Svala Lárusdóttir fæddist á Drangsnesi við Steingrímsfjörð 10. mars 1945. Hún lést á líknardeildinni í Kópavogi 7. janúar 2022.

Svala, sem skírð var Sigurmunda Svala, var dóttir hjónanna Elínar Elísabetar Bjarnadóttur frá Gautshamri, f. 29.10. 1913, d. 1.9. 2002, og Lárusar Jóhanns Guðmundssonar frá Byrgisvík, f. 11.9. 1913, d. 9.8. 1987.

Systkini Svölu eru: Birna, f. 1936, Hallfreður, f. 1938, d. 2014, Sigrún, f. 1943, Erla f. 1952.

Árið 1969 giftist Svala Sigurði Erni Gíslasyni, f. 1944. Þau slitu samvistum 1989. Síðar kynntist Svala góðum vini, Stefáni Karli Þorsteinssyni, f. 1949, d. 2006.

Börn Svölu og Sigurðar Arnar eru: 1) Bryndís Erla, f. 14.8. 1971, gift Gunnari Friðrikssyni, f. 10.5. 1968. Börn þeirra eru Steinar Leó, f. 1995, Svala Júlía, f. 1999, Silja Katrín, f. 2008. 3) Arnar Þór, f. 27.1. 1975, kvæntur Jönu Sturlaugsdóttur, f. 3.8. 1975. Börn þeirra eru Liisa Bergdís, f. 2002, Gunnar Breki, f. 2005, Hanna Maria, f. 2011. 3) Berglind Lóa, f. 27.12. 1977, gift Guðjóni Leifssyni, f. 3.10. 1968. Börn þeirra eru Lilja Þórdís, f. 2008, Bryndís Lára, f. 2011, Bjarki Örn, f. 2013.

Ástkær vinur Svölu er Þór Guðmundsson, f. 16.1. 1940.

Fjölskylda Svölu fluttist frá Drangsnesi að Ögri í Helgafellssveit þegar hún var sjö ára. Síðar fluttist fjölskyldan til Stykkishólms. Fimmtán ára fór Svala í MA og var þar í tvö ár, síðan lá leið hennar í Samvinnuskólann á Bifröst og útskrifaðist hún þaðan 1964. Svala flutti til Reykjavíkur og vann við bókhald fyrstu ár sín í vinnu. Árið 1972 flutti fjölskyldan til Noregs, þar sem Svala vann hjá Loftleiðum. Eftir að fjölskyldan kom heim vann Svala sem gjaldkeri, lengst af hjá Gámaþjónustunni, 21 ár, þar til hún hætti störfum vegna aldurs árið 2012.

Svala var í ýmsum félagasamtökum í gegnum tíðina, m.a. Soroptimistaklúbbi Bakka og Selja, tók hún þar að sér ýmis ábyrgðarstörf. Hún elskaði að ferðast og hafði ferðast mikið um landið og einnig erlendis með Þór.

Útför Svölu verður gerð frá Lindakirkju í Kópavogi í dag, 21. janúar 2022, klukkan 13.

Fólk er velkomið meðan húsrúm leyfir en athöfninni verður einnig streymt. Hlekkur á streymi:

https://www.mbl.is/andlat

Elsku mamma við kveðjum þig með þakklæti og ást í hjarta. Þú trúðir á það góða og á kærleikann og óskaðir þess að við myndum nýta sérhvern dag.

Megi gæfan þig geyma,

megi Guð þér færa sigurlag.

Megi sól lýsa þína leið,

megi ljós þitt skína sérhvern dag.

Og bænar bið ég þér,

að ávallt geymi þig Guð í hendi sér.

Megi englar þér unna,

megi árur bægja hættu frá

Megi ást alltumlykja þig,

megi ávallt rætast hver þín þrá

Og bænar enn ég bið að ávallt geymi

þig Guð sér við hlið

(Bjarni Stefán Konráðsson)

Elskum þig.

Þín börn,

Bryndís Erla, Arnar Þór og Berglind Lóa.

Elsku amma sín.

Við trúum því ekki að þú sért farin. Það var svo gaman að vera með þér. Við fórum í gönguferðir og ef þú varst ekki með okkur komstu alltaf að banka á gluggann hjá okkur til að segja hæ. Þú bakaðir pönnsur og þá máttum við alltaf setja mikinn sykur. Við bökuðum um jólin öll saman fjölskyldan „tífildúfur“ sem var gaman og þú kenndir okkur að gera flottar kúlur, sem tókst ekki alltaf. Þú passaðir okkur þegar við vorum veik, söngst fyrir okkur og last sögur og við báðum saman bænir. Á aðfangadag fórum við alltaf í jólagraut til þín og þegar við vorum of spennt að taka upp pakka þá sagðir þú okkur að það lægi ekkert á. Þegar við fórum til Krítar var gaman að þú fórst með okkur í fótbolta á ströndinni. Lilja Þórdís: „Það var gott að hringja í þig þegar ég var að ganga heim úr skólanum.“ Bryndís Lára: „Þegar mér líður illa þá lít ég upp og horfi á skærustu stjörnuna og veit að það ert þú, amma sín. Þú ert búin að breytast í ljós og býrð núna á plánetu með öllum hinum ljósunum.“ Bjarki Örn: „Litli kútur vill knúsa þig.“

Við söknum þín og munum alltaf gera og elskum þig mikið. Þú sagðir við okkur í síma: Góða nótt elskurnar mínar og nú segjum við: Góða nótt, elsku amma sín.

Lilja Þórdís, Bryndís Lára og Bjarki Örn.

Elsku amma, það er erfitt og skrýtið að hugsa til þess að þú sért ekki lengur hjá okkur, en við erum svo þakklát fyrir allar þær góðu stundir sem við fengum að eiga með þér. Allt yndislega spjallið, samræðurnar og góðu ráðin sem þú komst með. Allar pönnukökurnar sem enginn gerði betur en þú, öll leikritin og skákleikirnir sem voru spilaðir.

Við elskum þig, og þótt það sé erfitt án þín þá erum við gríðarlega þakklát fyrir að hafa fengið að vera með þér og hafa þig hjá okkur.

Hvíldu í friði elsku amma.

Liisa Bergdís, Gunnar Breki og Hanna María.

Elsku amma okkar, orð fá ekki lýst því hvað við söknum þín mikið. Allar stundir með ömmu voru okkur lærdómsríkar enda var hún amma uppfull af visku og góðum ráðum. Það var alltaf hægt að leita til hennar vitandi að maður fékk hreinskilið álit og stuðning. En amma var ekki einungis ráðagóð heldur einnig íþróttakona mikil, hún tók ekki annað í mál en að hreyfa sig daglega og dáðumst við öll að þessum dugnaði í henni. Amma fylgdist einnig vel með okkar gengi í íþróttum og var áhugasöm um hvernig gekk í boltanum, henni þótti þó betra að fylgjast með heiman frá og vildi helst ekki vita stöðuna fyrr en leik var lokið.

Amma fékk viðurnefnið „amma popp“ þegar við vorum yngri þar sem hún poppaði oft þegar við komum í heimsókn. En heimsóknir hjá ömmu einkenndust þó einnig af bestu pönnukökum í heimi, teiknimyndum og skemmtilegum sögum. Sögurnar af hennar ferðalögum stóðu upp úr hjá okkur, til dæmis frásagnir af Bítlatónleikum og af ferðalagi hennar á puttanum um Evrópu. Þegar við vorum yngri var mikið um spilamennsku hjá ömmu, þar var spilað yatzy, ólsen-ólsen, veiðimaður og jafnvel félagsvist. Amma var ekki bara seig í spilum heldur hafði hún einstaka hæfileika þegar kom að ljóðum og var sjálf mjög fær í að semja þau. Hún gat þulið upp alls konar ljóð og vísur utanbókar og það þótti okkur alveg magnað.

Í rauninni má segja að okkur fyndist amma mögnuð á allan hátt og okkur þykir vænt um allar þær minningar sem við eigum um hana. Allur tími sem við eyddum með henni hefur verið okkur afar dýrmætur og öll hennar ráð munu reynast okkur gott veganesti hér eftir.

Takk fyrir allt elsku amma.

Systkinin

Steinar Leó, Svala Júlía og Silja Katrín.

Vakna þú sem sefur

og veittu þjáðum lið.

Verndaðu blómið sem grær við

þína hlið.

Hlustaðu á regnið,

heyrðu dropann falla,

himinninn er opinn,

drottinn er að kalla.

Þegar ég hugsa til baka, til samverustundanna með Svölu, þá er mér þakklæti efst í huga. Svala var sérlega vönduð manneskja, traust og hlý. Hún var orðvör, heiðarleg og umhyggjusöm. Þau pabbi áttu fallegt samband og reyndist hún okkur systkinunum alla tíð vel, ekki síst í gegnum veikindi hans og fráfall.

Elsku Svala mín, þér ég vil þakka allar góðu stundirnar og velvildina. Nú sé ég ykkur pabba, tvær stjörnur sem náð hafa saman á blárri festingunni.

Mínar hlýjustu samúðarkveðjur til ykkar systkinanna og fjölskyldna.

Minningin um Svölu er styrkur í sorginni.

Vala Björk Stefánsdóttir.

Kveðjuorð til kærrar vinkonu, þín verður sárt saknað.

Hryggðar hrærist strengur

hröð er liðin vaka

ekki lifir lengur

ljós á þínum stjaka.

Skarð er fyrir skildi

skyggir veröldina

eftir harða hildi

horfin ertu vina.

Klukkur tímans tifa

telja ævistundir

ætíð lengi lifa

ljúfir vinafundir.

Drottinn veg þér vísi

vel þig ætíð geymi

ljósið bjart þér lýsi

leið í nýjum heimi.

(Hákon Aðalsteinsson)

Þinn vinur og ferðafélagi,

Þór Guðmundsson.

Stórt skarð hefur verið höggvið í klúbbinn okkar, Soroptimistaklúbb Bakka og Selja.

Svala Lárusdóttir, sem lést núna 7. janúar, er þriðja systirin sem fellur frá á rúmu ári. Það er vissulega sorg í hjörtum okkar, en klúbburinn hefur alltaf staðið þétt saman og mikið systraþel ríkt í hópnum. Svala var búin að vera með okkur í 24 ár, ljúf og yndisleg. Svala var falleg kona, alltaf vel klædd með afskaplega fallega framkomu, í raun hefðarkona. Þrátt fyrir góða hæfileika hafði Svala sig ekki mikið í frammi. Aldrei man ég eftir að hún hækkaði róminn.

Svala tók ætíð þátt í að undirbúa jólafundina okkar en þar reyndi á smekkvísi í skreytingum og matarundirbúningi. Hún var líka alltaf með í verkum þegar við tókum á móti eldri borgurum í kaffi á uppstigningardag. Þá naut hún sín, bæði við að baka og gera gestum gott. Svala var einstaklega traust og ábyggileg.

Eitt af markmiðum samtaka okkar er að vinna að jafnrétti, framförum og friði með alþjóðlegri vináttu og skilningi. Svala fór vissulega með friði og vináttu öll þessi 24 ár sem við störfuðum saman í klúbbnum.

Margar ferðir fórum við klúbbsystur saman, en mjög minnisstæð er ferð okkar til Jersey fyrir nokkrum árum. Ein klúbbsystra okkar giftist manni frá Jersey, Kevin Costello, og þá þótti okkur öllum sjálfsagt að fara og heimsækja nýgiftu hjónin og fá þau til að sýna okkur þessa fallegu og merkilegu eyju. Ferðin var í alla staði dásamleg og þarna naut Svala sín verulega vel. Að hitta og kynnast Soroptimistasystrum á Jersey, lífi þeirra og starfi, ferðast saman og njóta samveru þessa daga var vissulega gefandi fyrir okkur allar.

Svala var dugleg að fara í göngur, það gerði hún daglega og oft kom hún með klúbbsystrum í okkar vikulegu gönguferðir. Eftir að Svala var orðin veik kom hún með okkur þegar hún treysti sér til. Aldrei kvartaði hún þótt við vissum að oft væri hún sárþjáð.

Nú er komið að leiðarlokum og þökkum við góðri og tryggri systur fyrir samfylgdina og vottum Þór og fjölskyldunni allri okkar innilegustu samúð.

Fyrir hönd systra í Soroptimistaklúbbi Bakka og Selja,

Guðrún Erla Björgvinsdóttir.