Friðrik Jónsson
Friðrik Jónsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Friðrik Jónsson og Halldór Benjamín Þorbergsson: "Atvinnuleysi eykst á ný og hið opinbera hefur nú minna svigrúm en áður til að hlaupa undir bagga með bótum og styrkjum. Það er hinn kaldi veruleiki."

Brátt rennur upp hundraðasta vika heimsfaraldurs, sjö hundraðasti dagurinn í breyttum heimi. Heilbrigðisstarfsfólkið okkar og þjóðin öll hefur lyft grettistaki í baráttu við veiruna. Árangurinn er stórkostlegur. Uppsöfnuð dánartíðni er 95% lægri en Evrópumeðaltalið, 80% þjóðarinnar eru fullbólusett og 90% fullorðinna. Það er frábær árangur.

Í bólusettri þjóð bærist þó langvinn og skiljanleg þreyta. Að baki er tími atvinnuleysis, stóraukins heimilisálags, heilsu- og afkomukvíða. Ungt fólk og efnaminna hefur þar borið þungar byrðar, en efnahagskreppan og langvarandi sóttvarnaaðgerðir hafa haft djúpstæð áhrif á okkur öll.

Staðan í byrjun árs

Þrátt fyrir árangursríka baráttu stöndum við frammi fyrir mestu áskoruninni frá upphafi faraldursins. Starfsemi grunninnviða gæti lamast vegna sóttkvía og einangrunar tuga þúsunda starfsmanna. Efasemdaraddir um forgangsröðun stjórnvalda verða háværari. Kallað er eftir skýrum skilaboðum og stefnu jafnt úr röðum launafólks og atvinnurekenda. Hvernig verður leiðin að eðlilegra lífi vörðuð í ljósi hás bólusetningarstigs? Hvernig verða markmið um lýðheilsu og efnahagslega velsæld vegin saman á næstunni?

Hafa stjórnvöld kortlagt heildarkostnað aðgerða?

Beinn og óbeinn kostnaður vegna heimsfaraldurs og sóttvarnaaðgerða leynist víða og stjórnvöldum ber að taka tillit til hans við töku ákvarðana. Hver mánuður takmarkandi aðgerða kostar efnahagslífið tugi milljarða í formi tapaðrar verðmætasköpunar sem að öðrum kosti yrði skipt milli launafólks, fyrirtækja og opinberra sjóða. Flest fyrirtæki geta staðið undir tekjuskerðingu og kostnaðarauka til skamms tíma en smám saman munu hömlur og samfélagslegar takmarkanir leiða til gjaldþrota. Atvinnuleysi eykst á ný og hið opinbera hefur nú minna svigrúm en áður til að hlaupa undir bagga með bótum og styrkjum. Það er hinn kaldi veruleiki.

Hvers virði er frelsið?

Ákvarðanir okkar hafa í nær öllum tilfellum áhrif á aðra. Í samfélagssáttmálanum felst þó að við veitum hvert öðru rúmt frelsi til að taka ákvarðanir um eigin hag, jafnvel þótt þær geti haft áhrif á hag annarra. Þannig viljum við hafa það í lýðræðissamfélagi en að ákveðnu marki þó. Yfir okkur vofir spítali í vanda og skert starfsemi samfélags og atvinnulífs. Of stífar sóttvarnaaðgerðir valda samfélaginu ómældum kostnaði vegna heimatilbúinna flöskuhálsa í heilbrigðiskerfinu.

Undirritaðir eru ekki hlynntir skyldubólusetningu en hvetja stjórnvöld til að beita öllum tiltækum ráðum til að hvetja til bólusetninga fullorðinna. Horfa ætti til annarra landa í því efni. Undanþága þríbólusettra frá sóttkví er góð byrjun en aðra kosti er rétt að skoða í samræmi við það sem tíðkast í nágrannaríkjum okkar. Í Danmörku, Noregi og Svíþjóð eru börn almennt ekki skipuð í sóttkví nema smit komi upp hjá heimilisfólki eða hjá einstaklingi sem þau eru í nánum samskiptum við. Ef smit kemur í skólum fara börn í skimun en mæta í skólann áfram. Stjórnvöld hafa ýmsar leiðir til að hafa áhrif á ákvarðanir fólks, skattkerfi er beitt til að hafa áhrif á neyslu, lög og reglur eru settar til að vernda þegnana. Erfitt er að sjá af hverju stjórnvöld hafa valið að beita sér ekki núna. Skýrar stjórnvaldsreglur eru auk þess æskilegri en misskilvirk kerfi undanþága.

Horfum fram á við

Efnahagslegar og andlegar byrðar heimsfaraldurs hafa fallið mest á ungt fólk en heilsufarsleg áhrif meira á eldri kynslóðir. Við þessu þarf að bregðast. Því er mikilvægt að liðka reglur um sóttkví gagnvart börnum og undanþiggja fullbólusetta sóttkví. Einnig hlýtur að koma til álita að innleiða skarpa en skynsama stýringu á viðbrögðum í heimsfaraldri – að teknu tilliti til bólusetninga. Stjórnvöld verða því að taka þær erfiðu ákvarðanir sem til þarf – þar með talið að beita sér með beinum hætti fyrir bólusetningu óbólusettra. Ákvarðanir um að þiggja ekki bólusetningu hafa alvarleg heilsufarsleg og samfélagsleg áhrif. Vonandi þurfum við ekki að kljást við veiruna í hundrað vikur í viðbót en stjórnvöld verða að marka skýra stefnu fyrir almenning og við sem samfélag þurfum að horfa fram á við.

Friðrik er formaður BHM. Halldór Benjamín er framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Höf.: Friðrik Jónsson, Halldór Benjamín Þorbergsson