Inga Lára Baldvinsdóttir
Inga Lára Baldvinsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Ingu Láru Baldvinsdóttur: "Þessi Reykjavíkurmynd Rousseaus er jafnframt þriðja þekkta ljósmyndin ekki aðeins frá Reykjavík heldur líka frá Íslandi. Það eitt gefur henni sögulegt gildi."

Ljósmynd sem sýnir norðurenda Tjarnarinnar í Reykjavík á 19. öld vekur ein og sér ekki sérstaka athygli enda felst ekki mikið nýmæli í sjónarhorninu. Í því er fólgin sígild sýn erlendra myndlistarmanna á Reykjavík á þeirri öld. Staðarvalið helgaðist af því að þaðan blöstu við helstu kennileiti bæjarins; hús stiftamtmannsins, Dómkirkjan, myllan og Latínuskólinn auk sjálfrar Tjarnarinnar. Brekkan ofan við Tjörnina lyfti ljósmyndaranum yfir byggðina og veitti þá yfirsýn sem gaf bestu sýnina á bæinn.

Fyrstu ljósmyndararnir sem mynduðu í Reykjavík leituðu í sama sjónarhorn. Houze d'Aulnoit sem myndaði í leiðangri Frakka sumarið 1858 var einn þeirra. Annar var John E. Tennison Woods sem ferðaðist með Taliaferro Preston Shaffner í leiðangri til að kanna lagningu sæstrengs til Ameríku sumarið 1860. Frá árinu 1867 og fram á fyrsta áratug 20. aldar varð norðurendi Tjarnarinnar endurtekið myndefni Sigfúsar Eymundssonar og Daníels Daníelssonar starfsmanns hans. Eftir þá eru til hátt á annan tug mynda teknar frá þessu sjónarhorni í Ljósmyndasafni Íslands í Þjóðminjasafni.

Ein mynd til viðbótar við allar hinar ætti því kannski ekki að vekja sérstaka eftirtekt. Þegar opnaður var nýr vefur með hluta af ljósmyndasafni dönsku konungsfjölskyldunnar (Den Kongelige Fotografisamling) í árslok 2021 birtist þar áður óþekkt mynd með þetta sjónarhorn. Fyrsta sýn benti til þess að hún væri mjög gömul. Í skráningu sem fylgir myndinni er hún sögð tekin af Sigfúsi Eymundssyni og tímasett til áratugarins 1860-1870. Myndin er skáskorin á öllum hornum. Á spjaldinu undir henni miðri er skrifað Reykiawik. Í skáanum til vinstri er merking líklega með eigin hendi ljósmyndarans. Þar stendur L. Rousseau. Merkingin setur myndina í nýtt samhengi.

Louis Rousseau var ljósmyndari í leiðangri Napóleons prins um Norðurlönd sumarið 1856. Æsa Sigurjónsdóttir listfræðingur hefur fjallað um myndatökur hans tengdar Íslandi í rannsóknum sínum. Í leiðangri Napóleons tók Rousseau áttatíu og tvær ljósmyndir og var um helmingur þeirra tekinn á Íslandi. Stór hluti þeirra mynda var af fólki og þær teknar sem hluti af mannfræðirannsóknum. Aðeins ein mynd af Íslandsmyndum Rousseaus hefur enn komið fram í Frakklandi. Hún sýnir unga ónafngreinda stúlku og er talin hluti af rannsóknargögnum mannfræðinganna í leiðangrinum.

Myndin í safni dönsku konungsfjölskyldunnar er því aðeins önnur myndin af um fjörutíu eftir Rousseau sem kemur í leitirnar. Auk mannamynda var Reykjavík helsta viðfangsefni Rousseaus í Íslandsdvölinni. Þótt félagar hans í leiðangrinum ferðuðust austur að Þingvöllum og Geysi fylgdi hann þeim ekki í þá för nema upp að Elliðaám, en var þá sendur til baka af ótta við að ljósmyndatækin þyldu ekki ferðalagið.

Þessi Reykjavíkurmynd Rousseaus er jafnframt þriðja þekkta ljósmyndin ekki aðeins frá Reykjavík heldur líka frá Íslandi. Það eitt gefur henni sögulegt gildi.

Langt er síðan ljóst varð að nýrra ljósmynda frá Íslandi á 19. öld væri helst að vænta í erlendum söfnum. Þessi mynd Louis Rousseaus er dæmi þess og gerð grein fyrir henni hér til að halda því til haga.

Höfundur er sagnfræðingur.