[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
*Knattspyrnumaðurinn Böðvar Böðvarsson hefur skrifað undir tveggja ára samning við sænska félagið Trelleborg og verður því áfram í sænsku B-deildinni á komandi tímabili.

*Knattspyrnumaðurinn Böðvar Böðvarsson hefur skrifað undir tveggja ára samning við sænska félagið Trelleborg og verður því áfram í sænsku B-deildinni á komandi tímabili. Böðvar, sem er 26 ára bakvörður, lék með Helsingborg á síðasta tímabili og tók þátt í að koma liðinu upp í úrvalsdeildina en var ekki boðinn nýr samningur í kjölfarið. Trelleborg endaði í sjöunda sæti B-deildarinnar 2021.

*Bandaríska knattspyrnukonan Tiffany McCarty sem lék með Breiðabliki á síðasta tímabili og áður með Selfyssingum er gengin til liðs við Þór/KA. Tiffany er 31 árs framherji og hefur leikið í Noregi og Japan, sem og í bandarísku atvinnudeildinni. Hún hefur skorað 17 mörk í 33 leikjum í úrvalsdeildinni hér á landi.

* Jón Daði Böðvarsson , landsliðsmaður í knattspyrnu, gekk í gær til liðs við enska C-deildarfélagið Bolton, eftir að hafa fengið sig lausan frá Millwall í B-deildinni. Hann samdi til 18 mánaða, eða til sumarsins 2023. Bolton er í 17. sæti af 24 liðum í C-deildinni.

*Hinn 17 ára gamli Kristian Nökkvi Hlynsson lék sinn annan leik með aðalliði hollenska knattspyrnustórveldisins Ajax í gærkvöld, og skoraði eins og í þeim fyrsta. Hvort tveggja hafa verið bikarleikir en í gærkvöld vann Ajax D-deildarliðið Excelsior Maassluis, 9:0. Kristian lék seinni hálfleik og skoraði sjöunda markið á 64. mínútu.

* Magnús Óli Magnússon og Vignir Stefánsson , leikmenn Vals, voru í gær kallaðir inn í landsliðshópinn í handknattleik í kjölfar þess að sex leikmenn eru úr leik vegna kórónuveirusmita. Þeir verða væntanlega í hópnum þegar Ísland mætir Frakklandi í Búdapest á morgun.

* Anton Gylfi Pálsson og Jónas Elíasson dæma ekki meira á Evrópumóti karla í handknattleik. Anton hefur greinst með kórónuveiruna og er í einangrun í Slóvakíu og Jónas er af þeim sökum farinn heim til Íslands. Þeir dæmdu einn leik í fyrstu umferð riðlakeppninnar.

* Davíð Snær Jóhannsson, knattspyrnumaður úr Keflavík, er genginn til liðs við ítalska félagið Lecce sem keypti hann af Keflvíkingum. Davíð er 19 ára gamall en hefur þó leikið með Keflavíkurliðinu frá 2018 og hefur spilað með því 67 leiki í tveimur efstu deildunum, ásamt því að spila 40 leiki með yngri landsliðum Íslands. Lecce er í fimmta sæti ítölsku B-deildarinnar og með liðinu leikur einnig Þórir Jóhann Helgason , fyrrverandi leikmaður FH.