrærði, en þar hefur Toyota verið í efsta sæti um árabil. Alls seldust 1.826 Kia-bílar hér á landi á liðnu ári.

·

Héraðsdómur felldi úr gildi úrskurð um að endurupptökubeiðni Erlu Bolladóttur skyldi hafnað. Erla var sakfelld í Hæstarétti árið 1980 fyrir rangar sakargiftir í Geirfinns- og Guðmundarmálunum svonefndu. Hún sækist eftir sýknu og bótum frá hinu opinbera.

Samtök atvinnulífsins gerðu athugasemdir við það hvernig sóttkví væri beitt í þessari nýjustu bylgju. Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, sagði að ekki gengi að hafa tugþúsundir margbólusetts fólks í sóttkví. Sjá þyrfti til þess að hagkerfið gengi.

Óttast er að skólasmitum fjölgi verulega, en Ómíkron-afbrigðið smitar börn mun frekar en fyrri afbrigði. Allt að 12,5% starfsmanna í skólum voru frá vinnu vegna faraldursins, ýmist í einangrun eða sóttkví.

Flugfrakt hefur aukist mikið í faraldrinum og í vikunni var greint frá því að fraktflutningafélagið Bluebird hefði leigt þrjár risaþotur til þess að anna eftirspurn.

Að sögn lögreglu fækkaði beiðnum um leit að börnum milli ára, en þær reyndust 158 talsins í fyrra. Fram kom einnig að færri ungmenni en áður væru í hópnum sem glímir við alvarlegan fíknivanda.

Að sögn Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins dróst sala á jólabjór þessi jólin saman um 17% samanborið við söluna á fyrri jólum.

Áhugafólk um mataræði við hungurmörk hefur áhyggjur af því að þorrablót geti ekki farið fram að venju, jafnvel þannig að menn þurfi að eta trosið heima hjá sér.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri dvaldi heima í sóttkví og sagði að að henni lokinni myndi hann eyða óvissunni um hvort hann byði sig fram í borgarstjórnarkosningum í vor.

·

Fæðingar í fyrra fóru nærri metinu frá 2009 þegar Íslendingar fögnuðu bankahruninu með því að búa til fleiri framtíðarskattborgara en nokkru sinni. Alls fæddust um 5.000 börn í fyrra og ljóst að faraldurinn hefur ekki mikil áhrif á frjósemi og tímgun.

Valgerður Sigurðardóttir borgarfulltrúi upplýsti að Reykjavíkurborg hefði varið 100 milljónum króna til þess að búa til sjálfvirkt umsóknarkerfi, sem skilar af sér PDF-skjali , en upp úr því á svo að slá upplýsingarnar inn í annað kerfi. Reykjavíkurborg hefur uppi stór áform í upplýsingatækni.

Verslunarfólk við Ármúla er ekki ánægt með að þar hafa öll bílastæði fyllst vegna sýnatöku í gamla Orkuhúsinu. Þaðan hafa langar biðraðir hlykkjast í smitbylgju síðustu vikna.

Strætó bs. varð fyrir tölvuárás og höfðu þrjótarnir í hótunum um að birta upplýsingar úr tölvukerfinu. Enginn hafði áður vitað til þess að Stæró byggi yfir víðtækum og viðkvæmum trúnaðarupplýsingum.

Sigríður Hulda Jónsdóttir , bæjarfulltrúi í Garðabæ, sækist eftir efsta sæti á lista sjálfstæðismanna þar, en Gunnar Einarsson bæjarstjóri leitar ekki endurkjörs. Áður hafði Áslaug Hulda Jónsdóttir sagst sækjast eftir oddvitasætinu.

Hafist var handa við að bera húsgögn úr Hótel Sögu , en Bændahöllin hefur verið seld ríkinu og hyggst Háskóli Íslands hreiðra um sig þar.

Veðrið hélt áfram að gera fólki gramt í geði og Veðurstofan gaf út veðurviðvaranir í ýmsum litum. Þrettándabrennum var víðast aflýst.

·

Að minnsta kosti 10 kórónuveirusmit komu upp meðal sjúklinga og starfsmanna á sjúkrahúsinu Vogi . Viðbúið er að starfsemin raskist mikið fyrir vikið.

Framtalin laun og hlunnindi einstaklinga lækkuðu um 57 milljarða á nýliðnu ári, en það hefur ekki gerst síðan upp úr bankahruni að þau lækki milli ára. Að líkindum veldur heimsfaraldurinn miklu um, bæði vegna samdráttar og fækkunar útlendra starfsmanna í landinu.

Mikil flóð urðu á hafnarsvæðinu í Grindavík vegna óveðurs sem gekk yfir landið.

Þrátt fyrir varúðarráðstafanir komu upp smit í ýmsum fiskiskipum, bæði togurum og loðnubát. Þeim var stefnt til hafnar.

Björgunarsveitir í landinu sinntu nærri 1.200 útköllum á liðnu ári, en langstærsta verkefnið var í kringum eldgosið í Geldingadölum.

Dæmi eru um það erlendis að fólk smitist í þrígang af kórónuveirunni, en Magnús Gottfreðsson , prófessor í smitsjúkdómum, segir líkur á að sýkingar verði vægari.

Á Landspítalanum voru menn þó ekki jafnbjartsýnir og búa sig undir að allt að 30 manns geti legið í gjörgæslu eftir tvær vikur ef allt fer á versta veg. 60-90 eiga að geta verið á legudeild.

Fimm menn, Ari Edwald, Arnar Grant, Hreggviður Jónsson Logi Bergmann og Þórður Már Jóhannesson, viku allir úr starfi um óákveðinn tíma eftir að ung kona sakaði þá um að hafa misboðið sér kynferðislega . Logi lýsti sig saklausan en játaði að hafa farið yfir mörk í einkalífi annars fólks.

Í álitsgerð Helga Þorlákssonar prófessors segir að Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri hafi ekki nýtt sér hugmyndir Bergsveins Birgissonar við ritun bókar sinnar Eyjan hans Ingólfs. Umræddar hugmyndir séu viðteknar skoðanir og hafi getað verið sóttar víða að. Ekki sé grundvöllur fyrir ásökunum Bergsveins um hugmyndastuld.

Bókaútgefendur segjast sáttir við liðna jólabókavertíð .

Arnþór Garðarsson , prófessor og dýrafræðingur, lést á nýársdag, 83 ára að aldri.