[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
EM 2022 Víðir Sigurðsson vs@mbl.is Frakkar, sem eru næstu mótherjar Íslendinga á Evrópumótinu í Búdapest á morgun, sýndu styrk sinn í gær þegar þeir unnu sannfærandi sigur á Hollendingum, 34:24.

EM 2022

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Frakkar, sem eru næstu mótherjar Íslendinga á Evrópumótinu í Búdapest á morgun, sýndu styrk sinn í gær þegar þeir unnu sannfærandi sigur á Hollendingum, 34:24.

Þar rákust Erlingur Richardsson og hans menn í hollenska liðinu loks á vegg eftir frábæra frammistöðu til þessa á mótinu. Þeir stóðu í ólympíumeisturunum í fyrri hálfleik, staðan var 15:12 að honum loknum, en síðan dró hratt í sundur með liðunum.

Aymeric Minne skoraði átta mörk fyrir Frakka og Nicholas Tournat fimm en Kay Smits og Dani Baijens voru atkvæðamestir Hollendinganna með fjögur mörk hvor.

Svartfellingar komu hins vegar á óvart með sannfærandi sigri á daufu liði Króata, 32:26, og ljóst er að baráttan um þriðja sæti riðilsins verður hörð, að því gefnu að ekki verið hægt að stöðva Dani og Frakka á leið þeirra í undanúrslitin.

Þriðja sætið gefur keppnisrétt um fimmta sæti Evrópumótsins, og það sæti gefur beinan keppnisrétt á næsta heimsmeistaramóti. Það er ansi stór gulrót og getur gert baráttuna í riðlinum afar tvísýna í lokaumferðunum á mánudag og miðvikudag þegar Ísland mætir Króötum og Svartfellingum.

Markvörðurinn Nebojsa Simic átti stórleik í marki Svartfellinga gegn Króötum og var með 40 prósent markvörslu. Branko Vujovic og Milos Vujovic voru þeirra markahæstu menn með sjö mörk hvor en Ivan Cupic skoraði sjö mörk fyrir Króata og Luka Cindric fimm. Króatar hafa verið í vandræðum vegna kórónuveirusmita og voru án nokkurra leikmanna. Lið þeirra þótti baráttulítið og þá vantar mikið þegar Króatar eiga í hlut.

Fyrsta tapið hjá Alfreð

Í milliriðli tvö tóku Spánverjar forystuna með öruggum sigri á löskuðu liði Þjóðverja, 29:23. Alfreð Gíslason hafði ekki undan með að fá nýja menn í hópinn á síðustu stundu fyrir leikinn vegna hópsmits í röðum þýska liðsins.

Jorge Maqueda skoraði sex mörk fyrir Spánverja, Ferran Sole og Agustín Casado fimm hvor. Johannes Golla og Patrick Zieker skoruðu fjögur mörk hvor fyrir Þjóðverja sem töpuðu sínum fyrsta leik.

Norðmenn vöknuðu til lífsins og völtuðu yfir Pólverja, 42:31. Svíar unnu Rússa nokkuð sannfærandi, 29:23, og líklega verður slagurinn á milli Norðmanna og Svía um að komast í undanúrslitin.

Þrír leikmenn skoruðu 27 af 42 mörkum Norðmanna gegn Pólverjum. Sebastian Barthold skoraði tíu mörk, Sandor Sagosen níu og Kristian Björnsen átta.