Guðríður Eygló Þórðardóttir fæddist í Hamrahól í Ásahreppi 12. júlí 1943. Hún lést á Landakotsspítala 13. janúar 2022.

Foreldrar hennar voru Salóme Petrea Kristjánsdóttir, f. 1922, d. 2007, og Þórður Tómasson, f. 1914, d. 2001.

Systkini Guðríðar eru Sigríður, f. 1944, og Tómas Kristinn, f. 1945, d. 2020.

Árið 1965 giftist Guðríður eftirlifandi eiginmanni sínum, Guðmundi Brynjari Guðnasyni, f. 1942. Börn þeirra eru: 1) Anna Lilja, f. 1965, gift Guðmundi Jakobssyni og eiga þau tvö börn og eitt barnabarn. 2) Guðni Þór, f. 1966, sambýliskona hans er Anna Berglind Indriðadóttir og eiga þau fjögur börn og eitt barnabarn.

Útför Guðríðar fer fram frá Fossvogskapellu í dag, 21. janúar 2022, klukkan 10, að viðstöddum nánustu aðstandendum. Hlekkur á streymi:

https://www.mbl.is/andat

Elsku amma Gurrý, nú hefur þú fengið hvíldina sem þú beiðst eftir síðast þegar við hittum þig. Minningar okkar um þig eru okkur ofarlega í huga þessa dagana.

Þegar við minnumst þín standa klárlega bústaðarferðirnar til þín og afa upp úr. Við sögðum aldrei nei við því þegar við vorum spurð hvort við ætluðum að fara með í morgunkaffi í bústaðinn þegar við vorum yngri. Það var alltaf til nammi og kex í skúffunum, sem við höfum sennilega borðað óhóflega mikið af í gegnum tíðina, og eplasvali frammi í búri.

Það var fastur liður hjá ykkur afa að koma á laugardagsmorgnum til okkar þegar þið voruð í bústaðnum. Ykkar mikilvægasta erindi var að koma með laugardagsnammi handa okkur til þess eins að gleðja okkar litlu hjörtu.

Þegar Theodóra og Eygló voru yngri vorum við oft í bústaðnum hjá ömmu og afa og á sumrin og var Sandra oft með okkur. Við máttum gera allt sem okkur sýndist á meðan við vorum þar. Við lékum okkur úti í garði með plastarmbönd sem við skiptumst á að fela og leita síðan að. Oftar en ekki var amma komin út á verönd með smá nammi handa okkur svo að við þyrftum nú ekki að koma inn til þess að ná okkur í nammi.

Ömmu fannst mikilvægt að fara með okkur í strætó og var það hún sem fór með okkur öll í okkar fyrstu strætóferð. Henni fannst að þessi sveitabörn yrðu nú að prufa að fara í strætó og var þetta mikil upplifun fyrir okkur öll.

Þegar maður kom í heimsókn til ömmu og afa þeysti amma um að finna eitthvað til þess að bjóða manni upp á. Í bústaðnum bakaði hún oft örbylgjuköku og vöfflur sem við tróðum í okkur. Stundum þegar við vorum yngri fengum við að gista í bústaðnum. Það þótti okkur algjör draumur og það klikkaði ekki að þá fengum við Cocoa Puffs í morgunmat.

Ömmu þótti afskaplega gaman þegar við komum ríðandi í bústaðinn, með hrossin okkar og skildum þau eftir þar. Hún hafði gaman af því að fylgjast með þeim og ekki síst okkur á baki. Henni þótti afskaplega vænt um hann Prins sinn sem hún komst nokkrum sinnum á bak á og var svo ánægð með hann. Nú hafið þið Prins sennilega hist á nýjan leik og farið í útreiðatúr saman.

Þú varst alltaf stolt af því hvað okkur gengi vel í lífinu og gaf það þér mikið að fylgjast með okkur og fá fréttir af því sem við vorum að fást við. Nú síðast þegar þú fékkst að sjá nýjasta langömmubarnið þitt, það gladdi þig mikið.

Takk fyrir allt elsku amma!

Ömmubörnin þín í Þúfu,

Theodóra Jóna, Eygló Arna, Guðmundur Brynjar

og Steinunn Lilja.