Reyndastur Arnar Freyr Arnarsson var reyndasti leikmaður Íslands í gærkvöld, lék sinn 67. landsleik, og reynir hér að komast í skotfæri gegn Dönunum.
Reyndastur Arnar Freyr Arnarsson var reyndasti leikmaður Íslands í gærkvöld, lék sinn 67. landsleik, og reynir hér að komast í skotfæri gegn Dönunum. — Ljósmynd/Szilvia Micheller
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Búdapest Kristján Jónsson kris@mbl.is Einhvern tíma hefðu það þótt sérstök tíðindi að Ísland mætti einungis með fjórtán leikmenn í leik gegn Dönum í milliriðli á stórmóti þegar heimilt er að tefla fram sextán. Það gerðist á EM í Búdapest í gær.

Í Búdapest

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Einhvern tíma hefðu það þótt sérstök tíðindi að Ísland mætti einungis með fjórtán leikmenn í leik gegn Dönum í milliriðli á stórmóti þegar heimilt er að tefla fram sextán. Það gerðist á EM í Búdapest í gær. Þótt íslensku landsliðsmennirnir séu margir hverjir eldsnöggir þá tókst kórónuveirunni skæðu engu að síður að ná í skottið á þeim.

Ekki þarf endilega að eyða miklu plássi hér til að útskýra fréttir gærdagsins og miðvikudagskvöldsins en uppstilling íslenska liðsins gerbreyttist vegna forfalla. Á innan við sólarhring var tilkynnt um sex smit í íslenska landsliðinu. Og það var ekki eins og þar væru Pétur og Páll á ferðinni heldur Aron fyrirliði og Björgvin Páll. Markaskorarinn Bjarki Már, Gísli Þorgeir sem leikið hefur við hvern sinn fingur á mótinu og varnarjaxlinn Elvar Örn. Sá sjötti var Ólafur Guðmunds og þá má segja að fjórir reyndustu menn landsliðsins hafi allir farið í einangrun á einu bretti. Menn hafa kveinkað sér af minna tilefni en þessu í íþróttasögunni.

Hristu Ísland aldrei af sér

Mikill sómi var að framgöngu Íslendinga í leiknum í ljósi stöðunnar og hversu lítinn tíma menn höfðu til að bregðast við. Danmörk sigraði 28:24 og náði í bæði stigin en náði aldrei að hrista íslenska liðið af sér. Eru Danir þó heimsmeistarar í íþróttinni, glíma við fá forföll og fengu tveggja daga hvíld á milli leikja. Danmörk var yfir 17:14 og íslensku leikmennirnir voru skynsamir í sókninni. Náðu að skapa sér góð færi og það var frekar við vörnina að sakast að Danir voru þremur mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik. Mörk Dana komu langflest úr dauðafærum sem erfitt er að krefja markverðina um að verja.

Fyrsti landsleikur Elvars

Orri Freyr Þorkelsson kom inn á í fyrsta skipti á stórmóti og lék allan tímann í vinstra horninu en hafði verið á skýrslu í fyrstu þremur leikjum. Ágúst Elí Björgvinsson kom við sögu í fyrsta skipti á mótinu og hans fyrsta augnablik á EM var að verja víti frá sjálfum Mikkel Hansen, einum vinsælasta íþróttamanni Dana. Það gerði hann tvívegis í leiknum. Elvar Ásgeirsson lék sinn fyrsta landsleik yfir höfuð þegar hann byrjaði í vinstri skyttunni. Sæmileg eldskírn að frumraunin sé gegn heimsmeisturum í milliriðli. Elvar var seigur strax frá upphafi og hafi hann verið stressaður þá var það ekki áberandi. Janus Daði Smárason var ferskur eftir að hafa leikið fremur lítið á EM og spilaði mjög vel í gær, sérstaklega í fyrri hálfleik.

Fleiri leikmenn stimpluðu sig inn á mótið. Mikill kraftur var í Teiti Erni Einarssyni og skoraði hann tvö mörk úr hraðaupphlaupum á lokakaflanum. Hann getur hvílt Sigvalda meira en gert hefur verið en Sigvaldi sýndi þreytumerki í dauðafærunum í leiknum. Daníel Þór Ingason er nautsterkur og stendur vörnina prýðilega en átti erfiðara með að ógna að ráði í sókninni.

Jacobsen flottur

Nikolaj Jacobsen, landsliðsþjálfari heimsmeistaranna og heimsklassahornamaður á árum áður, kom drengilega fram á blaðamannafundi þegar niðurstaðan lá fyrir. „Enginn vill vinna á þennan hátt. Íslenska liðið lék mjög skemmtilegan handbolta í riðlakeppninni en nú vantaði marga leikmenn hjá þeim vegna veirunnar. Ég óska íslenska liðinu velgengni og vonast til þess að þeirra menn sem eru smitaðir geti snúið aftur í keppninni,“ sagði Jacobsen.

Gangur leiksins í gær sýnir að breiddin er til staðar í íslenska landsliðinu og margir eru tilbúnir til að leggja sín lóð á vogarskálarnar. Leikur liðsins verður auðvitað ekki sá sami þegar lykilmenn vantar en ekki er öll nótt úti á EM. Sérstaklega vegna þess að Ísland tók með sér tvö stig í milliriðilinn. Tap gegn Dönum er ekki gjaldþrot því þeir eiga að teljast betri.

DANMÖRK – ÍSLAND 28:24

MVM Dome, Búdapest, milliriðill EM, fimmtudag 20. janúar 2022.

Gangur leiksins : 2:4, 4:6, 7:6, 9:10, 12:12, 15:12, 17:14 , 19:18, 23:19, 24:22, 27:22, 27:24, 28:24.

Mörk Danmerkur : Mathias Gidsel 9, Mikkel Hansen 5/4, Lasse Svan 5, Emil Jakobsen 4/2, Magnus Saugstrup 3, Magnus Landin Jacobsen 1, Rasmus Lauge 1.

Varin skot : Kevin Möller 14/2, Niklas Landin 2.

Utan vallar : 6 mínútur.

Mörk Íslands : Ómar Ingi Magnússon 8/1, Janus Daði Smárason 4, Elvar Ásgeirsson 3, Arnar Freyr Arnarsson 2, Teitur Örn Einarsson 2, Orri Freyr Þorkelsson 2, Sigvaldi Björn Guðjónsson 1, Daníel Þór Ingason 1, Elliði Snær Viðarsson 1.

Varin skot : Ágúst Elí Björgvinsson 3/2, Viktor Gísli Hallgrímsson 2.

Utan vallar: 12 mínútur.

Dómarar: Mirza Kurtagic og Mattias Wetterwik, Svíþjóð.

Áhorfendur : 5.060.

Fórum fullir sjálfstrausts í leikinn

• Ætluðum að koma Dönum á óvart og gerðum það Kristján Jónsson í Búdapest

kris@mbl.is

Ómar Ingi Magnússon sýndi á löngum köflum frábæra frammistöðu gegn heimsmeisturunum frá Danmörku á EM í handknattleik í Búdapest í gærkvöld.

Ómar var markahæstur með 8 mörk og lék samherja sína oft uppi eins og hans er háttur. Danmörk sigraði 28:24 en þrátt fyrir öll áföllin vegna kórónuveirunnar náðu Danirnir aldrei að stinga af.

„Við fórum fullir sjálfstrausts inn í leikinn. Þótt okkur vantaði góða leikmenn þá ætluðum við að vinna. Við ætluðum að koma þeim á óvart og náðum að gera það að einhverju leyti. Við spiluðum fínan leik þótt aðeins hafi vantað upp á. Þetta var fínt,“ sagði Ómar í samtali við Morgunblaðið en íslenski hópurinn hafði mjög lítinn tíma til að bregðast við öllum þessum breytingum en alls vantaði sex leikmenn eins og fram hefur komið.

„Það er ekkert leyndarmál að þetta var erfið staða en við gíruðum okkur í leikinn þótt aðstæðurnar væru erfiðar. Við vorum ekki með neinar afsakanir og við reyndum virkilega að vinna.

Ég á eftir að sjá leikinn betur en menn börðust og lögðu sig fram. Það var flott en við þurfum líka að læra af þessu því við gerðum ákveðin mistök. Við þurfum kannski að laga þau fyrir næsta leik og þá eigum við séns,“ sagði Ómar Ingi sem er nú markahæsti leikmaður íslenska liðsins með 23 mörk í fjórum leikjum.

Púlsinn var hærri en vanalega

• Fyrsti landsleikur Elvars var gegn heimsmeisturunum Kristján Jónsson í Búdapest

kris@mbl.is

Elvar Ásgeirsson var í þeirri athyglisverðu stöðu að leika í fyrsta skipti A-landsleik fyrir Íslands hönd í gærkvöld gegn Dönum.

Elvar kom inn í liðið og fór beint í byrjunarliðið vegna þeirra skakkafalla sem liðið varð fyrir. Það er vægast sagt óvenjulegt að spila á móti heimsmeisturum í milliriðli á stórmóti í sínum fyrsta landsleik.

„Þetta var góður leikur til að byrja á ef svo má segja. Þetta er eins stórt og það verður. Þar er komin talan 1 fyrir aftan nafnið mitt,“ sagði Mosfellingurinn þegar Morgunblaðið tók hann tali er hann gekk af leikvelli í MVM Dome. Elvar byrjaði vel og virtist furðurólegur. Fyrsta landsliðsmarkið kom á 6. mínútu en hjartað hlýtur að hafa hamast í brjóstinu?

„Það var aðallega í dag þegar málin fóru að skýrast betur og útilínan okkar að hrynja vegna veikinda. Þá fór ég að sjá fyrir mér að þetta þýddi hellings spiltíma fyrir mig. Þá gerði bæði stress og tilhlökkun vart við sig. Þegar fór að líða nær leik þá einhvern veginn minnkaði það og það hvarf þegar við komum inn í höllina. Púlsinn var eflaust aðeins hærri en vanalega en ekki upp úr öllu valdi,“ sagði Elvar en hann hefur spilað í efstu deild bæði í Þýskalandi og Frakklandi. Hann er því ekki nýgræðingur í alvöruhandbolta.

„Það hjálpaði örugglega en var ekkert í samanburði við þetta,“ sagði Elvar Ásgeirsson við Morgunblaðið.