Guttormur Vigfússon Þorvarðarson Þormar fæddist í Hofteigi á Jökuldal 7. október 1925. Hann lést 25. desember 2021 á Droplaugarstöðum í Reykjavík.

Foreldrar hans voru hjónin Þorvarður G. Þormar, sóknarprestur í Hofteigi 1924-1928 og í Laufási við Eyjafjörð 1928-1959, f. 1.2. 1896 í Geitagerði í Fljótsdal, d. 22.8. 1970, og Ólína Marta Þormar húsmóðir, f. 1.3. 1898 á Þóroddsstöðum í Ölfusi, d. 19.2. 1991.

Bræður Guttorms: Halldór líffræðingur, f. 9.3. 1929. Hörður efnafræðingur, f. 20.3. 1933. Fóstursystir Vilborg K. Guðmundsdóttir, húsmóðir á Akureyri, f. 7.10. 1922, d. 29.4. 1999.

Fyrri kona Guttorms var Doris Þormar, húsmóðir og skrifstofumaður hjá RÚV, f. 25.2. 1932 í Kaupmannahöfn, d. 25.2. 1990. Foreldrar Dorisar voru Georg F. Frederiksen f. 17.10. 1908, d. 20.3. 1994, og Gurli Frederiksen, f. 2.11. 1906, d. 27.11. 1986.

Börn Guttorms og Dorisar: 1) Margrét, f. 1.4. 1951 í Reykjavík, arkitekt; m. 1) Bjarni Rúnar Bjarnason, f. 1.4. 1952, hljómburðarfræðingur; m. 2) Örn Ágúst Guðmundsson tannlæknir, f. 28.9. 1938. Dætur Margrétar og Bjarna: a) Dýrleif, f. 28.1. 1977; m. 1 Jökull Benedikt Knútsson, börn: Hlynur, Snæbjörn og Dagný; m. 2 Sindri Arnarson, börn: Alda Guðrún og Hilmir Bjarni; b) Arnheiður, f. 21.7. 1979, m. Júlíus Stígur Stephensen, börn: Þórdís, Kári og Styrmir. 2) Stúlka, f. 2.9. 1953, d. 4.9. 1953. 3) Stefán, f. 14.4. 1962 í Kaupmannahöfn, rafmagnsverkfræðingur; m. 1 Hanne Jensen, f. 31.12. 1957, synir: a) Óskar, f. 5.6. 1990, b) Magnús, f. 12.5. 1993; m. 2) Aline Lier Møller, starfsmaður DTU, f. 25.6. 1968.

Barnsmóðir Guttorms er Valdís Kjartansdóttir, f. 17.7. 1938 í Reykjavík. Foreldrar: Kjartan Ólafsson, f. 6.3. 1895, d. 22.9. 1971, og Jóna Sigríður Gísladóttir, f. 8.1. 1909, d. 6.8. 1999.

Dóttir Guttorms og Valdísar: 4) Sigrún, f. 10.11. 1959 í Reykjavík, hagfræðingur, sviðsstjóri Snorrastofu í Reykholti; m. Gunnar A. Rögnvaldsson, f. 30.10. 1956, viðskiptaráðgjafi, börn: a) Valdís, f. 15.4. 1982, m. Thomas Boitard, börn: Jóhann Elías og Júlía Sóley; b) Gunnar Freyr, f. 26.12. 1986, m. Katarzyna M. Dygul, synir: Markús Jerzy, Jakob Þór og Símon Jan.

Síðari kona Guttorms var Guðrún H. Guðbrandsdóttir, f. 15.2. 1934 í Ólafsvík, starfsmaður Landspítala, d. 26.4. 2014. Foreldrar: Elín Snæbjörnsdóttir, húsmóðir í Ólafsvík, f. 30.11. 1913 í Ólafsvík, d. 25.4. 1993, og Guðbrandur Vigfússon, sjómaður og oddviti í Ólafsvík, síðar starfsmaður á Borgarspítala, f. 27.12. 1906 á Kálfárvöllum í Staðarsveit, d. 14.10. 2001.

Guttormur tók fullnaðarpróf frá barnaskólanum á Grenivík og hóf nám í Menntaskólanum á Akureyri 1938. Hann varð stúdent 15. júní 1944, innritaðist í HÍ haustið 1944, lauk fyrrihlutaprófi í verkfræði 1946 og prófi í byggingarverkfræði frá DTH árið 1950. Guttormur starfaði hjá Bæjarverkfræðingi í Reykjavík 1950-1960, vann hjá E. Phil og Søn í Kaupmannahöfn, en fjölskyldan flutti heim aftur vorið 1963. Hann hóf svo aftur störf hjá Reykjavíkurborg, á miklum breytingatímum. Var deildarverkfræðingur á gatna- og holræsadeild 1963-1965, yfirverkfræðingur gatna- og umferðarmála frá 1965 og fulltrúi Reykjavíkurborgar í Umferðarráði 1969-1986, en var jafnframt framkvæmdastjóri við byggingardeild Borgarspítalans.

Guttormur lauk störfum hjá borginni 1.7. 1986 og var síðan sjálfstætt starfandi til 1998. Hann var virkur í félags- og nefndarstörfum, m.a. á vegum VFÍ, tók þátt í útgáfu verkfræðingatals 1993-1996 og sat í orðanefnd byggingarverkfræðinga 1997-2007. Hann var gjaldkeri sóknarnefndar Langholtskirkju í fjögur ár, formaður húsfélags í Ljósheimum 4 í 17 ár, formaður byggingardeildar Félags eldri borgara í fjögur ár, var ritari í stjórn FEB o.fl., auk fleiri nefndarstarfa hér og erlendis.

Guttormur hafði mikinn áhuga á ættfræði, tók m.a. saman hefti um Þormarsætt og var í ritnefnd o.fl. við útgáfu Ljótsstaðaættar.

Útför Guttorms fer fram frá Langholtskirkju í dag, 21. janúar 2022, og hefst útförin klukkan 13. Hlekkur á streymi:

https://www.mbl.is/andlat

Þegar ég nú kveð elsku pabba minn með miklum söknuði, þá hugsa ég með þakklæti til stundanna sem við höfum átt saman, bæði þegar ég var ung og líka eftir að við pabbi fórum að eldast og ekki síst eftir að pabbi var orðinn einn. Það var líka alltaf yndislegt að heimsækja pabba og elsku Guðrúnu, konu hans til 39 ára, sem voru svo samrýnd og skemmtileg.

Það sem einkenndi pabba var góða skapið og svo var hann eldklár og stálminnugur alveg fram á síðasta dag. Því finnst mér svo erfitt að sætta mig við að hann sé farinn. En eins og hann sagði sjálfur: „Eitt sinn skal hver deyja.“ Þá verðum við að taka því þegar kemur að kveðjustund. Ég er svo þakklát fyrir að hafa átt hann að svona lengi og ég þakkaði í huganum fyrir hvern einasta dag, sem ég gat hringt í hann og spjallað, eða hitt hann. Við höfðum alltaf um nóg að tala, að ræða fram og aftur, hvort sem það var eitthvað, sem gerðist í þjóðfélaginu, eða í heiminum, eða bara hjá okkur, heilsuna og fleira. Stundum vorum við að ræða um uppruna orða og oft sagði hann mér frá ættingjum, sem hann mundi vel eftir. Hann var vel að sér í ættfræði og hafði mikla unun af því að rekja ættir fólks. Þegar hann kynntist einhverjum, spáði hann oftast í hverra manna hann eða hún væri og hvort ekki væri eitthvað sem tengdi þau við hann. Hann hafði svo mikinn áhuga á fólki.

Meðan pabbi bjó heima á Eikjuvoginum var hann oft í tölvunni, hann skrifaði endurminningar, hann tók saman upplýsingar um alla afkomendur sína og var með góð ráð og leiðbeiningar fyrir okkur, sem myndu nýtast okkur þegar hann væri farinn. Hann var líka að pæla í alls konar hlutum, m.a. var hann að velta vöngum yfir „tímanum“, hvaða fyrirbæri tíminn væri og hann skrifaði pistla, m.a. um náttúruna, sálina, trúna, svefn og dauða, ástina, kærleikann og væntumþykjuna. Svo rifjaði hann upp æsku sína í Laufási. Faðir hans var prestur þar frá 1928 til 1958, en pabbi fæddist í Hofteigi á Jökuldal 1925.

Hann skrifaði um námsárin í Menntaskólanum á Akureyri og kennarana þar, námið í Háskóla Íslands og um dvöl sína í Danmörku og nám sitt við Danmarks Tekniske Højskole. Í Kaupmannahöfn kynntist hann móður minni og þau giftust þar, en ég fæddist ári síðar á Íslandi. Ég var heppin með fjölskyldu mína, ég átti góða æsku og ástríka foreldra. Seinna, þegar ég var orðin fullorðin og komin með mína eigin fjölskyldu, var alltaf hægt að leita til pabba. Hann var mættur til að hjálpa ef á þurfti að halda. Dætur mínar, Dýrleif og Arnheiður, voru alltaf velkomnar hjá pabba og Guðrúnu og stelpunum fannst mjög gaman að koma í heimsókn til þeirra og gista. Seinna bættust langafabörnin við og þau litlu voru fljót að finna dótakassann, sem beið þeirra.

Mig langar að þakka pabba mínum fyrir allar góðu stundirnar, fyrir öll árin. Blessuð sé minning hans.

Margrét.

Nú er hann farinn frá okkur, tengdafaðir minn Guttormur Þormar. Rúmlega hálf öld er liðin síðan við hittumst fyrst í Skeiðarvoginum. Ég er enn í vafa um hvernig honum leist á þennan síðhærða, hippalega strák, sem var að gera hosur sínar grænar fyrir dóttur hans. Aldrei voru samt nein vandræði. Alltaf sýndi hann víðsýni og umburðarlyndi gagnvart skoðunum annarra. Ekki vorum við samstiga í pólitík en það háði ekki samskiptum okkar. Við náðum alltaf að ræða saman um eitthvað sem sameinaði okkur; ættfræði, uppruna orða, sögulegan fróðleik, hvaðeina.

Dætrum okkar Margrétar, Dýrleifu og Arnheiði, var hann ávallt hinn fullkomni afi, tilbúinn að hlaupa undir bagga ef með þurfti. Minnisstæðar eru heimsóknir hans til okkar er við dvöldum í Stokkhólmi, eldri dóttirin á sínum fyrstu árum, en tengslin við afa mynduðust fljótt. Síðar, ef á þurfti að halda, var verkfræðingurinn með stærðfræðina á hreinu ef menntskælingur þurfti aðstoð.

Löngu seinna, heimkomin til Íslands, heimsóttum við þau Guðrúnu í Eikjuvoginn, þau alltaf brosandi, kaffi og meðlæti (eplaskífurnar!) og leikföng handa barnabörnum og svo næstu kynslóð.

Að lokum vil ég segja að Guttormur var mér hin besta fyrirmynd að því hvernig ólík sjónarmið geta lifað saman í sátt og samlyndi. Hann var, að ég tel, það sem kallað hefur verið frjálslynt íhald. Málsmetandi maður úr íslenskri pólitík sagði hann „góðan og gegnan íhaldsmann“. Þrátt fyrir það held ég að hann hafi aldrei troðið illsakir við nokkurn mann. Ef það eru ekki góð eftirmæli veit ég ekki hvað.

Vertu svo vel kvaddur.

Bjarni Rúnar Bjarnason.