Guðný Kristjánsdóttir fæddist í Reykjavík 12. ágúst 1949. Hún lést á Landspítalanum við Hringbraut 24. desember 2021.

Foreldrar hennar voru Kristján Pálsson húsasmíðameistari, f. 4.12. 1929, d. 4.2. 1965, og Helga Sæmundsdóttir fóstra og húsmóðir, f. 5.10. 1929, d. 2.9. 1991. Foreldrar Kristjáns voru Ósk Guðmundsdóttir vinnukona og Páll Þorgilsson sjómaður og foreldrar Helgu voru Guðný Jónsdóttir framkvæmdastjóri og Sæmundur Pálsson kaupmaður.

Systkini Guðnýjar eru Páll, f. 1951, listamaður í Álafossi, Mosfellsbæ, á fjögur börn; Kristjana, MA í samskiptum og verkefnastjóri, búsett í Kaupmannahöfn, á tvö börn; Bjarni Þór, f. 1954, kennari og listamaður í Reykjavík, kvæntur Edeltrude Mantel og eiga þau fjögur börn; Gunnar, f. 1958, vélstjóri í Reykjavík, sambýliskona Svava Þóra Þórðardóttir hjúkrunarfræðingur, hann á fjögur börn af fyrra hjónabandi; Anna Katrín, f. 1963, búsett í Reykjavík, barnlaus.

Eiginmaður Guðnýjar var Alfreð Þorsteinsson fv. framkvæmdastjóri og borgarfulltrúi, f. 15.2. 1944, d. 27.5. 2020. Foreldrar hans voru Sigríður Lilja Gunnarsdóttir húsmóðir, f. 7.1. 1909, d. 22.1. 1971, og Ingvar Þorsteinn Ólafsson verkamaður, f. 25.10. 1901, d. 25.10. 1964.

Börn Guðnýjar og Alfreðs eru: 1) Lilja Dögg, f. 4.10. 1973, ferða-, viðskipta- og menningarmálaráðherra, gift Magnúsi Óskari Hafsteinssyni, f. 5.6. 1975, hagfræðingi í atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu, börn eru Eysteinn Alfreð, f. 2007, og Signý Steinþóra, f. 2009. 2) Linda Rós, f. 31.5. 1976, sérfræðingur í félagsmálaráðuneytinu, barn Guðný Gerður. f. 2014.

Guðný ólst upp á Miðbraut á Seltjarnarnesi og gekk í Mýrarhúsaskóla og Hagaskóla. Hún nam prentsmíði í Iðnskólanum í Reykjavík og hönnun í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti. Guðný vann hjá Samvinnutryggingum fyrstu starfsárin, svo fór hún í Blaðaprent og á Tímann. Síðustu árin starfaði hún í Prentsmiðjunni Odda, sem prentsmiður og við umbrot. Í Odda kom hún að gerð bóka á borð við Íslensku orðabókina, Lærdómsrit Hins íslenska bókmenntafélags, Matreiðslubækur Hagkaups og margar fleiri.

Guðný var mikil hannyrðakona, saumaði og prjónaði. Peysurnar sem hún prjónaði rötuðu í prjónatímarit. Guðný tók þátt í starfi Sambands ungra framsóknarmanna.

Útför Guðnýjar fer fram frá Fríkirkjunni í Reykjavík í dag, 21. janúar 2022, klukkan 13. Streymt verður frá athöfninni:

https://youtu.be/ycg3nurfFsk

https://www.mbl.is/andlat

Elsku mamma okkar er fallin frá eftir stutt veikindi. Eftir situr mikið tómarúm en hugljúfar minningar um móður sem lagði allan sinn metnað í að veita börnum sínum og barnabörnum ást og umhyggju.

Hún andaðist á sjálfan aðfangadagsmorgun en hún var mikið jólabarn. Jólin áttu að vera fullkomin, þar sem allir áttu að njóta sín og því var oft vakað langt fram á nótt til þess að leggja lokahönd á jólafötin okkar, ævintýralega fallega kjóla. Oft var þetta úr nýjasta tískublaðinu Burda, en mamma hafði mikið dálæti á hönnun og tísku. Við fengum að rölta með henni í vefnaðarvörubúðina og velja efni í kjólana og garn í peysurnar. Nokkrum dögum eða vikum síðar birtist meistaraverk.

Mamma var alin upp á Seltjarnarnesi, elst sex systkina. Foreldrar hennar reistu sér hús við Miðbrautina og var faðir hennar Kristján Pálsson húsasmíðameistari og móðir Helga Sæmundsdóttir húsmóðir. Hún var elst sex systkina. Því miður lést afi okkar ungur eða tæplega 36 ára. Þetta var mömmu mikið áfall og skynjuðum við söknuð í föðurástina fram til hinstu stundar.

Mamma fór snemma að heima enda heimilisaðstæður erfiðar. Hún var mjög sjálfstæð, eitthvað sem skipti hana miklu máli. Hún vildi aldrei vera háð neinum og einkenndist margt af því sem hún gerði af þessari sjálfstæðisþrá. Hún þurfti að kunna allt og gat því tengt rafmagn, flísalagt, smíðað borð og mátti sjá það á verkfærasafninu hennar að þarna var konan sem gat tekið að sér flest verkefni.

Hún gekk í Hagskóla, hlustaði á Bítlana og fór svo að vinna fyrir Samvinnutryggingar og tók þátt í starfi Sambands ungra framsóknarmanna. Á þessum vettvangi kynnast þau pabbi, en svo því sé haldið til haga, þá var mamma komin í pólitíkina á undan pabba. Þau giftu sig í Fríkirkjunni 18. júlí 1971 og hefðu fagnaði gullbrúðkaupsafmæli. Þau bjuggu fyrst í Fossvoginum og síðar í Vesturberginu. Þar bjuggu þau í hálfa öld og var Breiðholtið þeim afar kært. Mamma veitti okkur þá ást og umhyggju sem engin landamæri náðu utan um. Hún var af þeirri kynslóð kvenna sem fór fyrst út á vinnumarkaðinn en jafnframt sá hún um heimilið. Eftir á að hyggja er einhver ofurhetjuljómi yfir henni, hvernig hún náði að vinna langa vinnudaga, elda dýrindismat hvert kvöld og í hjáverkum voru saumuð föt, hannaðir grímubúningar, smíðað og flísalagt. Mamma var mjög úrræðagóð og studdi okkur systur ávallt í námi, vinnu og svo hin síðari ár við uppeldi barna okkar. Hún ferðaðist með okkur bæði innanlands og um heim allan; Hong Kong, Kaupmannahöfn, Akureyri, New York, Öræfasveitin, Brussel, Washington DC, Tenerife og Túnis. Hún var dásamlegur ferðafélagi og tilbúin til þess að taka áskorunum um að fara út fyrir þægindarammann. Hún naut þess að borða góðan mat enda listakokkur sjálf. Allt sem hún gerði var af slíkri snilld, að við vildum ávallt að hún myndi stofna fyrirtæki í kringum það – enda ættu fleiri að njóta hæfileika hennar.

Mamma varð veik í sumar og þetta voru erfið veikindi en hún barðist eins og ljón. Hún ætlaði sér í gegnum þessi veikindi til að eiga fleiri góð ár með barnabörnunum, ferðast um heiminn og sitja á svölunum í nýju íbúðinni sinni yfir sumartímann með hvítvínsglas í hönd með vinum og vandamönnum. Baráttan hafði skilað góðum árangri en hún varð skyndilega bráðkvödd á sjálfan aðfangadag. Okkar síðustu samskipti við hana voru að skipuleggja jólahaldið; rjúpurnar komnar í hús, heitreyktar andabringur og búið að pakka öllum gjöfunum. Hún var spennt að koma heim eftir stutta dvöl á spítalanum og sannfærð um að betri tímar væru í vændum. Missir okkar er mikill og enn meiri hjá barnabörnunum en hún lék stór hlutverk í þeirra lífi, brúaði bilið þegar við systurnar þurftum að vinna fram eftir og passaði ávallt að þeirra uppáhaldsmatur væri til staðar.

Efst í huga okkar nú á þessari stundu er þakklæti. Mömmu farnaðist vel í verkum sínum og var farsæl og hamingjusöm.

Nú ertu sameinuð pabba að nýju í Draumalandinu elsku mamma. Við elskum þig að eilífu.

Þínar dætur,

Lilja Dögg og Linda Rós.

Meira á www.mbl.is/andlat

Elsku amma okkar. Við elskuðum þig svo mikið, þú varst svo ljúf, falleg, hjartahlý, skemmtileg og með smitandi hlátur. Amma var ein af bestu manneskjum sem við þekkjum. Hún var alltaf að hjálpa öllum og var besta amma í öllum alheiminum, þar sem hún vildi gera allt það besta fyrir alla.

Amma var glæsileg og átti fallegustu jakka í heimi. Hún ilmaði svo vel, meira að segja þótt hún væri ekki með ilmvatn. Svo var hún dugleg að prjóna og gerði fallegustu vettlingana.

Það var gaman að fá þig í Huldulandið og Reynimelinn. Þú komst alltaf í Huldulandið á þriðjudögum með eitthvað gott úr bakaríinu fyrir okkur og vini. Á Reynimelnum komstu alltaf með kleinuhringi og normalbrauð. Svo gastu klippt hárið okkar vel. Svo elskaði hún að gefa okkur falleg sængurver. Amma var mjög dugleg að hjálpa okkur heima og segja okkur að laga til!

Amma ferðaðist mikið með okkur og við fórum í margar skemmtilegar ferðir til Washington DC, Tenerife, Danmerkur, Vestmannaeyja, Akureyrar og auðvitað upp í sumarbústaðinn í Biskupstungum. Svo varstu líka dugleg að fara á leikvelli með okkur þegar við vorum yngri.

Við munum sakna þín mjög mikið.

Eysteinn Alfreð, Signý Steinþóra og Guðný Gerður.

Kæra systir, við söknum þín sárlega, en þú ert sannarlega ekki alveg farin, því þú lifir enn í dætrum þínum og barnabörnum og kærleikur þeirra í þinn garð er fagur vitnisburður um þá persónu sem þú hafðir að geyma. Ekki má gleyma öllum öðrum sem þótti vænt um þig. Þú varst ekki gömul þegar þú gekkst inn í móðurhlutverk fyrir yngstu systkini þín og gerðir alla tíð.

Það sem fyrst kemur upp í hugann er hversu óendanlega smekkleg þú varst í öllu vali, til alls sem þú hafðir í kringum þig og tókst þér fyrir hendur, og gerðir engar tilslakanir á kröfum. Enda bar heimili þitt þess fagurt vitni. Það lék allt í höndunum á þér sem þú tókst að þér að gera, hvort sem það var matargerð, saumaskapur eða innanhússframkvæmdir, enda áttirðu verkfæri fyrir hvert tækifæri. En örlögin höguðu hlutunum á annan veg en þú hafðir ráðgert, í miðri skipulagningu á þínu lokaheimili sem ekki var því fyrra síðra. Ef trú okkar reynist rétt ert þú eflaust upptekin af því að koma þér fyrir á nýjum stað með þeim sem voru þér kærastir og á undan farnir.

Guð þig geymi og hlúi að þeim sem þig syrgja.

Bjarni Þór Kristjánsson.

Ég á eftir að sakna Guðnýjar systur svo mikið. Hún bauð mér inn í fjölskylduna sína sem ég er eilíflega þakklát fyrir. Ég bjó hjá henni og Alfreð um skeið. Hún var mér meira en systir, hún og amma ólu mig upp. Svo má ekki gleyma Alfreð sem var mér sem faðir. Ég átti alltaf athvarf hjá þeim, öll jól og páska. Guðný sá til þess að ég fengi góðan mat og hugsaði alltaf vel um mig. Guðný saumaði og prjónaði föt á mig allt frá því að ég var ungbarn. Mér þótti einkar vænt um sumarbústaðarferðirnar með henni og Alfreð og stelpunum. Einnig fór ég í mína fyrstu utanlandsferð með þeim til Spánar. Ég elskaði ljúffenga matinn hennar Guðnýjar og pulsurnar hans Alfreðs. Ég hef misst mikið, þar sem þau fara með svo skömmu millibili. Eftir sitja þó yndislegar og hlýjar minningar um þau heiðurshjón.

Elsku Guðný, vona að þér líði vel í Sumarlandinu og sért búin að hitta Alfreð. Elsku Lilja og Linda og börn, mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Kveðja,

Anna Katrín litla systir.

Með söknuði kveð ég kæra mágkonu. Við kynntumst fyrst fyrir tæpum 20 árum og frá fyrsta degi tók hún mér sem einni af fjölskyldunni. Eftir því sem árin hafa liðið hefur vinátta okkar aukist. Þegar horft er til baka virðast fjörugu boðin í Mosó vera óteljandi, einnig afmælisveislurnar og árlegu skötuboðin í Blesugróf. Samheldni systkinanna var og er einstök en Guðný var kjölfestan.

Vegna aðstæðna lenti það á henni að hugsa um yngri systkini sín og hélst það alla ævi. Stundum fannst mér hún alveg gleyma að litli bróðir væri orðinn fullorðinn en hún hafði yfirleitt skoðun á hvað væri best fyrir sitt fólk. Kölluðum við hana stundum litlu mömmu. Gott hefur verið að geta hringt og fengið ráðleggingar en hún átti auðvelt með að greina hismið frá kjarnanum.

Guðný var ekki gefin fyrir að vera áberandi heldur aðstoðaði bak við tjöldin. Hún var ekkja Alfreðs Þorsteinssonar og komu þessir eiginleikar sér vel sem eiginkona stjórnmálamanns. Víst er er að dæturnar hafa einnig notið skarpskyggni hennar í sínum störfum.

Guðný var mjög listræn eins og hennar fólk og sótti m.a. námskeið í fatahönnun. Ef þurfti að lagfæra fatnað var vandvirknin svo mikil að ekki var hægt að sjá að neinu hefði verið breytt. Þessi nákvæmni og það að gera allt á fullkominn hátt var einkennandi fyrir hana. Hún var ávallt smekklega klædd og ósjaldan framúrstefnuleg. Fylgihlutirnir urðu að vera í stíl við fötin og allt þaulhugsað. Örugglega hefur samt stundum verið erfitt að finna flotta dömuskó í stærð 35 því smágerð var hún. Síðasta vor flutti hún inn í draumaíbúðina og innréttaði hana í sínum anda. Þar var nýrri hönnun og því sem henni var kært raðað saman af mikilli smekkvísi. Í maí 2021 birtist viðtal við hana á vefsíðunni Lifðu núna. Í viðtalinu kemur fram tilhlökkun fyrir flutningnum og að láta drauma sína rætast. Því miður náði hún ekki að njóta þess lengi en hún lét veikindin ekki stöðva sig í að dreyma og gera áætlanir. Við héldum öll að hún fengi lengri tíma en kallið kom að morgni aðfangadags þegar hún í tilhlökkun var að undirbúa heimferð af sjúkrahúsinu til að fagna jólunum með dætrum sínum og fjölskyldum þeirra. Missir þeirra og systkinanna er mikill og sendi ég þeim mínar innilegustu samúðarkveðjur. Með þökk fyrir allt kæra Guðný.

Stillt vakir ljósið

í stjakans hvítu hönd,

milt og hljótt fer sól

yfir myrkvuð lönd.

Ei með orðaflaumi

mun eyðast heimsins nauð.

Kyrrt og hljótt í jörðu

vex korn í brauð.

(Jón úr Vör)

Svava Þóra Þórðardóttir.

Hinn 18. desember sl. var dálítill hópur samankominn til að fagna afmæli dóttur okkar hjónanna og þar sátum við og Guðný og nutum þess að vera saman í góðum félagsskap.

Um hádegi 24. desember hringdi Linda Rós dóttir Guðnýjar og tilkynnti okkur að mamma hennar hefði verið að falla frá. Guðný, sem bar sig svo vel í veislunni nokkrum dögum áður, var látin.

Það er stundum sem við erum minnt á hve lítil við erum og hve litlu við ráðum og þetta var eitt slíkt skipti, og minningarnar streyma fram.

Sem börn áttum við Guðný og systkini hennar og foreldrar, afi okkar og amma heima á Seltjarnarnesi. Fjölskylda Guðnýjar bjó á Nesvegi, en við í húsi á norðanverðu nesinu sem hét Skuld.

Mikill samgangur var milli heimilanna og Kristján faðir Guðnýjar kom stundum með bílinn sinn til lagfæringar í Skuld og var þá kátt á hjalla þar í skúrnum hjá þeim tengdafeðgunum. Kristján var léttur og kátur maður sem smitaði gleði.

Ein fyrsta minningin sem ég á um Guðnýju er frá fyrsta skóladeginum. Ég hafði verið í sveit um sumarið, en vegna þess að skólinn var byrjaður nokkru áður en ég kom heim úr sveitinni bað amma mín Guðnýju, jafnöldru mína og frænku, að fylgja mér í skólann fyrsta daginn og auðvitað skilaði hún hlutverki sínu fullkomlega þá, sem ætíð síðar.

Við urðum síðan samferða í skólagöngunni næstu árin, fermdumst saman og fermingarveislan var sameiginleg.

Vináttu Guðnýjar lauk hins vegar aldrei og einlæg vinátta þróaðist milli hennar og stúlkunnar, sem tók að sér það hlutverk að fylgja mér í gegnum lífið.

Fyrsta orðið sem í hug kemur þegar hugsað er til Guðnýjar er traust, og ætli næst komi ekki alúð, samviskusemi og hlýja og til viðbótar dugnaður og framtakssemi.

Eitt sinn átti ég símtal við manninn hennar, Alfreð heitinn, og spurði frétta af Guðnýju. Svarið var: Heyrirðu ekki lætin? Jú, það heyrðist einhver hávaði og ég spurði hvað væri um að vera og svarið var: Hún er að breyta baðherberginu og m.a. að brjóta múr!

Síðar þegar Guðný kom til okkar hjónanna og þetta barst í tal gerði hún lítið úr málinu.

Hún hafði staðið í stórræðum og gerði lítið úr sínum hlut. Það var sem henni fyndist óþarfi að vera að hafa orð á þessu og þannig var hún þessi fíngerða dugnaðarkona sem við munum eftir og munum eiga í minningunni.

Eins ákveðin og hún var strax sjö ára gömul að skila hlutverki sínu fyrsta skóladag litla frænda var hún ákveðin allt sitt líf. Stóð alltaf fyrir sínu, dugleg, hjálpsöm og réttsýn og svo kær sem hún var mér, þá var ánægjulegt hvernig samband hennar og stúlkunnar sem varð kona mín þróaðist í einlæga vináttu.

Til stóð að við hjónin og Guðný færum saman austur á land síðastliðið sumar, til þess að skoða æskustöðvar ömmu okkar. Því var frestað vegna veikinda Guðnýjar.

Blessuð sé minning hennar. Minningarnar munu lifa með okkur, en söknuðurinn er mikill og skarðið er stórt.

Einlægar samúðarkveðjur sendum við hjónin dætrunum Lilju Dögg og Lindu Rós, tengdasyninum Magnúsi, barnabörnum, systkinum Guðnýjar og öðrum aðstandendum.

Ingimundur Bergmann og Þórunn Kristjánsdóttir.

Kær vinkona kvaddi þennan heim á aðfangadag jóla og minningar um jólahald í gamla daga hellast yfir mig. Við Guðný kynntumst þegar við unnum saman á Tímanum fyrir um 40 árum. Þótt Tíminn hætti að koma út héldum við áfram vinskapnum og við Tímaskvísurnar í prentdeildinni höfum um langt skeið hist nokkrum sinnum á ári og alltaf er jafnskemmtilegt hjá okkur. Nú vantar Guðnýju.

Á Tímaárunum vorum við stelpurnar í prentdeildinni mjög nánar. Við vorum á líkum aldri og á svipuðum stað í lífinu, rétt byrjaðar að halda heimili og standa fyrir jólaboði. Guðný var þá með talsverða reynslu í jólamatseld og öllu því stússi og stressi sem fylgdi jólum. Þau voru mörg ráðin sem við þær yngri fengum hjá henni, t.d. um brúnaðar kartöflur.

Þá þegar tók ég eftir því hvað Guðný var alltaf pollróleg, sama hvað gekk á. Dætur hennar voru þá nokkurra ára gamlar og strax ákveðnar hvernig jólakjól þær vildu. Það var aldrei kjóll sem hægt var að kaupa í búð heldur varð Guðný að sauma kjólana sjálf. Mér þótti þetta nú óþarfa dekur en Guðnýju þótti aldrei sem hún gerði of mikið fyrir dætur sínar og fjölskylduna. Og víst er um það að stelpurnar Lilja og Linda urðu engar dekurrófur heldur dugnaðarforkar eins og mamma þeirra var.

Guðný var einstaklega listfeng þegar kom að handavinnu hvort heldur var saumar eða prjón. Litir, snið og frágangur var eins og hjá frægustu hönnuðum heims. Guðný var líka hjálpsöm þegar ég hafði ætlað mér um of á sviði handmennta. Hún kenndi mér alls konar fiff við saumaskapinn og fullvissaði mig um að ég gæti þetta alveg, ég yrði bara að sýna smá þolinmæði.

Listfengi Guðnýjar sýndi sig ekki aðeins við handavinnu og í klæðaburði heldur í öllum hennar verkum og ekki síst í prentverkinu sem hún vann við alla sína tíð. Hún var ekki bara að setja texta heldur var hún alltaf að fullkomna vinnu sína og finna upp á einhverju nýju útliti þegar tölvurnar komu til sögunnar. Hún gat ekki hugsað sér að koma nálægt „ljótu“ prentverki, og var eftirsótt til vinnu.

Þótt Guðný væri lágvaxin og fínleg í alla staði var hún algjör nagli og stóð eins og klettur með þeim sem henni þótti vænt um. Hún var þeirrar gerðar að hún hreykti sér ekki af verkum sínum og var að mínu mati of hógvær þegar kom að því að þiggja hrós. Guðný talaði ekki mikið um sjálfa sig, en ég vissi að hún var ekki fædd með silfurskeið í munni.

Einn ónefndur kostur Guðnýjar, sem allir sem þekktu hana eiga eftir að sakna, er hversu góður hlustandi hún var. Nýlega þegar ég heimsótti hana í nýju íbúðina ætlaði ég að spyrja hana hver hefði kennt henni að sauma svona listavel. Sú umræða varð að engu því ég var allt í einu farin að tala út í eitt um eigin hörmungar og Guðný sat og hlustaði. Þegar ég síðar bað hana afsökunar á þessu rausi mínu sagði hún: „Blessuð vertu, ekkert mál, ég vissi að þú þyrftir að tala um þetta.“ Þannig var Guðný, góður vinur gulli betri og hennar er sárt saknað.

Ég sendi fjölskyldu Guðnýjar alla mína samúð með ósk um huggun harmi gegn.

Meira á www.mbl.is/andlat

María Anna

Þorsteinsdóttir.

Kynni okkar Guðnýjar hófust þegar hún kom til starfa hjá Prentsmiðjunni Odda. Hún var snögg að tileinka sér nýja tækni, úrræðagóð, afkastamikil, ósérhlífin til vinnu og umfram allt góður vinnufélagi.

Af einhverjum ástæðum náðum við vel saman við fyrstu kynni. Kannski að hluta til vegna sameiginlegs áhuga okkar á mat og matargerð en Guðný var framúrskarandi kokkur.

Það fór ekki á milli mála hvað var það mikilvægasta í lífi Guðnýjar en dætur, tengdasonur og barnabörnin voru hennar stolt og yndi. Að fá að vera þátttakandi í líf þeirra veitti henni gleði og styrk til að takast á við það sem lífið gaf. Systkini hennar og fjölskyldur þeirra voru henni einnig afar hugleikin.

Guðný var miklum mannkostum búin. Hún var heiðarleg, jákvæð, víðsýn, dugleg og skemmtileg. En fyrst og fremst var hún góð og hlý manneskja sem gott var að umgangast.

Innilegar samúðarkveðjur til fjölskyldu og vina. Blessuð sé minning góðrar vinkonu.

Magnús G. Guðfinnsson.

Guðný vinkona mín er fallin frá eftir nokkurra mánaða baráttu við erfið veikindi.

Þótt vitað væri að á brattann væri að sækja kom andlát hennar að morgni aðfangadags á óvart en við töluðum saman daginn áður og hún var þá nokkuð hress.

Guðný tókst á við veikindin af miklu æðruleysi, alltaf jákvæð, bjartsýn og tók virkan þátt í lífinu.

Ég kynntist Guðnýju fyrir tæpum aldarfjórðungi en eiginmenn okkar voru nánir samstarfsmenn. Ég hafði séð Guðnýju nokkrum sinnum en aldrei talað við hana þegar mennirnir buðu okkur með á ráðstefnu til Bandaríkjanna haustið 1998. Herrarnir þrír sem voru með okkur í ferðinni vildu gjarnan sitja saman í flugvélinni til Boston og leyfa okkur Guðnýju að spjalla saman en við vorum eitthvað feimnar og litlar í okkur, vildum frekar sitja hvor hjá sínum manni.

Það var gist eina nótt í Boston og þaðan var ferðinni síðan heitið til Houston í Texas. Við vorum búin að panta borð á veitingastað og þegar á hótelið var komið fóru allir upp á herbergi til að þvo af sér ferðarykið. Þetta tók okkur konurnar heldur lengri tíma en mennina og þegar ég kom niður í anddyri stóð Guðný þar ein og sagði karlana hafa farið saman í leigubíl en hún hefði ekki náð að spyrja þá neins. Við hugsuðum ekki hlýlega til þeirra en ég vissi á hvaða stað átti að fara og við ákváðum að drífa okkur þangað, við yrðum þá bara tvær ef þeir kæmu ekki en auðvitað voru þeir komnir á staðinn og tóku okkur fagnandi. Við gerðum oft grín að þessu atviki, sem var í raun okkar fyrstu kynni.

Við Guðný ferðuðumst mikið með eiginmönnum okkar sem oft höfðu ekki tíma til að sinna okkur en það kom ekki að sök því við nutum þess að vera saman, rölta um, fara í skoðunarferðir, kíkja í búðir og borða góðan mat.

Við Guðný vorum ekki bara vinkonur í utanlandsferðum heldur gerðum við líka margt skemmtilegt saman hér heima, við fórum á tónleika, sýningar og út að borða. Guðný var listakokkur og undanfarin ár höfum við frekar eldað og borðað saman. Þau eru ófá símtölin sem ég hef hringt í Guðnýju til að fá ráðleggingar varðandi matreiðslu og uppskriftir og aldrei gripið í tómt. Það verða mikil viðbrigði að geta ekki gert þetta lengur.

Hún Guðný var fíngerð og fáguð kona, mjög listræn og einstaklega smekkleg. Hún var frábær í höndunum, bæði í fíngerðum saumaskap og í grófari verkum eins og að brjóta niður veggi, flísaleggja og fleira. Í öllu þessu kom hennar einstaka nákvæmni og samviskusemi sér vel því allt sem hún kom nálægt var einstaklega vel og vandvirknislega unnið.

Í vor flutti Guðný í nýja og glæsilega íbúð og var að koma sér vel fyrir þegar hún veiktist. Við náðum að skála í hvítvíni fyrir nýju íbúðinni og útsýninu en þurftum að gera það tvisvar því útsýnið sveik okkur í fyrra skiptið en þessi skipti áttu að verða svo miklu fleiri.

Að leiðarlokum langar mig að þakka Guðnýju minni ómetanlega og trygga vináttu sem aldrei bar skugga á.

Við Guðmundur sendum dætrunum, Lilju Dögg og Lindu Rós, og fjölskyldum þeirra innilegar samúðarkveðjur.

Blessuð sé minning Guðnýjar Kristjánsdóttur.

Halldóra Björnsdóttir.

Elskulegu systur, Lilja Dögg og Linda Rós.

Við vinkonur mömmu ykkar viljum votta ykkur samúð við fráfall elsku vinkonu okkar til margra ára.

Hvílíkt hvað snöggt fráfall hennar snerti okkur. Við trúum ekki þessari staðreynd að á morgni eftir sólarlag breytast hlutirnir oft óvænt og rista djúpt.

Okkar hugur er hjá ykkur og fjölskyldum ykkar, elsku systur. Hún verður ætíð í huga okkar.

Guðs blessun fylgi minningu vinkonu okkar.

Anna, Elín (Ella), Anna María, Sigurborg (Systa), Ingibjörg (Inga) og Þórunn.