[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Landsnet hyggst leggja Blöndulínu 3 frá Blöndustöð um Kiðaskarð niður í Skagafjörð og þaðan um Efribyggð, yfir Héraðsvötn og síðan meðfram núverandi línu um Öxnadalsheiði og Öxnadal til Akureyrar. Þessi leið er aðalvalkostur endurtekins umhverfismats á línuleiðinni. Ekki er talinn kostur að hafa jarðstrengi á hluta línuleiðarinnar. Þá verður núverandi byggðalína rifin frá Varmahlíð til Akureyrar.

Baksvið

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Landsnet hyggst leggja Blöndulínu 3 frá Blöndustöð um Kiðaskarð niður í Skagafjörð og þaðan um Efribyggð, yfir Héraðsvötn og síðan meðfram núverandi línu um Öxnadalsheiði og Öxnadal til Akureyrar. Þessi leið er aðalvalkostur endurtekins umhverfismats á línuleiðinni. Ekki er talinn kostur að hafa jarðstrengi á hluta línuleiðarinnar. Þá verður núverandi byggðalína rifin frá Varmahlíð til Akureyrar.

Bygging Blöndulínu 3 er liður í endurnýjun byggðalínunnar. Hún liggur frá Blönduvirkjun til Akureyrar. Framkvæmdum er lokið við Kröflulínu 3 og standa yfir við Hólasandslínu 3 en þær tengja saman Akureyri og Austurland. Síðan er Holtavörðuheiðarlína 1, á milli Hvalfjarðar og Holtavörðuheiðar, í undirbúningi. Styst á veg kominn er kaflinn frá Holtavörðuheiði í Blönduvirkjun en það er síðasta línulögnin í þessum fyrsta hluta endurnýjunar byggðalínunnar.

Matið unnið öðru sinni

Undirbúningur fyrir Blöndulínu hefur staðið lengi yfir. Niðurstaða umhverfismats sem lauk árið 2013 var sú að best væri að fara með línuna um Vatnsskarð og Efribyggð í Skagafirði og síðan meðfram núverandi línu um Öxnadalsheiði og Öxnadal til Akureyrar. Íbúar á Efribyggð og Vatnsskarði mótmæltu þessum áformum og einnig landeigendur og íbúar við línuleiðina til Akureyrar. Vegna breyttra forsendna í kjölfar dóma um ógildingu eignarnáms og framkvæmdaleyfa og fleiri atriða ákvað Landsnet að vinna nýtt umhverfismat.

Í gærkvöldi var kynntur aðalvalkostur Landsnets í umhverfismatsskýrslu sem afhent verður Skipulagsstofnun í dag til yfirferðar fyrir opinbera kynningu en hann er afrakstur mats á nýjum og eldri valkostum þar sem í öllum tilvikum eru metnir tveir eða fleiri kostir.

Helsta breytingin frá fyrri áformum er að nú er svokölluð Kiðaskarðsleið, niður Mælifellsdal í Skagafirði, austur yfir Eggjar og Héraðsvötn og inn í mynni Norðurárdals, sett sem aðalvalkostur. Það þýðir að ekki verður farið um Vatnsskarð og nyrsta hluta Efribyggðar. Eigi að síður þarf að tryggja tvöfalda tengingu við Varmahlíð og það verður gert með jarðstreng á lægri spennu frá línustæðinu í Mælifellsdal.

Hlín Benediktsdóttir, yfirmaður undirbúnings framkvæmda hjá Landsneti, segir að yfirleitt muni ekki miklu um umhverfisáhrif valkosta. Þó séu heildaráhrif leiðarinnar frá Blöndustöð og að mynni Norðurárdals heldur minni en ef farið yrði um Vatnsskarð og þaðan um Efribyggð eða Héraðsvötn. Gert er ráð fyrir Héraðsvatnaleiðinni í skipulagi Sveitarfélagsins Skagafjarðar með jarðstrengskafla á viðkvæmum stað. Segir Hlín að frá mynni Norðurárdals að Akureyri séu umhverfisáhrif minni, á heildina litið, ef farið er með núverandi línuleið um Öxnadalsheiði og Öxnadal til Akureyrar heldur en ef farið yrði yfir Hörgárdalsheiði og um Hörgárdal. Með tilliti til náttúruvár og öryggis sé leiðin um Kiðaskarð innan ásættanlegra marka en það sama sé ekki hægt að segja um leið yfir Hörgárdalsheiði.

„Um er að ræða örugga og hagkvæma leið sem styrkir þróun atvinnulífs og samfélags á svæðinu,“ segir Hlín um aðalvalkostinn.

Engir jarðstrengskaflar

Í fyrra umhverfismati var gert ráð fyrir að síðasti kaflinn, á milli nýs tengivirkis og tengivirkisins á Rangárvöllum, yrði lagður með jarðstreng með lægri spennu. Forsendur hafa breyst vegna breytingar á kerfinu við Akureyri og er nú áformað að tengja Blöndulínu beint við Rangárvelli þar sem verið er að tengja Hólasandslínu 3. Í umhverfismatinu nú eru skoðaðir nokkir möguleikar á jarðstrengsköflum. Í aðalvalkosti Landsnets er gert ráð fyrir loftlínu alla leiðina, engum jarðstrengjum. Hlín segir afar takmarkað svigrúm til jarðstrengslagna í Blöndulínu 3 og þeir myndu einnig draga úr möguleikum til jarðstrengja í aðliggjandi svæðisbundnum kerfum. Þrátt fyrir að staðbundinn sjónrænn ávinningur geti fengist af því að leggja stutta kafla í jörðu fáist mun meiri umhverfislegur ávinningur af því að nýta svigrúm til jarðstrengslagna í nærliggjandi lágspenntari kerfum svo sem til að setja eldri línur í jörðu, á mun lengri köflum, eða leggja nýjar línur í jörðu. Það sé einnig í samræmi við stefnu stjórnvalda.

Á móti nýrri línu verður Rangárvallalína frá Varmahlíð til Akureyrar rifin. Koma því 342 möstur í stað 672 mastra því nýju möstrin eru stærri og með lengra haf á milli en í núverandi línu.

Skiptar skoðanir

Sérstakt verkefnaráð með fulltrúum hagaðila hefur verið til ráðgjafar við umhverfismatsferlið og fundað hefur verið með landeigendum og íbúum. Hlín segir að í ferlinu hafi borist margar umsagnir og athugasemdir, meðal annars um það hvaða línuleiðir ætti að meta. „Mikil hjálp hefur verið í því og orðið til að bæta matið.“ Umhverfismatið grundvallast síðan á því að bera saman áhrif valkosta með tilliti til umhverfis, samfélags, öryggis reksturs og hagkvæmni.

Framkvæmd undirbúin

Skýrsla um umhverfismatið verður birt þegar Skipulagsstofnun hefur farið yfir hana og þá gefst sex vikna frestur til að gera athugasemdir. Landsnet þarf að svara þeim og síðan hefur Skipulagsstofnun tíma til að gefa álit sitt og með því lýkur umhverfismati. Þá tekur við annar undirbúningur framkvæmda, svo sem samningar við landeigendur. Í áætlunum er gert ráð fyrir því að framkvæmdir við að leggja Blöndulínu 3 hefjist á fyrri hluta næsta árs og að þeim ljúki í lok árs 2024.