[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Jón Axel Pétursson fæddist í Reykjavík 21. janúar 1962 og bjó fyrstu árin í Vesturbænum. Hann gekk í Melaskóla, Hagaskóla og útskrifaðist síðan úr Verslunarskólanum árið 1982.

Jón Axel Pétursson fæddist í Reykjavík 21. janúar 1962 og bjó fyrstu árin í Vesturbænum. Hann gekk í Melaskóla, Hagaskóla og útskrifaðist síðan úr Verslunarskólanum árið 1982.

„Á unglingsárum fór ég aldrei í sveit eins og tíðkaðist gjarnan þá en byrjaði snemma að vinna ýmis störf. Vann í fiski, við verslunarstörf, banka og síðasta sumarstarfið mitt og það eftirminnilegasta var að fara til sjós tvítugur á togarann Snorra Sturluson sem gerður var út af Bæjarútgerð Reykjavíkur. Það var ómetanlega skemmtileg reynsla að fá að kynnast sjómennskunni og af því hefði ég ekki viljað missa. Síðan fór ég í viðskiptafræði við Háskóla Íslands.“

Starfsferill

„Þegar ég var að hefja nám tvítugur missti ég föður minn en hann var með lögfræðiskrifstofu sem sinnti sértækum verkefnum fyrir opinber fyrirtæki. Ég tók við rekstri skrifstofunnar og rak hana samhliða námi mínu í viðskiptafræðinni og það var góð reynsla sem nýttist mér seinna á starfsævinni.“ Hann útskrifaðist síðan sem viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands árið 1990.

Fyrsta starf Jóns eftir útskrift var fjármálastjóri hjá Goða hf. frá 1990 til 1994. „Fyrirtækið átti í töluverðum rekstrarerfiðleikum og þessi tími var að mörgu leyti erfiður en að sama skapi góð reynsla.“ Síðan var Jón sölu- og markaðsstjóri hjá Gevalia til 1999 og vann síðan sem forstöðumaður einstaklingstrygginga hjá VÍS í tvö ár.

„Frá þeim tíma hef ég unnið í 20 ár sem stjórnandi fyrir fyrirtæki í eigu íslenskra kúabænda og ávallt líkað vel að vinna í þágu hagsmuna þeirra. Fyrst var ég framkvæmdastjóri Emmessíss í fimm ár, sem var mjög skemmtilegur tími því fyrirtækið gekk vel. Síðan var ég kallaður til að taka við starfi framkvæmdastjóra sölu- og markaðssviðs MS en á þessum tíma lá fyrir að fara í miklar sameiningar og hagræðingaraðgerðir í fyrirtækjum kúabænda í mjólkuriðnaði. Það var krefjandi en jafnframt skemmtilegt verkefni sem gekk upp í samræmi við þær áætlanir sem gerðar voru á sínum tíma.

Þegar ég tók við útflutningsstarfsemi MS árið 2010, sem þar með varð hluti af sölu- og markaðssviði MS þar sem ég var framkvæmdastjóri, var skyr selt til tveggja landa og veltan mjög takmörkuð. Þegar ég hætti árið 2019 eftir mjög skemmtilega og öfluga uppbyggingu hljóp salan á þúsundum tonna og sameiginleg velta okkar og samstarfsaðila á tugum milljarða. Ég hef alltaf notið þeirrar gæfu að vinna við það sem mér finnst skemmtilegt og áhugavert hverju sinni og það eru sannarlega forréttindi.

Stoltastur er ég sennilega af því að hafa leitt vinnuna við uppbyggingu og útbreiðslu Íseyjar skyrs vörumerkisins í gegnum tíðina enda held ég að útbreiðsla þess og vinsældir séu að mörgu leyti einstakar þegar horft er til íslenskra vörumerkja í matvælaiðnaði. Þegar ég hugsa til baka á þessum tímamótum er mér fyrst og fremst í huga þakklæti fyrir að hafa fengið að vinna með öllu því góða fólki sem vann með mér að uppbyggingu og útbreiðslu Íseyjar skyrs vörumerkisins á alþjóðlegum mörkuðum.“

Í dag starfar Jón sem framkvæmdastjóri Eignareksturs sem er fjölskyldufyrirtæki sem þjónustar fasteignafélög og hefur verið í örum vexti á undanförnum árum. „Þar eru spennandi tímar fram undan því markaðurinn sem fyrirtækið vinnur á er í örum vexti og við bjóðum góða þjónustu sem mikil eftirspurn er eftir.“

Áhugamál

„Helstu áhugamál okkar hjóna í gegnum tíðina hafa m.a. verið ferðalög innanlands og utan. Vorum á tímabili í gönguhópi sem fór í mjög skemmtilegar gönguferðir um fjöll og firnindi innanlands og mikið til að byrja með á Hornströndum og þá út frá þeim fallega stað sem Hesteyri er. Enn fremur höfum við verið dugleg að stunda skíði á veturna og golf á sumrin. Við höfum farið í mjög skemmtilegar skíðaferðir til Ítalíu og Austurríkis með góðum félögum og það eru alltaf góð og skemmtileg frí.

Í seinni tíð hefur golfið tekið meiri tíma hjá okkur hjónum og við verið dugleg að stunda það bæði innanlands og erlendis. Konan er búin að fara þrisvar sinnum holu í höggi en ég einu sinni þannig að ég þarf að æfa meira ef ég á að eiga séns í hana í golfi, en alltaf þegar við spilum saman erum við í keppni um hvort okkar vinni. Hingað til hefur hún unnið oftar en ég. Ég var svo lánsamur fyrir nokkrum árum að komast í mjög skemmtilegan golfhóp sem heitir Húkkarar og samanstendur af sextán körlum sem allir telja sig vera toppgolfara og keppa stíft allt sumarið. Það er mjög góður félagsskapur og mikil keppni allt sumarið. Við hjónin höfum líka verið með áskriftarkort að leikhúsum núna bráðum í 30 ár og finnst ómissandi að sækja góðar leiksýningar á veturna.“

Fjölskylda

Eiginkona Jóns er Bryndís Lýðsdóttir, f. 14.2. 1962, hjúkrunarfræðingur. Þau búa í Garðabæ. Foreldrar Bryndísar eru hjónin Lýður Jónsson, f. 17.9. 1925, vörubifreiðarstjóri, nú búsettur í Hafnarfirði, og Mundheiður Gunnarsdóttir, f. 23.2.1932, d. 6.1. 2022, húsmóðir og ritari. Þau bjuggu í Reykjavík.

Synir Jóns og Bryndísar eru tvíburarnir Lýður, f. 26.12. 1993, með meistarapróf í viðskiptafræði, býr í Garðabæ, og Pétur Axel, f. 26.12. 1993, viðskiptafræðingur, býr í Kópavogi.

Alsystkini Jóns: Magnús Þórir, f. 15.5. 1963, d. 16.11. 1963, og Þóra Steinunn, f. 8.11. 1971, félagsráðgjafi, býr í Garðabæ. Systkini Jóns samfeðra: Snjólaug, f. 28.7. 1958, d. 17.8. 1972, bjó í Reykjavík, Jón Guðmann, f. 31.12. 1959, viðskiptafræðingur, býr í Kópavogi, og Pétur Axel, f. 16.9. 1980, framkvæmdastjóri, býr í Hafnarfirði. Systkini Jóns Axels sammæðra eru Edda Escarzaga, f. 22.4. 1957, tölvunarfræðingur, býr í Flórída, og Sveinn Guðmundsson, f. 4.8. 1958, hæstaréttarlögmaður, býr í Reykjavík.

Foreldrar Jóns voru Pétur Axel Jónsson, f. 31.3. 1938, d. 15.7. 1983, héraðsdómslögmaður í Reykjavík, og Magnþóra G.P. Þórisdóttir, f. 5.10. 1938, d. 15.9. 1974, húsmóðir í Reykjavík.