Akureyri Heilsugæslustöð í norðurhluta bæjarins verður á annarri hæð í verslunarmiðstöðinni Sunnuhlíð. Einnig verður byggt til norðurs.
Akureyri Heilsugæslustöð í norðurhluta bæjarins verður á annarri hæð í verslunarmiðstöðinni Sunnuhlíð. Einnig verður byggt til norðurs. — Tölvuteikning/HSN
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Margrét Þóra Þórsdóttir Akureyri „Við kynntum starfsfólki niðurstöðuna í gær og það líst flestum vel á þetta,“ segir Jón Helgi Björnsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Norðurlands, en í gær var ákveðið að önnur af tveimur nýjum...

Margrét Þóra Þórsdóttir

Akureyri

„Við kynntum starfsfólki niðurstöðuna í gær og það líst flestum vel á þetta,“ segir Jón Helgi Björnsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Norðurlands, en í gær var ákveðið að önnur af tveimur nýjum heilsugæslustöðum á Akureyri verði staðsett í húsnæði verslunarmiðstöðvarinnar við Sunnuhlíð 12. Það er svonefnd norðurstöð sem þar verður, en sú sem þjónusta mun íbúa í suðurhluta bæjarins verður byggð upp á tjaldstæðisreitnum við Þórunnarstræti.

Átta tilboð bárust

Alls bárust átta tilboð frá fimm aðilum í húsnæði undir heilsugæslustöð í norðurhluta bæjarins. Framkvæmdasýslan – Ríkiseignir mat tilboð frá eiganda húsnæðisins við Sunnuhlíð, sem er Reginn fasteignafélag, hagstæðast og er það nú komið í samningsferli.

Jón Helgi segir að um sé að ræða alla aðra hæð húsnæðisins en að auki verði byggt við núverandi húsnæði til norðurs. HSN verður þá í um það bil 1.700 fermetra húsnæði í Sunnuhlíð.

Tilbúið næsta sumar eða haust

Samningar hafa ekki verið undirritaðir, gerð þeirra er í vinnuferli og segir Jón Helgi að hafist verði handa við endurbætur á húsnæðinu sem og byggingu viðbótarhúsnæðis þegar skrifað hafi verið undir.

„Við höfum séð að þær endurbætur sem gerðar hafa verið á eldra húsnæði fyrir ríkið hafa heppnast vel og við höfum enga ástæðu til að ætla annað en svo verði einnig í okkar tilviki,“ segir hann.

Staðsetning miðsvæðis í Glerárhverfi er einnig kostur að mati Jóns Helga og tvö ný hverfi sem brátt rísa í norðurhluta bæjarins eigi greiðan aðgang að nýju heilsugæslustöðinni. Gert er ráð fyrir að Heilbrigðisstofnunin fái húsnæðið til umráða næsta sumar eða haust.