[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Þóroddur Bjarnason tobj@mbl.

Baksvið

Þóroddur Bjarnason

tobj@mbl.is

Velta í einkennandi greinum ferðaþjónustu á Íslandi var 91,6 milljarðar króna í september til október 2021 samkvæmt virðisaukaskattskýrslum sem er næstum því þreföld velta miðað við sama tímabil árið 2020 þegar hún var 31,6 milljarðar króna. Þetta kemur fram í Skammtímahagvísum ferðaþjónustu í janúar sem birtir hafa verið á vef Hagstofunnar.

Þar segir einnig að áætlaðar gistinætur á hótelum í desember séu rúmlega 198 þúsund sem sé rúmlega áttföld aukning borið saman við desember 2020 þegar gistinætur á hótelum voru 21.277. Gistinætur Íslendinga eru áætlaðar 41.400 í desember, eða 137% fleiri en í desember 2020, og gistinætur erlendra gesta eru áætlaðar 157.000 samanborið við 3.777 í desember 2020.

Þá kemur fram í Skammtímahagvísunum að í desember voru 97.568 brottfarir farþega frá Keflavíkurflugvelli í samanburði við 11.646 í desember 2020. Brottfarir farþega með erlent ríkisfang voru 64.305 samanborið við 8.135 í desember 2020.

Neysla jókst eftir faraldur

Gústaf Steingrímsson, hagfræðingur hjá hagfræðideild Landsbankans, segir í samtali við Morgunblaðið að tölurnar sýni að ferðaþjónustan sé á réttri leið þó að enn sé íslensk ferðaþjónusta langt frá því að vera með sömu tekjur og fyrir faraldurinn.

„Neysla hvers erlends ferðamanns í hans eigin gjaldmiðli jókst eftir faraldur sem má helst rekja til þess að erlendir ferðamenn gistu lengur en áður. Ástæða þess er að það voru minni tækifæri til að ferðast í heiminum. Þú fórst því til færri landa en dvaldir lengur í staðinn og eyddir meiru,“ segir Gústaf.

Hann segir að margir hafi velt fyrir sér hvort sú breyting neyslumynstursins yrði varanleg. „Þróunin á seinni árshelmingi á síðasta ári bendir til að þessi neyslubreyting sé ekki komin til að vera. Við teljum að neysla ferðamanna muni leita nokkuð hratt í svipað far og hún var í fyrir faraldurinn.“

Keyrir áfram hagvöxtinn

Gústaf ítrekar mikilvægi þess að ferðaþjónustan nái sér sem fyrst á strik enda sé það fyrst og fremst hún sem muni keyra áfram hagvöxt hér á landi á næstu árum.

„Ef við skoðum samanburð milli síðasta árs og ársins 2019 þá var heildarútflutningur í ferðaþjónustu 136 milljarðar króna á fyrstu þremur fjórðungum síðasta árs en hann var nærri þrisvar sinnum meiri, eða 382 milljarðar á sama tíma árið 2019. Í fyrra komu enda til landsins einungis 690 þúsund ferðamenn en þeir voru tvær milljónir árið 2019.“

Gústaf segir að ferðaþjónustan eigi því enn nokkuð langt í land með að ná fyrra umfangi. Hann bendir á að Landsbankinn hafi í október sl. spáð 1,5 milljónum ferðamanna til landsins á þessu ári. Spáin kom út áður en Ómíkron-afbrigði kórónuveirunnar byrjaði að herja á heimsbyggðina og áður en smit innanlands fóru í nýjar hæðir, eins og raunin hefur verið í byrjun þessa árs með tilheyrandi fjölda fólks í sóttkví og einangrun. „Líklegt er að við munum lækka þessa spá eitthvað“.

Kom misjafnt niður á greinum

Gústaf bendir á að faraldurinn hafi komið mismunandi illa niður á hinum ýmsu greinum ferðaþjónustunnar. „Veltan var almennt að dragast saman um 42% á fyrstu tíu mánuðum síðasta árs miðað við árið 2019, en á sama tíma dróst veitingasala og þjónusta einungis saman um 6,3% á sama tímabili. Mismunandi tekjusamdrátt greina í ferðaþjónustu má m.a. rekja til þess að vægi Íslendinga í tekjum greinanna var mismunandi fyrir faraldur. Þar sem vægi Íslendinga var mikið varð mun minni samdráttur í tekjum.“

Af öðrum greinum á sama tímabili var samdráttur hjá bílaleigum um 19% og 40% samdráttur varð í rekstri gististaða. „Þarna hjálpar til að Íslendingar gátu ekki heldur ferðast til útlanda og stórjuku því eftirspurn sína eftir gistingu.“

Gústaf gerir ráð fyrir töluverðum vexti í ferðaþjónustu á þessu ári. „Ef við náum 1,5 milljónum ferðamanna til landsins er það 75% af því sem það var síðasta árið fyrir faraldur. Þó að innviðirnir séu allir til staðar eins og hótel, eftir mikla og góða uppbyggingu fyrir faraldur, þá mun taka tíma að smyrja hjólin og koma öllu af stað á ný. Þar á meðal að ráða fólk með þekkingu inn í greinina, enda hurfu margir útlendingar sem unnu í greininni úr landi þegar faraldurinn skall á, og óvíst hvort þeir komi aftur.“

Allar hugmyndir fóru í bið

Spurður hvort menn í greininni séu farnir að huga að fjárfestingum á nýjan leik, vegna væntinga um fleiri ferðamenn á þessu ári en á því síðasta, segir Gústaf að allar nýjar hugmyndir hafi meira og minna farið í bið þegar faraldurinn skall á, þótt menn hafi klárað verkefni sem farin voru af stað fyrir faraldur. „Umtalsverður hluti ferðaþjónustunnar er með lán í frystingu hjá lánastofnunum sem hafa komið til móts við fyrirtækin með því að leyfa þeim að greiða litla sem enga vexti meðan þetta ríður yfir,“ segir Gústaf að lokum.