Hákarl Hreinn Björgvinsson og Björgvin sonur hans landa einum vænum.
Hákarl Hreinn Björgvinsson og Björgvin sonur hans landa einum vænum. — Morgunblaðið/Jón Sigurðarson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is Þorrablótum hefur verið aflýst en fólk hættir ekki að borða þorramat og hákarlinn er eftirsóttur sem fyrr. „Ég er búinn að selja allan hákarl frá mér, síðasti skammturinn fór í Fiskbúðina í Trönuhrauni í Hafnarfirði,“ segir hákarlafangarinn og verkandinn Björgvin A. Hreinsson á Vopnafirði. „Ég veiddi og verkaði 11 hákarla á síðasta ári og það er ágætt, mér nægir að veiða tíu til fimmtán hákarla, en hver gefur um 80 kíló.“

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Þorrablótum hefur verið aflýst en fólk hættir ekki að borða þorramat og hákarlinn er eftirsóttur sem fyrr. „Ég er búinn að selja allan hákarl frá mér, síðasti skammturinn fór í Fiskbúðina í Trönuhrauni í Hafnarfirði,“ segir hákarlafangarinn og verkandinn Björgvin A. Hreinsson á Vopnafirði. „Ég veiddi og verkaði 11 hákarla á síðasta ári og það er ágætt, mér nægir að veiða tíu til fimmtán hákarla, en hver gefur um 80 kíló.“

Hreinn Björgvinsson, faðir Bjögga, stundaði hákarlaveiðar og sonurinn rann snemma á lyktina. „Ég hef verið með puttana í hákarlinum meira og minna alla ævi, fór fyrst með föður mínum á sjó þegar ég var átta ára og tók svo við af honum þegar hann hætti.“ „Varstu ekki bara nokkurra mánaða þegar þú byrjaðir,“ skýtur félagi hans inn í. „Haltu kjafti,“ svarar Bjöggi og heldur áfram þar sem frá var horfið. Hann hafi byrjað á tíu tonna báti og sé nú með sex tonna Sómabát. „Við erum ekki nema einn og hálfan til tvo tíma beint út á miðin. Hákarlinn er rólegheitaskepna og aðeins þegar þessar skepnur vefja línunni utan um sig er þetta svolítið bras en annars eru þær eins og lömb sem leidd eru til slátrunar.“

Bjöggi segir að vinnslan sé hefðbundin. Aflinn sé skorinn og síðan kæstur í 30 til 40 daga áður en hann sé látinn hanga í tvo og hálfan til þrjá mánuði. „Þetta fer mikið eftir veðráttu,“ útskýrir hann og vísar til þess að mikil úrkoma geti farið illa með afurðirnar og jafnvel eyðilagt þær.

Fullsnemmt að hætta

Fyrir tæpum tveimur árum var Bjögga vart hugað líf í kjölfar þess að hann kramdist á milli tveggja skipa eftir að hafa lóðsað flutningaskip frá Vopnafirði 18. mars. „Annar fóturinn klipptist nær af mér og ég var fluttur í land nær dauða en lífi en fætinum og lífi mínu var bjargað,“ rifjar hann upp. „Eftir það fór allt á hliðina hjá mér og ég er svolítið að brasa við þetta ennþá en gefst ekki upp. Ég er nagli.“

Vegna slyssins var Bjöggi óvinnufær í eitt ár en Guðmundur Rúnar Antonsson hjálpaði honum við veiðarnar og vinnsluna í fyrra og Sigurbjörn, sonur Bjögga, var líka með honum á strandveiðunum. „Þeir og Þorsteinn B. ásamt föður mínum hafa verið helstu hjálparhellur mínar og hafnarverðirnir Lárus og Kristinn hafa ekki heldur látið sitt eftir liggja.“

Þeir veiddu hákarlana í mars og apríl, síðan var farið á grásleppu og eftir að hafa verið á strandveiðum fékk Björgvin mikla sýkingu í fótinn, var fjóra sólarhringa á gjörgæslu og tvær vikur á lyflækningadeild.

„Aftur var ég nær dauða en lífi, var rannsakaður í bak og fyrir og þá fundu þeir í mér krabbamein. Ég er því svolítið að brasa í því núna, en þetta hefst allt með góðra manna hjálp. Þetta er hundvont og sárt, en ég er bara 57 ára gamall og mér finnst fullsnemmt að leggja árar í bát.“

Bjöggi segir að almennt sé frekar rólegt hjá þeim á veturna. „Ég hef verið í læknastússi í vetur en svo er ég að dunda við að yfirfara hákarlalínurnar og grásleppunetin og gera okkur klára til að fara á næstu vertíð, dytta að því sem þarf að dytta að. Vonandi getum við byrjað að leggja hákarlalínurnar um mánaðamótin febrúar og mars en það fer eftir tíðinni.“