Svavar Halldór Björnsson fæddist í Geitavík á Borgarfirði eystra 25. apríl 1947. Hann lést á gjörgæslunni í Fossvogi 9. janúar 2022. Foreldrar hans voru Björn Jónsson, f. 6. júlí 1916, d. 30. desember 2010 og Þorbjörg Jónsdóttir, f. 8. júlí 1923, d. 21. ágúst 2006. Systkini Svavars eru Jón Björnsson, f. 2. júlí 1945, Drengur Björnsson, f. 22. ágúst 1948, d. 10. maí 1950, Guðrún Björnsdóttir, f. 30. ágúst 1949, Birgir Björnsson, f. 7. júní 1952, Axel Andrés, f. 24. mars 1956, Þorbjörn Bjartmar, f. 8. október 1959, Geirlaug G., f. 19. desember 1960 og Ásdís, f. 27. júní 1964.

Eiginkona Svavars er Líneik Haraldsdóttir, f. 7. mars 1957. Þau byrjuðu búskap á Borgarfirði eystra 1977 en hafa búið í Neskaupstað frá árinu 1981.

Dætur Svavars og Líneikar eru Heiða Berglind, sjúkraliði og hjúkrunarfræðinemi, f. 16. ágúst 1978, maki Jón Hilmar tónlistarmaður, f. 16. febrúar 1976, börn þeirra eru Anton Bragi, f. 1996, Amelía Rún, f. 2000, sambýlismaður Sigtryggur Tristan, f. 1997, sonur þeirra Erpur Aron, f. 2021, Matthildur Eik, f. 2005, kærasti Mateusz, f. 2004.

Ásdís Fjóla, heilsunuddari og tanntæknir, f. 22. febrúar 1983, maki Vilberg Hafsteinn hárskeri, f. 10. desember 1980, börn þeirra eru Svavar Krummi, f. 2014, Jón Rökkvi, f. 2017 og Kolfinna Líneik, f. 2021.

Dóttir Svavars frá fyrra hjónabandi er Katrín Björk, f. 29. júlí 1972, maki Manuel Garcia Roman, f. 1970. Börn þeirra eru Daniel Nói, f. 1998, Viktor Máni, f. 2000, og Manuela Sirrý, f. 2005. Sonur af fyrra hjónabandi er Martin Sindri Rosenthal, f. 1991.

Útförin fer fram frá Norðfjarðarkirkju í dag, 21. janúar 2022, klukkan 13.

Hlekkur á streymi:

https://www.mbl.is/andlat

Það er komið að kveðjustund elsku pabbi. Mér finnst svo sárt að hugsa til þess að þú sért farinn frá okkur en um leið er ég svo þakklát fyrir allar stundirnar, minningarnar og okkar góða og fallega samband sem fólst í daglegum samskiptum ýmist með nærveru, spjalli og kaffibolla eða símtali þegar við vorum ekki á sama stað, landi eða landshluta. Að finna fyrir væntumþykju alla daga og hversu stoltur þú varst af þínum nánustu og sýndir áhuga á því sem við vorum að gera. Það var sama hvort um var að ræða í námi, leik eða starfi alltaf sýndir þú því áhuga sem við vorum að gera. Að mæta í íþróttahúsið, á fótboltavöllinn eða skíðasvæðið þegar krakkarnir voru að keppa í sínum íþróttum og hringja þegar þú hafðir ekki tök á að mæta og taka stöðuna.

Að bjóða í próflokamáltíð sem var aldrei af verri endanum, lambalæri með öllu tilheyrandi. Svo mikið stúss á þér þegar „litla“ stelpan þín var búin í prófum þó ég væri komin yfir fertugt.

Það var svo yndislegt að sjá og finna hversu spenntur þú varst fyrir því að verða langafi.

Það var svo gaman og fallegt að sjá hversu mikla ánægju Erpur Aron langafastrákur veitti þér og þú naust þess að fá að fylgjast með honum þroskast og dafna. Ég tala ekki um hvað þú varst spenntur að hann færi að labba sem hann náði nokkrum dögum áður en þú lést.

Þú naust þess að vera úti í náttúrunni ýmist við skotveiðar, kasta fyrir silung eða fara í berjamó á fallegum haustdögum.

Það verða viðbrigði að fá þig ekki í kaffi á morgnanna, seinnipartinn og stundum á kvöldin. Að þú bíðir ekki inn við göng þegar ég kem á hjólinu til að athuga hvað ég ætli að hjóla langt eða bara að spjalla um allt eða ekkert. Að bíða eftir mér fyrir utan heima þegar ég kem úr vinnu svo við getum tekið einn bolla. Að fá ekki símtal þegar við erum ekki á sama stað eða mynd af skallanum á þér á snappinu sem þú sendir án þess að vita af því og hlæja að því saman. Þú varst ekki maður margra orða enda þarf ekki alltaf að segja eitthvað heldur var það hlýjan og væntumþykjan sem ég fann svo vel fyrir frá þér. Þú leitaðir mikið til mín ef þú varst slappur eða þurftir ráð við einhverju sem ég gat ekki alltaf gefið en reyndi ég þá eftir bestu getu að leita mér upplýsinga til að geta miðlað áfram til þín. Eins fór ég oftast eftir þínum ráðum þegar ég þurfti að fara eitthvað því þú varst alltaf með veður og færð á hreinu og hvenær best væri fyrir mig að fara af stað háð veðri og færð. Þú fylgdist svo grannt með hvernig ferðalagið gengi og hringdir reglulega á meðan ég fór á milli staða. Snapchat var hans helsti samfélagsmiðill og deildi hann staðsetningu sinni og fylgdist með ferðum okkar á snap map. Eins og það er gott að elska og njóta með sínum nánustu þá er svo sárt að sakna og þurfa að kveðja þá sem manni þykir vænt um. Ég mun alltaf elska þig elsku besti pabbi minn og hugsa til þín með hlýju, ást og kærleika sem þú varst ekki spar á að umvefja okkur.

Takk fyrir allt elsku pabbi.

Þín

Heiða.

Þegar ég minnist Svavars bróður er sterk minning tengd systkinahópnum sem fæddur var fyrir og um miðja síðustu öld og þjóðfélagið að breytast ört. Við bjuggum þröngt í Gamla bænum í Geitavík sem hitaður var upp með kolum og lýstur upp með olíu. Við vorum bændur og lifðum á því sem landið gaf, veiddum fisk og fugl höfðum kýr, kindur og hænur. Alltaf nóg að borða. Allt unnið heima, engin tól og tæki sem léttu verkin utan örfárra handverkfæra.

Ég sé okkur börnin hlaupandi um túnið skoppandi gjörðum, hoppandi á blöðrum, rennandi á sleðum og skíðum í „Gelinu“. Svavar útbjó sér stökkpall og iðkaði skíðastökk eins og norskur skíðakappi. Við lékum með horn og bein, veiddum lækjarlontur og lékum í fjörunni. Svavar gerðist mikill fjörulalli, hann fór snemma að veiða rauðmaga og silung. Var það mikil búbót fyrir heimilið, man ég eftir honum koma með 20-30 rauðmaga sem hann þræddi upp á stöngina og lagði yfir herðarnar á heimleið. Svavar var orkumikill krakki, hann hljóp alltaf þegar hann langaði að fara af bæ. Það sást stundum undir iljarnar á honum hlaupa af stað er átti að fara að gera eitthvað því hann forðaðist rollustand og heyskap.

Við fluttum í nýja húsið 1956, þá var farið að fjölga á bæjunum og meira fjör í leikjunum á Tungunni, slagbolti, fótbolti o.fl. Svavar hafði áhuga á íþróttum enda voru þær mikið stundaðar á Borgarfirði, hann var í fótbolta í marki og sögðust menn vera hræddir að skjóta á markið þegar Svavar væri þar því hann henti sér á boltann svo menn voru hræddir um að sparka í hausinn á honum. Hann æfði líka frjálsar íþróttir og keppti á mótum. Hann eignaðist bók með æfingakerfi sem kennt var við Charles Atlas, mikinn vaxtaræktarfrömuð. Hann æfði af kappi enda kappsamur við allt sem hann hafði áhuga á.

Alltaf var veiðiskapurinn efst í huga hans, fékk hann að fara með byssu þegar pabbi treysti honum til þess fljótlega eftir fermingu. Hann var ekki mjög gamall þegar hann fékk leyfi til að liggja fyrir tófu uppi í fjalli, dró hann þangað kálfshræ til að leggja fyrir tófuna. Fór síðan um kvöldið og ætlaði að liggja úti um nóttina, hún reyndist lengri en hann hafði vonað og engin tófa, hvammurinn er síðan kallaður Kálfsbotn. Margar tófur hefur hann veitt síðan og unnið mörg greni. Hann veiddi allt sem veiða mátti eftir að hann fullorðnaðist og hafa verið kræsingar eins og rjúpur og hreindýr á borðum hans nánustu sem og hjá landanum á hátíðum. Hann var sagður hafa einstaka næmni gagnvart dýrum og umhverfinu þegar hann var á veiðum. Svavar byrjaði ungur að fara á sjóinn með Fúsa sem skólaði hann til sjómennsku sem hann stundaði lengi fram eftir ásamt annarri vinnu.

Hans tómstundir voru veiðiskapur, taflmennska og bridds en það spilaði hann mikið hin seinni ár með félögum sínum á Norðfirði þar sem hann bjó ásamt konu sinni Líneik og börnum. Ég kveð Svavar bróður minn með söknuði og þakka samfylgdina. Ég veit að það verður vel tekið á móti honum af pabba, mömmu og Litla, bróður okkar. Hvíl í friði, bróðir minn.

Guðrún.