Ægisíða Fyrirætlanir um uppbyggingu á bensínstöðvarreit N1 við Ægisíðu úr fjárfestakynningu Festar, en um hana er ekkert frágengið enn.
Ægisíða Fyrirætlanir um uppbyggingu á bensínstöðvarreit N1 við Ægisíðu úr fjárfestakynningu Festar, en um hana er ekkert frágengið enn.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Andrés Magnússon andres@mbl.is Mikil óánægja er meðal íbúa í nágrenni bensínstöðvarlóðar við Ægisíðu um ráðstöfun borgarinnar á henni. Borgarstjóri er ósammála því að Festi séu þannig færðir milljarðar króna. Heimir Örn Herbertson, einn íbúa í hverfinu, telur upphæðina hins vegar ekki skipta öllu um það.

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Mikil óánægja er meðal íbúa í nágrenni bensínstöðvarlóðar við Ægisíðu um ráðstöfun borgarinnar á henni. Borgarstjóri er ósammála því að Festi séu þannig færðir milljarðar króna. Heimir Örn Herbertson, einn íbúa í hverfinu, telur upphæðina hins vegar ekki skipta öllu um það.

„Burtséð frá því hver verðmætin eru, þá er spurningin af hverju fjárhagsleg gæði eru færð frá Reykjavíkurborg til Festar. Af hverju gefur borgin Festi kost á því að skipuleggja lóð og selja hana?“

Hann gefur lítið fyrir rök um að Reykjavíkurborg bæri mikinn kostnað af því að taka aftur við lóðinni. „Festi er farin að rífa byggingarnar sjálf og hefur fyrir löngu misst áhuga á rekstrinum þarna.“

Fyrir Heimi Erni er málið einfalt: „Festi hefur kynnt áætlanir um stórfenglega uppbyggingu og sýnt teikningar um hvernig nýta megi þetta mikla byggingarmagn, en borgin hefur breytt aðalskipulagi og liðkað fyrir enn meira byggingarmagni á lóðinni og hærri byggingum.“

Kostar að taka við lóðinni

Blaðið spurði Dag B. Eggertsson borgarstjóra hvers vegna samningurinn var gerður í stað þess að bíða. „Vegna þess að það var borginni í hag að gera þennan samning frekar en að bíða,“ segir Dagur. „Lóðaleigusamningar eru mismunandi.“ Hann nefnir uppkaupaákvæði við lok samnings,“ sem hefði getað orðið „um 300-400 milljónir króna miðað við markaðsverð atvinnuhúsnæðis“. Við bætist niðurrif og hreinsun.

Dagur telur 1-2 milljarða króna verðmæti á byggingarréttinum úr lausu lofti gripið. „Ef tveim milljörðum er deilt á 50 íbúðir reiknast verðmæti byggingarréttarins á 40 milljónir á hverja íbúð sem er óbyggð og eftir að greiða gatnagerðargjöld og byggingakostnað. Slík verð hafa hvergi sést á Íslandi og eru víðs fjarri veruleikanum.“ Hann ítrekar að engin staðfest byggingaráform liggi fyrir á lóðinni, en svaraði hvorki spurningum um hvers virði byggingarrétturinn væri þá eða við hvaða byggingarmagn borgin miðaði.

Tveir ma. ekki fráleitt mat

Blaðið leitaði til aðila í fasteignaþróun og byggingariðnaði, sem segja að 1-2 milljarðar króna séu ekki fráleitt mat fyrir 13-15.000 m² á þessum stað.

„Ég myndi borga vel fyrir þessa lóð,“ segir Viggó Einar Hilmarsson, stjórnarformaður MótX, eins umsvifamesta byggingarvertaka landsins. „Fermetraverð í sölu þarna gæti verið á bilinu 800-900 þúsund krónur. Þumalputtareglan er að af heildarbyggingarmagni fáist 80% í sölufermetra, en byggingarkostnaður á svona eign nálægt 550 þúsund á fermetra og þá væri lóðin innifalin,“ segir Viggó. „Mismunurinn á því er ekki undir tveimur milljörðum, svo þessi byggingarréttur er mikils virði,“ en bætir við að byggingarmagnið sé með nokkrum ólíkindum, mitt inni í grónu hverfi.