Guðni B. Guðnason fæddist á Guðnastöðum í Austur-Landeyjum í Rangárvallasýslu 1. apríl 1926. Hann lést í Reykjavík 15. janúar 2022.

Foreldrar hans voru þau Jónína Guðmunda Jónsdóttir frá Austur-Búðarhólshjáleigu í Austur-Landeyjum, f. 5. júní 1902, d. 16. júní 1969, og Guðni Guðjónsson frá Brekkum í Hvolhreppi, Rangárvallasýslu, f. 11. júní 1898, d. 14. apríl 1995. Guðni var þriðji í röð 11 systkina. Guðni fluttist með foreldrum sínum á fyrsta aldursári til Vestmannaeyja og bjó með þeim í Bergholti í Vestmannaeyjum í eitt ár en fluttist síðan með foreldrum sínum árið 1927 að Brekkum í Hvolhreppi.

Guðni kvæntist hinn 13. maí 1951 Valgerði Þórðardóttur frá Sléttubóli í Austur-Landeyjum, f. 3. mars 1926, d. 2. febrúar 2005. Synir Guðna og Valgerðar eru: 1) Gunnar arkitekt í Reykjavík, f. 1. janúar 1951, kvæntur Ernu Olsen bókaverði frá Vestmannaeyjum. 2) Þórólfur barnalæknir og sóttvarnalæknir, f. 28. október 1953, kvæntur Söru Hafsteinsdóttur sjúkraþjálfara frá Vestmannaeyjum. 3) Guðni Björgvin tölvunarfræðingur og ráðgjafi í Reykjavík, f. 30. september 1961, kvæntur Ástu Björnsdóttur ballettkennara frá Reykjavík. Barnabörnin eru sex: Valur Gunnarsson flugmaður í Reykjavík, Örn Gunnarsson tölvunarfræðingur í Englandi, Kristín Gunnarsdóttir viðskiptafræðingur hjá Ríkisskattstjóra í Reykjavík, Guðni Gunnarsson hljóðfræðingur í Reykjavík, Hafsteinn Þórólfsson tónskáld og söngvari og Svavar Þórólfsson kvikmyndagerðarmaður í Reykjavík. Barnabarnabörnin eru fimm, þau Valgerður Gríma, Kára, Freyja, Olivia Erna og Erik.

Guðni fékkst við ýmis störf frá unga aldri, m.a. bústörf á heimaslóðum, síldveiðar og vegavinnu. Guðni sótti nám hjá Sigurði Greipssyni í Haukadal og lærði þar að glíma. Hann útskrifaðist frá Samvinnuskólanum og tók við prófskírteininu úr höndum Jónasar á Hriflu árið 1947.

Árið 1947 hóf Guðni störf í Kaupfélagi Hallgeirseyjar. Í ársbyrjun 1956 varð hann kaupfélagsstjóri kaupfélagsins Bjarkar á Eskifirði til ársins 1962 en þá fluttu þau sig til Vestmannaeyja og var Guðni kaupfélagsstjóri þar allt til loka árs 1972. Í lok árs 1972 varð hann aðstoðarkaupfélagsstjóri Kaupfélags Árnesinga og gegndi því starfi til aprílloka 1992. Samhliða starfi kaupfélagsstjóra í Vestmannaeyjum kenndi Guðni bókfærslu í gagnfræðaskólanum, iðnskólanum og stýrimannaskólanum í Vestmannaeyjum. Guðni vann samfellt í 44 ár fyrir samvinnuhreyfinguna. Guðni og Valgerður fluttu í Kópavog í maí 1999.

Guðni var stjórnarformaður Umf. Baldurs á Hvolsvelli um árabil, stjórnarformaður Verslunarmannafélags Rangæinga, sat í stjórn Hraðfrystihúss Eskifjarðar, var í stjórn félagsheimilisins Valhallar á Eskifirði og stjórnarformaður Sunnlendingafélagsins í Vestmannaeyjum.

Útförin fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, 21. janúar 2022, klukkan 10. Einungis nánustu aðstandendur verða viðstaddir útförina.

Hlekkir á streymi:

https://streyma.is/streymi/

https://www.mbl.is/andlat

Í dag kveð ég tengdapabba minn, Guðna B. Guðnason. Löngu og farsælu 95 ára lífshlaupi er lokið. Þegar ég hugsa til baka þá eru tvö orð sem koma upp í hugann; hress og líflegur. Alltaf að gera eitthvað, hugsa um hestana sína sem voru hans ástríða, dekra við kindurnar þegar hann átti þær og föndra við lystigarðinn heima hjá sér. Blóm og tré voru valin af sérstakri nákvæmni og alúð, allt átti að hafa tækifæri til þess að dafna sem best.

Guðni ræktaði líka fólkið sitt vel. Frá fyrsta degi sýndi hann áhuga á öllu sem ég tók mér fyrir hendur. Hann spurði mig alltaf þegar við hittumst hvernig ballettskólinn gengi og hvort það væri ekki fullt hjá mér. Hvort allt væri ekki í góðu gengi. Það er ómetanlegt þegar maður finnur svona áhuga og væntumþykju.

Þegar við hjónin byrjuðum í hundarækt þá fylgdist hann spenntur með. Já, tengdó var mikill dýravinur og hestamaður frá unga aldri. Hestar voru hans líf og yndi. Hann gat alltaf talað um hesta, rakið ættartölur þeirra, langt aftur. Mér fannst koma sérstakur svipur á hann þegar hann talaði um hesta. Svipur sem lýsti einstakri ást og virðingu. Það eru einungis fjögur ár síðan Guðni hætti að halda hesta. „Þú verður að láta hana eiga folald,“ sagði hann við mig um meri sem hann gaf mér fyrir nokkrum árum. Hann horfði fram á veginn, vildi láta lífið halda áfram. Merin sem hann gaf mér var leirljós á litinn. Litur sem pabbi hans á Brekkum ræktaði sérstaklega og merin var líka af þeim ættstofni. Honum var mikið í mun að viðhalda leirljósa litnum. Fátt er fallegra en gullið fax á leirljósum hesti. Sú ásýnd ljómar af birtu og fegurð.

Ég kveð elskulegan tengdapabba með þá mynd í huga.

Ásta Björnsdóttir.

Ungur þeysir apríl inn

yfir landið fríða.

Þá er varla vinur minn

vorsins langt að bíða.

Í lofti bærast þýðir þá

þúsundradda strengir.

Fjóluangar fara á stjá

fæðast góðir drengir.

Seiðir til þín sunnanblær

sólskinsdaga bjarta.

Verði alltaf vinur kær

vor í þínu hjarta.

Þetta orti Hafsteinn Stefánsson á 45 ára afmæli Guðna tengdaföður okkar. Þeir voru vinir frá fornu fari og skiptust á stökum og kvæðum.

Guðni var mjög ljóðelskur og orti sjálfur töluvert. Það er gæfa fjölskyldunnar að hann skuli hafa tekið saman ljóðin sín og vísur fyrir um áratug.

Við vorum mjög heppnar að eignast svona hressan og skemmtilegan tengdaföður þegar við kynntumst sonum hans fyrir u.þ.b. hálfri öld. Guðni og Gerða tengdamóðir okkar vildu allt fyrir okkur og börnin okkar gera og heimili þeirra stóð okkur alltaf opið. Það voru ófá jól og páskar sem við fylltum húsið í Dælengi á Selfossi þar sem þau bjuggu í 24 ár.

Vegna náms bjuggum við tímabundið erlendis, Erna og Gunnar í Liverpool og Sara og Þórólfur í Danmörku og síðar í Bandaríkjunum. Þangað heimsóttu þau okkur og létu ekki á sig fá þótt húsnæðið væri lítið, aðalmálið var að vera saman. Þá var oft spilað á kvöldin og þurfti að passa að Guðni sæi ekki á spilin okkar því hann var duglegur að svindla í spilum. Einnig voru ófáir skrúðgarðar skoðaðir en það var eitt af áhugamálum Guðna og bar garðurinn í Dælengi þess merki. Þar voru í sérstöku uppáhaldi bleikar dornrósir, bóndarósir og tilklipptar sírenur. Alls staðar þar sem þau bjuggu voru ræktaðar kartöflur af sérstöku yrki.

Síðustu árin varð Guðna tíðrætt um æsku sína á Brekkum í Hvolhreppi. Sagði hann okkur sögur af Gunnu blindu sem fóstraði hann til sjö ára aldurs. Hún kenndi honum kvæði og bænir og þótti honum svo mikið vænt um hana að hann nefndi frumburð sinn í höfuðið á henni. Einnig varð honum tíðrætt um uppáhaldshundinn sinn Spora og hestinn Tígul. Guðni var heilsuhraustur og gat séð um hesta sína fram yfir nírætt.

Með miklum söknuði og þakklæti kveðjum við elskulegan tengdaföður, bóndann og bóndasoninn sem er jarðsettur á sjálfan bóndadaginn.

Erna og Sara.

Við bræður eigum einstakar minningar um afa. Að gista hjá ömmu og afa á Selfossi var eins og að fara til útlanda.

Skrifstofa afa var fjársjóður. Gömul reiknivél með borða og stórum tökkum sem gáfu frá sér hljómfagra smelli. Blaðahnífur sem afi hlaut að hafa fundið í fjársjóðsleit.

Afi átti rakvél af gamla skólanum. Bursti með sápu sem hann löðraði á sér kinnarnar með og glæsileg rakvél sem geymdi hárbeitt rakvélarblaðið. Þessi athöfn var tilkomumikil og virðingarverð.

Afi var einstakur og lét manni líða eins og maður væri einstakur. Eins konar eyja skipti eldhúsinu á Selfossi í tvennt og frá um fimm ára aldri lagði afi ávallt fyrir mann próf við eyjuna þegar maður kom í heimsókn. Prófið fólst í að kanna hversu sterkur maður væri með því að reyna að lyfta afa, sem maður náði strax. Það var mikið afrek að ná að lyfta honum og manni tókst það alltaf. Hins vegar var hann sá eini af stóra fólkinu sem maður náði að lyfta. Þetta vakti mikil heilabrot. Þá var náð í baðvigtina og athugað hvort t.d. pabbi, sem maður náði aldrei að lyfta, væri svona miklu þyngri en afi. En nei, pabbi reyndist vera léttari, samkvæmt vigtinni. En ávallt náði maður að lyfta afa, sem gaf manni trú á eigin styrkleika, þótt hann væri svona valkvæður. Það var svo ekki fyrr en maður var orðinn stálpaðri að maður sá hvaðan styrkleikinn kom. Afi var þá að kanna styrkleika yngsta fjölskyldumeðlimsins og jú, sá litli lyfti honum eins og ekkert væri. En þá sá maður að afi, staðsettur milli eyjunnar og borðplötunnar við vegginn, lyfti sér sjálfur upp. Þó að hrekkur væri var maður alltaf sterkur í návist afa. Hann var nefnilega hrekkjalómur af guðs náð og spilaði langa leikinn, þ.e. hrekkti fólk svo það áttaði sig ekki á því fyrr en árum seinna. Til þess þarf skákheila.

Eitt sinn stóð Svavar frammi fyrir því að þurfa að ná prófi í bókfærslu. Lítil áhersla hafði verið lögð á námið, sem endurspeglaðist í einkunnum kaflaprófanna: Núll, einn og tveir komma þrír.

Hann stóð frammi fyrir falli.

Afi tók þetta ekki í mál og bauð honum heim í kennslu.

Við tóku þrír dagar frá morgni til kvölds. Á afa skyldi hlusta, og það gerði hann.

Lokaeinkunn: 8,5.

Hann var þá sakaður um að hafa svindlað á prófinu og fenginn til viðtals hjá skólastjóra Verzlunarskólans.

Ásökunin kom vegna misræmis í einkunnum ársins og þar sem hann náði að leysa eitt dæmi sem einungis þrír höfðu leyst og aðferð Svavars til úrlausnar var ekki notuð á þeim tíma.

Hann sýndi þeim þá hvernig afi hafði kennt að leysa dæmið og var þá spurður: Hver kenndi þér að leysa þetta á þennan hátt?

„Nú hann afi minn!“ sagði hann hátt og snjallt.

„Hver er það?“ spurði bókfærslukennarinn.

„Guðni B. Guðnason, kaupfélagsstjóri og tölusnillingur með meiru!“

„Já, þú meinar,“ sagði kennarinn.

Eftir það báðust þeir innilega afsökunar og bað bókfærslukennarinn um kveðju til afa, sem hafði skólað hann til sem krakka í vinnu hjá honum í Kaupfélaginu.

Afi, þú kenndir að taka lífið ekki of alvarlega, að elska dýr, að virða sjálfan sig og að hrekkja fólk.

Þínir prakkarar,

Svavar og Hafsteinn.