Guðni Einarsson gudni@mbl.is Yfir 3.800 börn 17 ára og yngri voru í einangrun í gær vegna Covid-19-smits samkvæmt covid.is. Þar af voru 1.866 á aldrinum 6-12 ára. Smituð börn þurfa að vera sjö daga í einangrun eins og aðrir og í sumum tilfellum lengur ef einkennin vara.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Yfir 3.800 börn 17 ára og yngri voru í einangrun í gær vegna Covid-19-smits samkvæmt covid.is. Þar af voru 1.866 á aldrinum 6-12 ára. Smituð börn þurfa að vera sjö daga í einangrun eins og aðrir og í sumum tilfellum lengur ef einkennin vara.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði að á þriðjudaginn var hafi 25-30% þeirra sem greindust með Covid-19 verið 16 ára og yngri. Daginn þar á undan voru börn helmingur þeirra sem greindust. Með útbreiðslu smita byggist upp ónæmi í samfélaginu.

„Ég held að nú sé tækifæri til að einfalda ýmislegt eins og varðandi sýnatökur, reglur um sóttkví og einangrun. Við skoðum þetta næstu daga og vikur. Ef allt gengur vel og álagið á spítalanum verður ekki of mikið þurfum við að athuga hvort við getum ekki aflétt einhverju af þessum takmarkandi aðgerðum,“ sagði Þórólfur. Hann rifjaði upp að í byrjun faraldursins hafi smit hjá börnum verið fátíð. Þau voru ekki að veikjast og smituðu ekki mikið.

„Þetta breyttist þegar Delta-afbrigðið kom. Börn fóru að smitast meira, veikjast meira og vera meiri smitberar í samfélaginu. Það er reyndar algengt með öndunarfærasýkingar að þær séu mikið reknar áfram af börnum. Það virðist svipað eiga við um Ómíkron-afbrigðið,“ sagði Þórólfur.

Yfirleitt virðist vera um að ræða smit á milli barna og svo bera þau smitið heim þar sem það heldur áfram. Þórólfur sagði erfitt að spá um framhaldið. Börnin séu móttækileg fyrir smiti enda yfirleitt ekki jafn vel varin með bólusetningu og þeir eldri. Hópur yngri fullorðinna, það er 18-29 ára, er yfirleitt ekki búinn að fá örvunarskammt. Það var stærsti aldurshópur þeirra sem voru í einangrun í gær, 2.146 manns. „Það er greinilegt að örvunarskammturinn kemur í veg fyrir smit hjá eldri aldurshópunum,“ sagði Þórólfur.

Mjög hefur dregið úr spítalainnlögnum vegna Covid. Þetta sést greinilega þegar ástandið nú er borið saman við september 2021. Hlutfall innlagna var um 1,5% smitaðra þegar Delta-afbrigðið var ráðandi en er orðið um 0,2% smitaðra nú.

„Flestir með Covid inni á spítalanum (Landspítalanum) eru annaðhvort fólk sem liggur á spítalanum út af einhverju öðru og hefur smitast þar eða leggjast inn og greinist þá með smit,“ sagði Þórólfur.

Þórólfur sagði spurningarnar nú m.a. snúast um hvernig spítalinn ætli að bregðast við ef smit breiðist út á meðal inniliggjandi sjúklinga. Útbreidd veikindi koma einnig niður á starfsmönnum spítalans og fleiri verði frá vinnu af þeim sökum. Það skapi ákveðin vandamál.

Í fyrradag greindust 1.302 innanlands með kórónuveirusmit. Af þeim voru 54% í sóttkví við greiningu. Þá greindust 88 smit á landamærunum. Í gærmorgun voru 32 á Landspítala með Covid-19, þrír á gjörgæslu og voru allir í öndunarvél.