Einar S. Hálfdánarson
Einar S. Hálfdánarson
Eftir Einar S. Hálfdánarson: "Þeir sem bera blak af Rússum þegar kemur að yfirgangi gagnvart Úkraínu hafa kokgleypt sögufalsanir um að Krím sé í rauninni rússneskt land."

Rússland og Kína eru aftur orðnir nánir bandamenn. Kína er eitt öflugasta iðnveldi heimsins og Rússland eitt hið ríkasta að hráefnum. Löndin telja sig vera sem valdaöxul og restin af Evrópu og Asíu eigi að snúast um þau. Bæði eru löndin öflugir framleiðendur sem Vesturlönd reiða sig á. En vei þeim sem gerist háður ríkjum sem fara með vald sitt að þeirra hætti. Bæði ríkin misbeita valdi sínu freklega innan lands sem utan. Þeirra ríkja bíður fall sem ekki gæta og varna sinna, efnahagslegs sjálfstæðis og að styðja við þau ríki og þá einstaklinga sem verða fyrir barðinu á þeim.

Rússland og Úkraína

Hér á Íslandi eru þeir til sem bera blak af Rússum þegar kemur að yfirgangi þeirra gagnvart Úkraínu. Þeir hafa kokgleypt sögufalsanir um að Krím sé í rauninni rússneskt land. Staðreyndin er að ekki fyrr en eftir seinni heimsstyrjöld urðu Rússar þar fjölmennasta þjóðarbrotið og kom ekki til af góðu; þjóðernishreinsunum Stalíns. Valdatími Rússa á Krím nam aðeins rúmri einni og hálfri öld. Sé skaginn rússneskt land mega mörg önnur lönd í Evrópu svo sannarlega vara sig. Og Rússar voru enn smærri hluti íbúa Austur-Úkraínu en á Krímskaganum. Þar til Stalín lét svelta milljónir til bana fyrir minna en einni öld. Og raunar töluðu þá margir íbúa suðvesturhluta Rússlands úkraínsku. Vestur-Úkraínu var aldrei stjórnað af Rússum fyrr en 1939 og slapp því að mestu. Engum einasta manni í breska Íhaldsflokknum dettur í hug að verja framferði Rússa gagnvart Úkraínu. Það sama ætti að eiga við um alla lýðræðisflokka, ekki síst Sjálfstæðisflokkinn.

Talandi um Stalín, þá er aðdáandi Stalíns nú nánast einvaldur Rússlands. Afi Pútíns mun hafa verið kokkur Leníns og Stalíns, lifði báða, og geri aðrir betur. Sterkur grunur leikur á að eitrað hafi verið fyrir báðum. Núna er eitrað fyrir andstæðingum Pútíns heima og erlendis. Eitthvað virðist þekkingin hafa varðveist í ættinni.

Bandaríkin og Evrópa

Afstaða Bandaríkjanna til bandamanna sinna, þ.m.t. í Evrópu, breyttist mikið á þeima tíma sem Trump var forseti. Í hans huga voru engir bandamenn, einungis hagsmunir. Hann sveik bandamenn sína í hendur óvinum þegar ekki voru lengur not fyrir þá. Hversu margir Kúrdar skyldu hafa týnt lífinu af völdum svikanna? – Innlimun Rússlands á hinu forna landi Krím-tataranna varð á tíma Obama. Hann hafði mest litla hugmynd um hvað var á ferðinni utan Bandaríkjanna. Biden var þá varaforseti og það kom í hans hlut að ákveða hvað gera skyldi. Úkraínumenn voru heppnir að þurfa ekki að fást við Trump. Og mér er kunnugt um að af Biden fór gott orð meðal ráðamanna Úkraínu. Hitt er svo annað mál að Biden hefur aldeilis beðið lægri hlut fyrir elli kerlingu.

Svo er komið í Bandaríkjunum að fáir góðir kostir gefast í stjórnmálum. Vinstrisinnaðir demókratar (og þeir eru ráðandi innan flokks) eru helst að huga að því að draga úr löggæslu, passa upp á að hvorki séu sérklósett né búningsklefar fyrir karla og konur og annað í þeim dúr. Við þekkjum þetta lið svo sem hér heima og hvar það hefur hreiðrað um sig. Trump leiðir repúblikana. Hann er ekki vel að sér, illa innréttaður og æstustu fylgismennirnir upp til hópa óalandi og óferjandi. Ummæli Trumps um McCain lýsa sálarástandi hans betur en mörg orð. (Um viðskipavit hans mætti hafa mörg orð, en ekki öll jákvæð; fjarri því.) En vonandi ná repúblikanar með „fulde fem“ sem fyrst aftur vopnum sínum.

Markmið Þýskalands virðast helst vera að ná formlegum yfirráðum yfir nágrannaríkjum sínum með því að gera sambandsríki úr Evrópusambandinu. Raunveruleg völd eru nú þegar á þeirra hendi að miklu leyti. Þeir verja litlum fjármunum til varna, en treysta tengsl sín til þriggja alda (með hléum) við Rússland. Nú er helst að horfa til Bretlands og sumra annarra ríkja í Evrópu til varnar frelsinu. Þar er Þýskaland því miður undanskilið. – Aldrei á ævi okkar sem komin eru til fullorðinsára hefur frelsissýnin verið dekkri en nú.

Höfundur er hæstaréttarlögmaður.

Höf.: Einar S. Hálfdánarson