Bólusetning Austurríska þingið hefur samþykkt bólusetningarskyldu.
Bólusetning Austurríska þingið hefur samþykkt bólusetningarskyldu. — AFP
Austurríska þingið samþykkti í gærkvöldi að skylda austurríska ríkisborgara til þess að bólusetja sig gegn kórónuveirunni. Er Austurríki fyrsta ríki Evrópu til þess að grípa til þessara ráða í heimsfaraldrinum.

Austurríska þingið samþykkti í gærkvöldi að skylda austurríska ríkisborgara til þess að bólusetja sig gegn kórónuveirunni. Er Austurríki fyrsta ríki Evrópu til þess að grípa til þessara ráða í heimsfaraldrinum.

Frumvarpið naut stuðnings allra flokka á þingi nema Frelsisflokksins, sem er yst til hægri í austurrískum stjórnmálum.

72% allra Austurríkismanna eru nú fullbólusett, og er það svipað hlutfall og meðaltal Evrópusambandsríkjanna, en ögn lægra en í Ítalíu og Frakklandi.

Samkvæmt frumvarpinu verður heimilt að sekta þá, sem neita að láta bólusetja sig, um allt að 3.600 evrur, eða sem nemur um 520.000 íslenskum krónum, en byrjað verður að sekta fólk um miðjan mars.

Bólusetningarskyldan nær til allra fullorðinna Austurríkismanna, að frátöldum óléttum konum og þeim sem hafa læknisvottorð upp á að geta ekki þegið bóluefnið.

Karl Nehammer, kanslari Austurríkis, sagði fyrir umræðu þingsins að bólusetning væri tækifæri fyrir samfélagið til þess að ná varanlegu frelsi á ný, þar sem veiran gæti ekki heft fólk lengur. Nehammer viðurkenndi þó að málið hefði vakið upp mikla umræðu og heitar tilfinningar, en fjölmenn mótmæli hafa verið haldin gegn frumvarpinu frá því það var tilkynnt í nóvember síðastliðnum.

Ríkisstjórnin hyggst efna til happdrættis fyrir alla sem eru bólusettir til þess að hvetja fólk til að láta bólusetja sig. Munu bólusettir Austurríkismenn geta unnið inneign upp á 500 evrur, eða um 72.000 krónur, til að nota í verslunum, hótelum eða á viðburðum.