Inga Guðlaug Tryggvadóttir fæddist á Mörk á Höfn í Hornafirði 10. mars 1945. Hún lést á dvalarheimilinu Hlíð, Beykihlíð, á Akureyri 6. janúar 2022.

Inga var dóttir hjónanna Tryggva Sigjónssonar skipstjóra, f. 1918, d. 2000, og Herdísar Rögnu Clausen húsfreyju, f. 1924, d. 2007.

Systkini Ingu eru Linda Helena, f. 1947, Ellen Maja, f. 1948, stúlka, f. 1950, lést sama ár, Bjarki Elmar, f. 1951, Herdís Tryggvína, f. 1953, Halldór Ægir, f. 1960, og Tryggvi Ólafur, f. 1965.

Inga giftist hinn 29. desember 1962 Friðfinni Steindóri Pálssyni húsasmiði, f. 1.4. 1942. Foreldrar hans voru Páll Friðfinnsson, f. 1906, d. 2000, og Anna Ólafsdóttir, f. 1912, d.2003. Börn Ingu og Friðfinns eru: 1) Ólafur Tryggvi, f. 1962, í sambúð með Ástu Sólveigu Albertsdóttur, börn þeirra eru Guðrún Ösp, sonur hennar og Jóns Dans Jóhannssonar er Ýmir Andri, Andri Már, kærasta hans er Ylfa Björt Bryndísardóttir. 2) Herdís Anna, f. 1963, eiginmaður Jóhann Oddgeirsson, börn þeirra eru Vala Margrét, gift Ólafi Árna Jónssyni og sonur þeirra er Ásgrímur Jóhann, Eyrún Inga, gift Rob Polon og dóttir þeirra er Helena Vala, Birkir Orri. 3) Erna Rún, f. 1973, eiginmaður Kristinn Hólm Ásmundsson, börn þeirra eru Steinar Freyr, kærasta hans er Elísabet Ásta Guðjónsdóttir, Berglind Birta, Friðfinnur Steindór, kærasta hans er Sandra Björk Kristjánsdóttir, og Heiðrún Anna. Kristinn á soninn Fannar Hólm með Bryndísi Guðmundsdóttur. Fannar á dæturnar Ásu Brynju og Katrínu Rós.

Inga fæddist á Mörk á Höfn í Hornafirði en fluttist tæplega tveggja ára með foreldrum að Ránarslóð 8, þar sem hún ólst upp ásamt systkinum sínum. Inga gekk í grunnskólann á Höfn til 15 ára aldurs en þá flutti hún til Akureyrar og stundaði nám í gagnfræðaskólanum.

Inga vann ýmis störf samhliða því að hugsa um börn og heimilið. Verslunar- og fiskvinnslustörf, en lengst af vann hún í Brauðgerð Kristjáns eða tæp tuttugu ár og í eldhúsinu á Dvalarheimilinu Hlíð þar til hún hætti að vinna.

Ferðalög skipuðu stóran sess í lífi þeirra hjóna bæði innanlands og utan. Þau áttu húsbíl í 36 ár og voru virk í félagsskapnum Flökkurum, félagi húsbílaeiganda.

Inga las alla tíð mjög mikið, fyrir henni var lestur áhugamál, dægrastytting og skemmtun.

Útförin verður gerð frá Akureyrarkirkju í dag, 21. janúar 2022, og hefst athöfnin klukkan 13 og verður streymt á facebooksíðunni Jarðarfarir í Akureyrarkirkju – beinar útsendingar:

Hlekkur á streymi:

https://www.mbl.is/andlat

Í dag kveðjum við elskulega móður og tengdamóður, Ingu Guðlaugu Tryggvadóttur. Eftir standa margar dýrmætar minningar og mikið þakklæti. Elsku mamma er lögð af stað í sitt hinsta ferðalag, hvort sem hún tekur flugið eða siglir. Það var hluti af lífssýn hennar að kynnast nýjum lendum, læra eitthvað nýtt og gera vel það sem hún tók sér fyrir hendur. Mamma var fyrirmynd mín í lífinu, hún kenndi mér margt og hvatti mig áfram að markmiðum mínum. Hún var fyrirmyndarhúsmóðir, gestrisinn fagurkeri sem átti fallegt heimili. Fjölskyldan var mömmu mikils virði og bar hún hag hennar ætíð fyrir brjósti. Hún sýndi okkur áhuga og var ætíð til staðar fyrir okkur. Ég er þakklát fyrir allt sem hún hefur gefið okkur af hlýhug og væntumþykju, fyrir viskuna sem hún miðlaði til okkar og við munum búa að og miðla áfram til afkomendanna og kenndi okkur mikilvægi þess að rækta ættingja og vini. Hún var einstök amma og börnin okkar Vala Margrét, Eyrún Inga og Birkir Orri áttu mjög fallegt og gott samband við ömmu sína, hvert á sinn hátt. Hjá ömmu mátti nánast allt, baka, spila, sauma, smíða, amma hafði nefnilega alltaf nægan tíma fyrir þau. Mamma var hafsjór fróðleiks og var víðlesin, ég gat ætíð leitað til hennar um upplýsingar og góð ráð. Hún var algjör bókaormur, lestur var henni áhugamál, dægrastytting og skemmtun.

Mamma ferðaðist mikið um Ísland og þekkti landið sitt vel. Jafnframt naut hún þess að fljúga á vit ævintýra til framandi landa og hafði heimsótt 42 lönd, sum þeirra mörgum sinnum. Í 36 ár fóru mamma og pabbi um á húsbílunum sínum sem pabbi smíðaði, ferðalög voru þeirra stóra áhugamál alla tíð. Mamma var aðeins 11 ára þegar hún fór í vist, þá gekk hún frá Seyðisfirði yfir Hjálmárdalsheiði í Loðmundarfjörð alein og tók ferðalagið hálfan dag. Hún var fjögur sumur í sveit á Úlfsstöðum í Lommanum eins og hún kallaði Loðmundarfjörð og lofaði vistina mikið. Hún sagði að þarna hefði áhugi hennar á landinu og ferðalögum kviknað.

Mamma var þrautseig og hafði ráð undir rifi hverju í sinni lífsins siglingu þar sem stundum var ágjöf vegna heilsu hennar. Æðruleysi og hugrekki kom henni í gegnum veikindi og var pabbi kletturinn hennar alla tíð. En fyrir mér gat mamma allt nema kannski að læra á tölvu og tæknina. Hún vissi af þessu en lét ekki haggast þótt afkomendurnir vildu tæknivæða hana. Pabbi var hennar tölvutæknir og saman réðu þau fram úr hlutunum, verkstjórinn og viðburðastjórinn. Mamma ætlaði að verða skipstjóri þegar hún yrði stór, eins og pabbi hennar. Nú siglir hún um sem skipstjóri í sínu draumalandi. Umfram allt er ég þakklát fyrir þann tíma sem ég fékk með mömmu, tæp sextíu ár eru forréttindi, saman þroskuðumst við á lífsins leið og lærðum hvor af annarri. Hvíldin sem hún þráði er kærkomin. Ég sé mömmu fyrir mér eiga sína gæðastund í sumarlandinu fagra þar sem hún sötrar sitt kamillute með bók í hendi og á kantinum eru krossgátur og Rommy-súkkulaði.

Elsku pabbi, við verðum ætíð til staðar fyrir þig, með minningar um góða konu í huga okkar.

Herdís Anna og Jóhann.

Elsku amma okkar, amma Inga, er fallin frá. Við munum sakna hennar mikið og vottum okkar ástkæra afa Lilla samúð okkar.

Margar minningar koma upp þegar við hugsum til baka um allar góðu stundirnar sem við áttum saman. Það var alltaf tekið vel á móti okkur í Eikarlundi og var oft venjan að fara beint inn í búr en þar var alltaf eitthvað gott að finna. Amma Inga vann lengi í bakaríi og er sérstaklega minnisstætt þegar hún gaf okkur bleik anísstykki og kleinuhringi sem fengust þar. Einnig gerði hún heimsins besta mjólkurgraut að sögn Birkis Orra. Þegar við systur vorum yngri horfðum við oft á Heilsubælið á spólu í Eikarlundi og höfðum gaman af. Amma safnaði fílum, svo að það var oft reynt að finna slíka á ferðalögum okkar til að gefa henni. Einnig var lengi heljarinnar bar í Eikarlundi þar sem ýmsar flottar vínflöskur var að finna og var mikið leikið þar.

Þá má nefna að hún og afi Lilli höfðu mjög mikla ánægju af því að ferðast um heiminn, hvort sem það var í húsbílnum góða eða á fjarlægar slóðir líkt og til Sýrlands, Kína og Indlands. Við eyddum mörgum stundum í Eikarlundi að skoða stóra heimskortið í eldhúsinu og ræða um ferðalög. Árlega skötuveislan í Eikarlundi var alltaf fastur punktur en við unga fólkið enduðum yfirleitt inni í sjónvarpsherbergi með lokaðar dyr að borða pappaskötu (pítsu). Eftir að við fjölskyldan fluttum suður var alltaf gaman að kíkja í heimsókn þegar við komum norður. Einnig héldum við góðu sambandi í gegnum myndsímtöl þar sem langömmubörnin voru í aðalhlutverki.

Elsku amma, við söknum þín. Við kveðjum þig með þakklæti í hjarta og þökkum þér fyrir öll árin sem við fengum að vera samferða þér.

Þín barnabörn,

Eyrún Inga, Vala Margrét og Birkir Orri Herdísar-

og Jóhannsbörn.

Elsku amma Inga. Við vorum lánsöm að alast upp með þig í næstu götu og að geta hitt ykkur afa nánast daglega. Þegar við komum í Eikarlundinn tókstu á móti okkur með faðmlagi og svo lá leið okkar iðulega beint inn í matarbúr enda alltaf eitthvert góðgæti þar að finna. Að koma í venjulegt kaffi hjá þér minnti frekar á veislu, jafnvel þegar við komum óboðin, t.d. eftir að hafa verið tímunum saman í jólasveinabrekku, þá gastu alltaf töfrað eitthvað fram. Þér fannst alveg sjálfsagt þegar við tókum vinahópinn með, það voru allir velkomnir og alltaf var nóg til. Þú bakaðir meira að segja litlar Grísla-lummur fyrir Grísla-bangsann hennar Heiðrúnar. Ef það var ekki til eitthvað sem okkur langaði í var afi sendur út í búð til þess að kaupa það. Þú elskaðir fátt meira en að hafa fólkið þitt hjá þér og það skein í gegn.

Við minnumst húsbílaferðalaganna, stundanna í hjólhýsinu í Aðaldal, skötuveislanna þar sem fullorðna fólkið fékk skötu en börnin fengu pítsu sem síðar varð þekkt sem „pappaskata“ og að koma í heimsókn yfir hátíðirnar í vel skreytt húsið, þá er minnisstætt þegar þú fannst Steinar undir teppi um áramótin að fela sig fyrir flugeldunum. Allt aðrar reglur og lögmál voru í gildi hjá þér, við máttum t.d. borða mat í stofunni og stundum þegar við vorum svoleiðis búin að röfla í foreldrum okkar um eitthvert tiltekið dót þá hjálpaðir þú okkur að brúa bilið og skilaðir okkur glottandi til baka. Við áttum margar góðar stundir með þér að spila, horfa saman á Bangsímon, Regínu eða Síðasta bæinn í dalnum eða leysa krossgátur. Steinar og Friðfinnur sáu um að slá grasið fyrir þig og eru sammála um að þú sért besti vinnuveitandi sem þeir hafa haft.

Það var aðdáunarvert og gaman að heyra ykkur afa segja sögur, sjá myndir og minjar frá ferðum ykkar um heiminn og ef afi sagði vitlaust frá varstu ekki lengi að leiðrétta hann, þú mundir allt rétt eins og uppáhaldsdýrið þitt fíllinn. Þú áttir mikið af flottu dóti og oft þegar við sögðum að eitthvað væri flott vildir þú endilega gefa okkur það. Þér fannst alltaf fyndið að rifja upp þegar Berglind var yngri og vildi erfa frá þér Aladdínlampa og þú sagðist vera búin að lofa honum öðrum og þá spurði Berglind hvort hún mætti ekki bara eiga allt sem hinir vildu ekki. Nú eða þegar Steinar samdi ungur munnlega um að fá að eiga húsbílinn með því skilyrði að keyra um með ömmu og afa.

Við erum svo þakklát fyrir að hafa átt þig að. Það er ómetanlegt að hafa átt svona góða ömmu. Þú varst alltaf til staðar, spurðir alltaf frétta og varst áhugasöm um allt sem við vorum að gera. Þú studdir við áhugamálin okkar og mættir á viðburði í skólum. Það er sárt að hugsa til þess að fá aldrei að hitta þig aftur, fá knús frá þér, hringja í þig og þú svarir „Inga hér!“ eða heyra í þér stjórnast í afa. Takk fyrir alla viskuna, ástina og hlýjuna sem þú gafst okkur, þú gafst okkur svo mikið sem mun endast okkur út lífið.

Hvíl í friði, elsku amma Inga okkar.

Þín barnabörn,

Steinar Freyr, Berglind Birta, Friðfinnur Steindór og Heiðrún Anna.

Kæra systir og frænka okkar,

Nú er komið að kveðjustund og leiðarlokum og viljum við því kveðja þig með fáeinum orðum.

Inga var okkar elst í 8 systkina hópi, þar sem oft var mikið fjör og læti og við systkinin urðum að líta eftir hvoru öðru og hjálpast að með margt. Mamma var mikið ein, enda pabbi á sjónum og allt unnið frá grunni, matur og flestar flíkur eins og þá tíðkaðist. Þó að samkomulagið væri oftast gott þá gekk á ýmsu og margt brallað og allskonar uppátæki hjá „Höfðagenginu“ en svo kallaðist barnaskarinn í nærliggjandi húsum þar sem voru mjög barnmargar fjölskyldur. Við áttum frekar frjálst og áhyggjulítið uppeldi með mikilli útiveru án áreitis frá símum, tölvum eða sjónvarpi nútímans. En ég byrjaði ekki að kynnast Ingu almennilega fyrr en hún flutti að heiman og varð sjálf móðir og húsmóðir. Þegar ég fermdist kom Inga í heimsókn með Óla Tryggva, þá 4-5 mánaða gamlan. Var þá tekin fyrsta almennilega fjölskyldumyndin með okkur systkinunum og mátti varla á milli sjá hvor væri stoltari, nýbakaða mamman eða mamma okkar með fyrsta barnabarnið. Þegar ég fór í skóla til Reykjavíkur nokkrum árum seinna þá mætti Inga fljótlega með tvær gjafir, væna drykkjarkrús og sparigrís, sem „litla systir“ skyldi nú nota. Hann er enn til en orðinn smá haltur. Smám saman urðu tengslin meiri og þegar ég fór til Danmerkur í 5 ár var hún dugleg að senda mér myndir af börnunum sínum og Friðfinns og skrifa mér bréf. Það er gaman að lesa þessi handskrifuðu bréf í dag og minnast góðra tíma. Þegar komu upp veikindi í minni fjölskyldu vildi hún létta undir og bauð nöfnu sinni Guðlaugu Dröfn í heimsókn smá tíma. Var hún síðan leyst út með gjöfum í stórum stíl og þannig var það einnig ávallt með hin börnin og barnabörnin.

Það er hægt að telja upp svo ótal margt sem Inga systir gerði fyrir mig og mína fjölskyldu. Alltaf hafði hún áhuga á heyra af okkur og gladdist yfir öllu sem að vel gekk. Þegar hún og Friðfinnur fóru að ferðast um á húsbílnum sínum komu þau oft í heimsókn og kom hún ávallt færandi hendi með heimagerðar sultur og ýmislegt fleira, enda einstaklega myndarleg húsmóðir og afar gjafmild. Við Linda systir fórum í heimsókn til þeirra í september fyrir rúmu ári og áttum við með þeim góðar stundir í nokkra daga.

Inga og Friðfinnur voru afar samrýnd hjón sem máttu varla af hvort öðru sjá. Þegar veikindin urðu þyngri gerði hann allt sem í hans valdi stóð til að gera henni lífið sem bærilegast og stóð eins og klettur með henni í gegnum öldurótið.

Hjartans þakkir fyrir allar góðu stundirnar og að hafa verið mér góð systir og góð frænka barnanna minna.

Innilegar samúðarkveðjur til Friðfinns og fjölskyldunnar.

Ellen Maja og fjölskylda.

Elsku Inga, ég var svo lánsöm að eignast ykkur Lilla sem tengdaömmu og -afa þegar ég kynnist Steinari.

Ég vil þakka fyrir góðar stundir og mun ég sakna samveru þinnar. Ég fann alltaf fyrir hlýju, ást og umhyggju í nærveru þinni. Mér er sérstaklega minnisstæð sumarbústaðarferðin á Laugarvatn, jólaboðin og koma ykkar Lilla í útskriftarveisluna mína. Þú og Lilli tókuð alltaf vel á móti okkur Steinari í Eikarlundinum, með opnum örmum, kaffi og öðrum kræsingum. Ástríða ykkar Lilla fyrir því að ferðast, kanna heiminn og læra um nýjar og mismunandi menningarslóðir er nokkuð sem við Steinar höfum tekið okkur til fyrirmyndar. Takk fyrir að deila sögunum með okkur. Sögurnar spanna breitt svið, allt frá ferðalögum ykkar á húsbílnum um Norðurlöndin og til framandi landa eins og Indlandsferðin ykkar með Bændaferðum. Að heyra ferðasögurnar ykkar hefur gefið mér og Steinari innblástur og löngun til að skoða heiminn enn meira.

Elsku amma Inga, takk fyrir allar dýrmætu stundirnar. Hvíldu í friði.

Elísabet Ásta Guðjónsdóttir.