Færeyska smurbrauðsdaman Marentza Poulsen er orðin 71 árs. Hún elskar lífið, er ennþá að vinna og gera það sem hún hefur ástríðu fyrir. Eins og að borða góðan mat, dansa við Hörð lífsförunaut sinn, klæða sig í falleg föt og njóta þess að draga andann.

Færeyska smurbrauðsdaman Marentza Poulsen er orðin 71 árs. Hún elskar lífið, er ennþá að vinna og gera það sem hún hefur ástríðu fyrir. Eins og að borða góðan mat, dansa við Hörð lífsförunaut sinn, klæða sig í falleg föt og njóta þess að draga andann.

Þetta kemur ekkert á óvart því fyrir um 25 árum þegar ég hnaut um þessa björtu konu þá var hún líka svona – bara um 25 árum yngri. Frú Poulsen var fastagestur í fataverslun sem ég starfaði í og einhvern veginn náði hún alltaf að koma auga á eitthvað fallegt í búðinni og raða því saman á annan hátt en hinir. Ég man hvað hún veitti mér mikinn innblástur.

Þegar við erum lítil getum við ekki beðið eftir að verða fullorðin. Svo verðum við fullorðin og lífsbaráttan tekur við. Fólk eignast afkvæmi og við taka andvökunætur og fjárhagsáhyggjur. Það þarf að borga leigu, húsnæðislán, kaupa mat og svo þarf fólk að eiga fyrir leikskólagjöldum. Svo fara börnin að heiman og við tekur nýtt tímabil þar sem fólk getur kannski loksins um frjálst höfuð strokið og hefur minni skyldum að gegna. Svo verður fólk ennþá frjálsara þegar það hættir að vinna.

Ungt fólk er ekki að hugsa um efri árin því það heldur að það sé eilíft. En um miðjan aldur getur það raknað úr rotinu og fær þá kannski kvíðakast yfir því hvað það er í raun stutt eftir. Það er þá sem það fer að gera allt áður en það deyr; taka þátt í maraþonhlaupum í útlöndum, skrá sig í járnkarl, fara á keramiknámskeið, hjónagolfferðir í útlöndum, alla tónleika sem hægt er að fara á og kaupa sér sportbíl.

Hvað getur fólk gert til þess að eiga sem hamingjuríkasta tilveru á sínum bestu árum? Bráðum 45 ára gömul ég get kannski ekki svarað því. Ég er meira að tengja við sportbílinn. En ef mið er tekið af fólkinu í kringum mig þá virðist það skila mestum árangri að hafa gaman. Gera eitthvað á hverjum degi sem drífur fólk áfram. Hvort sem það er að mæta 206 sinnum í ræktina á ári eða drekka bjór með vinum sínum í gámi á föstudögum.

Ég held að það sé mikilvægt að hver og einn hætti að rembast og sé ekki í samkeppni við náungann. Fjárfesti í því sem gleður en ekki til að sýnast eða þóknast öðrum. Því fyrr sem við hættum að sperra okkur, því innihaldsríkari verður tilveran. Þótt það sé gott að vera búin að læra þetta áður en við förum á eftirlaun væri náttúrlega langbest ef allir lærðu þetta í átta ára bekk, en það er kannski of mikil bjartsýni!