Arna Schram fæddist í Reykjavík 15. mars 1968. Hún lést á Landspítalanum 11. janúar 2022.

Foreldrar Örnu eru Anna Guðlaug Ásgeirsdóttir, f. 3. desember 1942, og Ellert B. Schram, f. 10. október 1939. Önnur börn Önnu og Ellerts eru: Ásdís Björg, f. 30. maí 1963, Aldís Brynja, f. 5. júní 1969, og Höskuldur Kári, f. 21. febrúar 1972. Börn Ellerts og Ágústu Jóhannsdóttur eru Eva Þorbjörg, f. 23. mars 1990, og Ellert Björgvin, f. 5. desember 1991.

Arna ólst upp í Vesturbæ Reykjavíkur. Hún gekk í Vesturbæjarskóla, sem þá var til húsa við Öldugötu, og síðar í Hagaskóla. Hún varð stúdent frá MR árið 1988. Arna lauk BA-gráðu í stjórnmálafræði og heimspeki frá Háskóla Íslands og Kaupmannahafnarháskóla, auk MBA-gráðu með áherslu á stjórnun, rekstur og markaðsmál frá Háskólanum í Reykjavík árið 2013.

Arna giftist 26. júlí 1996 Katli Berg Magnússyni, f. 9. janúar 1969. Þau skildu. Dóttir þeirra er Birna Ketilsdóttir Schram, f. 15. júlí 1994.

Arna starfaði lengst af sem blaðamaður. Fyrst á DV árið 1993 en síðar fór hún á Morgunblaðið, n.t.t. frá 1995 til 2006, þar sem hún starfaði meðal annars sem þingfréttaritari og pistlahöfundur og sá um kvöldfréttastjórn. Hún var aðstoðarritstjóri Krónikunnar 2006 til 2007, fréttastjóri og blaðamaður hjá Viðskiptablaðinu 2007 til 2009 og sá um kynningar- og útgáfumál hjá Háskólanum í Reykjavík 2009 til 2010.

Árið 2010 var Arna ráðin í starf forstöðumanns almannatengsla Kópavogsbæjar og í febrúar 2014 varð hún forstöðumaður menningarmála í Kópavogi. Frá því í apríl 2017 og til dauðadags gegndi hún starfi sviðsstjóra menningar- og ferðamálasviðs Reykjavíkurborgar. Meðfram þeim störfum var hún m.a. stjórnarformaður Ráðstefnuborgarinnar Reykjavíkur, Meet in Reykjavik, og átti sæti í stjórn Hörpu tónlistar- og ráðstefnuhúss frá september 2017. Þá sinnti hún kennslu á sviði fjölmiðla og almannatengsla í Háskólanum á Bifröst.

Arna sinnti mörgum félags- og trúnaðarstörfum um ævina. Hún átti sæti í Stúdentaráði Háskóla Íslands 1989-1991, var formaður stjórnar Listdansskóla Íslands 1997-2001 og formaður Blaðamannafélags Íslands 2005-2009, fyrst kvenna. Hún var ritstjóri 19. júní blaðsins árið 2001 og sat í stjórn Íslenska dansflokksins 1999-2001. Þá var hún fulltrúi í íslensku UNESCO-nefndinni og fulltrúi Blaðamannafélagsins í fjölmiðlanefnd, auk annarra starfa.

Útför Örnu verður gerð frá Dómkirkjunni í Reykjavík í dag, 21. janúar 2022, klukkan 13. Vegna fjöldatakmarkana geta einungis nánustu ættingjar og vinir verið viðstaddir. Athöfninni verður streymt á:

http://promynd.is/arna

Hlekkur á streymi:

https://www.mbl.is/andlat

Sérðu hvernig vatnið sefur

stóísk hljómalind

ástarstjarna að ofan gefur

þína spegilmynd

Úr bólakafi brosir til mín

bægir burt hið svarta

skammvinn er sú sólarsýn

djúpt er sokkið hjarta

Augnablikið, aðeins við

áður en við förum

ómar ætíð bergmálið

að liðnum bernskudögum

Pabbi.

Sólin hnígur til viðar og húmið leggst á. Það ríkir friður í þögninni og þú ert hjá okkur. Mín fallega systir er fallin frá.

Hún Arna mín var einstök manneskja og hafði allt til brunns að bera. Fegurð, gáfur, manngæsku og ótrúlega innsýn í fólk og málefni. Hún var minn viskubrunnur þegar ágjöfin var mikil, félagi og trúnaðarvinur á lífsins vegi.

Þú háðir þína baráttu eins og þú lifðir lífinu. Af æðruleysi, einurð og einlægni með húmorinn að vopni. Já og auðvitað með smá kæruleysi líka. Þegar ég var lítill gutti á fótstignum leikfangabíl á Stýrimannastíg reyndi „hverfisfanturinn“ að stela bílnum. Þá kom Arna út, stóra systir, og verndaði litla bróður. Hún var alltaf þarna og lét engan vaða yfir sig eða sína. Fann til skyldurækni þegar sótt var að þeim sem stóðu henni næst en talaði einnig af hreinskilni og sagði sína skoðun umbúðalaust þegar svo bar undir.

Ég og Arna áttum líka blaðamennskuna sameiginlega. Blaðamennska var hennar ástríða. Við áttum óteljandi fundi þar sem við ræddum fréttir og það nýjasta í umræðunni. Þetta voru góðar stundir og alltaf gat hún komið með nýja sýn á hlutina. Við fundum okkur alltaf tækifæri til að hittast í amstri hversdagsins og sökkva okkur í rökræður og hlæja saman. Ég mun sakna þessara stunda með þér Arna mín. Þetta voru okkar stundir. Örnu var alltaf hugsað til Birnu dóttur sinnar. Hún lifði fyrir Birnu sem hún elskaði mest af öllu.

Æi elsku Arna mín. Þú áttir ekki að fara svona snemma. Það er svo margt sem við eigum eftir að ræða og allt sem við eigum eftir að gera. Þín verður sárt saknað.

Höskuldur Kári Schram.

Fallin er frá einstök systir og það allt of snemma. Arna var einu ári eldri en ég og þótt vegir okkar hafi ekki alltaf legið saman, þá hefði ég sannarlega óskað þess að samverustundirnar okkar hefðu orðið fleiri. Ég var farin að hlakka til að rölta yfir til hennar í kaffi og spjall um ferðamál og stjórnendamál eða með að hennar mati heimsins bestu kjötsúpu. Ég talaði einnig um það að þegar veikindi hennar væru yfirstaðin myndi ég fara með henni í sjósund og skála fyrir henni í heita pottinum. Ég á mjög erfitt með að trúa því að þessar fyrirhuguðu samverustundir okkar muni ekki eiga sér stað, allavega ekki í þessu lífi.

Hún Arna systir var glæsileg kona í orðsins fyllstu merkingu. Hún var hjartahlý, hnyttin, eldklár og alltaf smart. Arna var líka einstaklega barngóð og hún var meðal þeirra fyrstu sem fengu að vita af óléttu minni og gaf mér ótal mörg ráð í kjölfarið sem nýttust mér vel. Hún gaf ávallt mikið af sér til sonar míns, hans Brynjars, sem talar um hve góðhjörtuð hún hafi verið og hve gaman það hafi verið þegar Arna frænka bauð honum í leikhús eða á söfn. Þær yndislegu minningar lifa. En nú er komið að kveðjustund og það er þyngra en tárum taki! Ég tek utan um þig og bið Guð að geyma þig elsku hjartans systir mín!

Þín systir,

Aldís Brynja Schram.

Örninn, hinn tígulegi fugl, er einfari, fer eigin leiðir, flýgur hátt, fjarri mannabyggð, er sjálfum sér nægur. Og þannig var Arna – eins og nafnið ber með sér. Alveg frá barnsaldri var hún mjög sjálfstæð, vissi hvað hún vildi. Ekki allra, að vísu, en íhugul og seinþreytt til vandræða.

Ég kynntist þessari bróðurdóttur minni þegar hún var smábarn og kom í heimsókn til okkar að sumarlagi vestur á firði. Arna og Snæfríður, dóttir mín, voru jafnaldrar og urðu fljótt nánar vinkonur. Báðar með ljósan hadd og himinblá augu. Önnur feimin og hlédræg, hin á heimavelli á Ísafirði, og líklega ögn heimarík.

Nokkrum árum seinna, þegar við fluttumst suður, öll fjölskyldan, og settumst að á Vesturgötunni, varð Arna fljótlega ein af okkur – daglegur gestur. Þarna sátu þær skólasysturnar, hún og Snæfríður, iðulega við eldhúsborðið að hlýða hvor annarri yfir þegar ég kom heim úr vinnunni síðla dags. Þær sváfu í sama rúminu – gott ef þær ekki gengu í fötum hvor af annarri.

Þetta voru yndisleg ár, og fjölskyldan náði að sameinast á Vesturgötunni. Húsið stóð alltaf opið, og allir voru velkomnir, þar á meðal systkinabörn mín – allt Vesturbæingar. Arna hafði svolitla sérstöðu, af því að hún var besta vinkona Snæfríðar og brosti svo fallega.

Þegar Snæfríður var borin til grafar fyrir níu árum skrifaði Arna eftirfarandi, og læt ég hennar fallegu orð vera lokaorðin í þessari kveðju minni:

„Ég sakna vinkonu minnar og frænku, og sorgin rífur í hjartað, en á sama tíma gleðst ég yfir góðum minningum um hana, sem ég mun varðveita og hlúa að, þar til minn tími kemur. Ég ætla að trúa því, að þá munum við hittast að nýju.“

Verði henni að ósk sinni, því að þá verða þar fagnaðarfundir.

Bryndís Schram.

Það var mikil harmafregn að heyra af því að Arna frænka okkar væri látin. Við systkinin vissum sem var að hún hafði háð hetjulega baráttu við krabbamein en leyfðum okkur að vona að bataferli og uppbygging væri framundan. Nú sitjum við saman og minnumst Örnu og þess æðruleysis sem hún sýndi í baráttunni sinni. Kærrar frænku og vinkonu sem lét að sér kveða hvar sem hún kom, bæði í leik og starfi.

Þegar við vorum að alast upp bjuggu Arna og fjölskylda svo að segja í næsta húsi við okkur fjölskylduna. Samgangurinn var mikill. Mæður okkar voru eineggja tvíburar og var mjög náið samband á milli þeirra alla tíð eða allt þar til Ása móðir okkar lést fyrir rúmum sex árum.

Við systkinin ásamt Örnu og systkinum hennar, Ásdísi, Aldísi og Höskuldi, lékum okkur mikið saman á þessum tíma. Í dag yljum við systkinin okkur við ljúfar minningar um ævintýri og leiki í garðinum á Stýrimannastígnum og í Kjósinni. Minningarnar draga upp bjarta mynd af uppátækjasamri, skemmtilegri, örlítið alvarlegri, þenkjandi og hugmyndaríkri manneskju.

Þegar við svo uxum úr grasi var venjan að hittast á gamlárskvöld og fagna nýju ári í sameiningu. En boðin fækkuðu með árunum og eins og vill verða, höfðu allir nóg með sitt. Við hittumst þegar eitthvað var um að vera í fjölskyldunni og erum við þakklát fyrir þær stundir. Það var alltaf gaman að hittast og eins og gengur voru fyrirheit um frekari hittinga. En tíminn líður og hann tekur.

Hugur okkar er hjá Birnu dóttur Örnu, foreldrum hennar þeim Önnu og Ellerti og systkinum hennar, Ásdísi, Aldísi og Höskuldi. Við vottum þeim okkar dýpstu samúð og syrgjum frænku okkar og vinkonu sem fór alltof fljótt.

Kristín og Jón Ásgeir.

Rúmlega fjörutíu ár eru frá því að ég hitti Örnu fyrst. Ég var nýbúinn að kynnast Ásdísi og ég vissi ekki betur en við værum ein á Stýrimannastígnum síðdegis þegar svefndrukkin unglingsstelpa birtist og spurði hvað klukkan væri. Hún var fimm og hún var búin að sofa í átján tíma. Slíkt geta bara kettir og unglingar. Og eiginlega var Arna þarna lifandi komin. Hún hafði ekki bara til að bera hæfileika kattarins til að njóta lífsins, bera sig tignarlega og hreyfa sig fjaðurmagnað. Hún tapaði heldur aldrei æskufjöri unglingsins og jú jú líka duttlungum táningsins. Heldur ekki forvitninni og réttlætiskenndinni sem eru drifkraftur þess góða blaðamanns sem Arna var alltaf í hjarta sínu, þótt lífið leiddi hana á aðrar brautir. Frænka kattarins er ljónið og í myndasafninu á ég mynd frá skírn Ásgerðar dóttur minnar og guðdóttur Örnu. Þar standa þær systurnar Arna og móðirin Ásdís og horfa alvarlegar í myndavélina eins og ljónynjur sem hafa slegið varnarhring um ungviðið.

Og þarna var enn önnur hliðin. Kletturinn í hafi dótturinnar Birnu. Hún horfir á bak móður sinni allt of snemma en minningarnar um hlýja faðminn, fallega brosið og leiftrandi gáfurnar eru huggun harmi gegn.

Elsku Birna, Anna og Ellert, Ásdís, Höskuldur og Aldís og aðrir ættingjar og vinir: hugur minn er hjá ykkur þótt heilt Atlantshaf skilji okkur að á þeim sorgardegi þegar við kveðjum Örnu Schram. Blessuð sé minning hennar.

Árni Snævarr.

Maður velur sína lífsförunauta, Arna Schram og ég völdum hvor aðra.

Ég hékk á hvolfi á stigahandriði er ég spurði „viltu leika?“ og þú sagðir „já“. Árið var 1975 í Vesturbæjarskóla og við höfum leikið síðan. Ég man ekki nákvæmlega eftir þessu atviki, en þú mundir það og rifjaðir það oft upp. Ég man annað, margt annað, lífið er fullt af minningum með þér. Við hættum aldrei að leika þrátt fyrir að ég fimm árum seinna flytti til útlanda þar sem ég hef búið síðan.

Mig langar svo að skrifa fallega minningargrein um þig Arna og segja öllum hvað þú varst einstök manneskja, hvað þú varst ómetanlega góð vinkona og hvað þú varst klár og skemmtileg. En ég veit ekki hvernig ég á að fara að því. Hvenær hef ég skrifað eitthvað af viti á íslensku án þinnar hjálpar? Þú hefur alltaf verið til staðar, lesið yfir, leiðrétt og hjálpað mér að finna réttu orðin, eins og hið rétta í öllu öðru.

Ég votta Birnu og fjölskyldu Örnu allri mína dýpstu samúð.

Ýrr Jónasdóttir.

Arna Schram, yndislega okkar, er látin eftir harða baráttu við krabbamein. Það er svo öfugsnúið að skrifa um kæra vinkonu sem er horfin frá okkur á besta aldri. Vinkonu sem hafði svo mikið að gefa og átti eftir að gera svo margt.

Við kynntumst allar á unglingsárunum. Með stofnun saumaklúbbsins í Menntaskólanum í Reykjavík hófst vinátta, sem hefur vaxið og þroskast í meira en 30 ár. Aldrei vorum við nánari en í veikindum Örnu.

Það var alltaf mikill klassi yfir Örnu. Hún var sérlega glæsileg og tignarleg – heimskona og ofurskvísa sem ekki lét sjá til sín nema í fallegum fötum og hælaháum skóm. Þar lét hún veikindin ekki slá sig út af laginu. Undir glæsileikanum var einstök kona; klár og listhneigð, hlýr og góður vinur. Í Örnu sáum við andstæður, hún var viðkvæm en á sama tíma svo sterk, gat verið utan við sig og hvatvís en líka skynsöm og skipulögð. Arna var réttsýn og mikill femínisti í bestu merkingu þess orðs. Hún elskaði starfið sitt hjá Reykjavíkurborg enda var hún afbragðsstjórnandi og frábær leiðtogi menningar- og ferðamála þar. Á sama tíma var hún hógvær og auðmjúk og það var fjarri henni að tala um eigin afrek og velgengni. En það sem stendur upp úr er einstakt hugrekki Örnu og baráttuþrek. Þegar á móti blés neitaði hún að gefast upp. Hún steig fram og tjáði sig um geðræn veikindi löngu áður en slíkt þótti eðlilegt og sjálfsagt. Í baráttunni við krabbameinið stóð Arna andspænis veikindunum án þess að blikna og barðist eins og ljón fram á síðustu stundu, þótt hún hafi að lokum þurft að lúta í lægra haldi.

Ekkert var Örnu mikilvægara en dóttir hennar. Birna var ljósið sem lýsti upp líf Örnu; stolt hennar og augasteinn. Fátt gladdi hana meira en samverustundir með dóttur sinni; það leyndi sér aldrei.

Endalokin komu snöggt. Við vorum ekki undir það búnar og fráfall hennar skall á okkur öllum eins og bjarg. Góðu stundirnar sem við vorum búnar að lofa Örnu þegar hún næði bata, ferðalög, góður matur, kaffihúsaferðir, leikhús ... verða ekki að veruleika. Mikið eigum við eftir að sakna elsku vinkonu okkar. Það sem eftir situr eru margar dásamlegar minningar um yndislega og sterka konu og fyrir það erum við þakklátar.

Hugur okkar nú er hjá Birnu Örnudóttur sem hefur misst móður sína allt of snemma. Einnig hjá móður Örnu, föður og systkinum, ættingjum og öllum þeim fjölmörgu sem kynntust Örnu á lífsleiðinni og munu sakna hennar sárt.

Þegar við hittumst hér eftir vinkonurnar (kannski fínt klæddar í háum hælum) munum við skála fyrir lífinu, minningunum og Örnu Schram.

Nanna Briem,

Ása M. Ólafsdóttir,

Kristín Heimisdóttir, Kristín Ólafsdóttir, Mússa (Sigrún Faulk), Rósbjörg Jónsdóttir,

Sigrún Helgadóttir.

Arna Schram, kær æskuvinkona mín, lifir enn með mér í huga og hjarta. Ég man varla eftir mér fyrir okkar kynni í sex ára bekk í Vesturbæjarskóla við Öldugötu og með engum hef ég gert jafn mörg prakkarastrik um ævina. Hún var ætíð uppáfinningasöm og skrefin stutt yfir í heim skáldskapar og lista. Ég man þegar við stofnuðum „menningarmiðstöð“ með listnámskeiðahaldi í garðhúsi við heimili foreldra hennar á Stýrimannastígnum, varla orðnar 10 ára gamlar. Þrömmuðum saman reglulega á Borgarbókasafnið í Þingholtinu enda var Arna óstöðvandi lestrarhestur og fluglæs er hún hóf skólagöngu. Hugrekki skorti Örnu aldrei fremur en frjótt ímyndunarafl og leikgleði. Skíðaferðir voru ófáar og saman vorum við skátaforingjar um árabil og þvældumst með yngri krakka um fjöll og firnindi. Dvöl okkar saman í sveitinni var gjöful og ógleymanlegar ferðirnar inn á Fjallabak í för með rollum. Við vorum ætíð samferða á Hagaskólaárunum en leið hennar lá síðan í MR en mín í MH. Eftir menntaskóla tóku við Parísarár mín og áttum við góðar stundir þegar Arna kom í heimsókn, upprifin af borg lista og góðs matar. Samverustundir okkar í gegnum lífið voru margar og gjöfular. Mjög ung að árum sagði ég við Örnu að hún yrði annaðhvort rithöfundur eða ráðherra og á vissan hátt gekk það eftir því hún var kjarnmikill blaðamaður og leiðandi menningarstjórnandi er vandaði orð sín og framkomu.

Styrkur Örnu var heiðarleiki umvafinn trausti, hlýju og áhuga á lífinu í fjölbreytileika sínum. Hún var eldklár og gat ætíð greint allt og alla út frá ótal sjónarhornum af skilningi og skörpu innsæi. Samræður okkar í gegnum tíðina voru nærandi og opnuðu fyrir nýja sýn eða nýjan skilning á heiminum. Lúmskur húmor var aldrei langt undan eða bros á vör. Við treystum hugsun og dómgreind hvor annarrar og á síðari árum leituðum við í skjól vináttunnar að ráðum í lífi okkar og starfi. Arna var hrifnæm kona er kunni virkilega að njóta þess fagra í lífinu og leyfa öðrum að hrífast með sér. Hún bar harm sinn í hljóði og faðmaði sína ákveðin, styrk og björt. Hún ljómaði ætíð með Birnu sér við hlið sem var augasteinninn hennar og naut Marta dóttir Snæfríðar líka hennar stóra móðurhjarta, umhyggju og lífsáhuga. Hún hlúði vel að því að þær fengju að kynnast því áhugaverða og litríka í lífinu. Stórt skarð er komið í vinkvennahópinn er lifað hefur frá skólaárunum í Vesturbænum, skarð sem við fyllum ljósi og kærum minningum. Síðustu skilaboð hennar til mín voru yfirveguð: „Takk elsku Heiða. Þetta er brekka núna. Kærar kveðjur til þín og þinna.“ Arna er nú komin inn í ljósið fagra og þaðan mun hún lifa áfram með okkur.

Ég votta Birnu dóttur hennar, Mörtu, Katli, Önnu, Ellerti, Ásdísi, Aldísi, Höskuldi og fjölskyldum þeirra innilega samúð.

Aðalheiður Lilja Guðmundsdóttir.

Kenn oss að telja daga vora, að við megum öðlast viturt hjarta.

Arna Schram fór vel með sína daga. Ferðaðist fallega.

Við kynntumst 1992. Hún að lesa stjórnmálafræði og heimspeki við Kaupmannahafnarháskóla, ég á Ríkisspítalanum. Arna var náinn vinur Nönnu Briem. Meðmælin skotheld. Eilítið lokuð en auðvelt að skynja hennar góðmennsku og dýpt. Sterkgreindur, áræðinn töffari með óaðfinnanlegan smekk. Viðkvæm og hlý. Yndisleg blanda í góðum vini.

Sá vinur sem heimsótti okkur oftast til Lundúna. Hlaðin gjöfum og hlýju. Létt kaótísk. Hátískuvara og Vogue í bland við jafnrétti fylltu íbúðina. Miðar voru keyptir á merkustu leikhús Lundúna. Vinurinn beið með lífið í lúkunum. Frúin kom með morgunfluginu. Eftirmiðdagssýning. – Feddi, ég er alveg að koma, er ekki örugglega hægt að geyma ferðatöskuna í Þjóðleikhúsi Lundúna? – Arna mín ... ekki viss... það er ströng hryðjuverkalöggjöf á Bretlandseyjum. Fimm mínútur í sýningu og álfkonan sveif inn á hæstu hælum Íslandsögunnar. Flott og elegant. Á hæglátan hátt var starfsfólkið sjarmerað upp úr skónum. Hryðjuverkalöggjöf Bretlands bráðnaði.

Í röð fyrir allar aldir til að njóta snilldar Maggie Smith. Chekhov var vinur okkar. Grísku harmleikirnir unaður þeirra sem harmur heillar. Heimsmálin krufin, gátur leystar í lautarferðum Regents Park. Eldklár, víðlesin og næm á menn og heiminn.

Hún sá við mér. Ég ætlaði sko ekki að mæta með vinnunni í tveggjahæða strætó í gleðigöngu Lundúna. Allt vaðandi í fordómum og fölskum afsökunum. Arna mætti. – Auðvitað kem ég með þér elsku vinur. Guðdómlegur dagur sátta, réttlætis og gleðitára. Austur-Lundúnir bugtuðu sig og beygðu fyrir drottningunni íslensku.

Arna og Birna komu við á leið sinni til Baskalands og barnið Birna þurfti að læra meistara Snorra Hjartarson og framsögn eins og gerist og gengur. Þetta þurfa börn að kunna. Perlur íslenskrar tungu. Nýtast alls staðar.

Kenn oss að telja daga vora, að við megum öðlast viturt hjarta.

Sterk vinátta mótast á erfiðum tímum. Arna veiktist skömmu eftir að ég flutti út. Þau veikindi þekkti ég vel. Þau voru þungbær en leystust og hetjan Arna talaði í Kastljósi af visku, auðmýkt og einlægni. Slíkt ekki daglegt brauð. Arna ruddi veginn. Mikið var ég innilega stoltur af vinkonu minni.

Seinasta eina og hálfa árið var Örnu erfitt. Krabbameinsmeðferð var tekin af krafti og seiglu. Flutt inn í skjólið til elsku Ásdísar systur. Gafst aldrei upp fyrir veikindunum vegna Birnu og Mörtu og síns fólks. Þeirra sem stóðu hjartanu nærri. Fá að verða gömul. Njóta þess smáa. Ferð farin af einlægni og djörfung með dyggum stuðningi. Ákveðin að reyna að gera allt vel, líka að deyja ef að því kæmi.

Þakklátur fyrir yndislegan vin. Þakklátur fyrir að hún fór sínar erfiðu ferðir vel.

Mikill er missir Birnu, Mörtu, foreldra hennar, systkina og vina.

Ég þakka Örnu. Hún mun lifa áfram með okkur öllum sem elskuðum hana.

Kenn oss að telja daga vora, að við megum öðlast viturt hjarta.

Ferdinand Jónsson.

Arna Schram lést 53 ára gömul, ekki einu sinni miðaldra á 21. aldar mælikvarða. Umkringd sínum nánustu, fyrirvarinn nánast enginn. Hún hafði fengið þær gleðifregnir 14. desember sl. að allt krabbamein væri horfið. Sams konar gleðifregnir hafði hún líka fengið í febrúar 2021, að krabbameinið sem hún hefði greinst með um hálfu ári fyrr væri á bak og burt. Þetta fer eins og það á að fara, kvað hún við eftir að þriðja rothöggið dundi á henni í byrjun ársins. Ársins 2022 sem átti að hafa alla burði til að verða ár rósakampavíns og gleði, á nýja og fallega heimilinu hennar í eina borgarhlutanum sem henni þótti, innst inni, vel til ábúðar fallinn, Vesturbænum.

Við Arna kynntumst árið 1995, þegar hún byrjaði að vinna á ritstjórn Moggans. Í fyrstu einskorðaðist kunningsskapur okkar við endurtekin ritstjórnarkvennapartí á Brávallagötunni, þar sem hún bjó á þeim tíma með Katli og Birnu sinni. Smám saman, alveg áreynslulaust, bundumst við svo vináttuböndum sem aldrei trosnuðu. Ég minnist þess varla að okkur hafi orðið sundurorða þennan aldarfjórðung. Nema, ef vera kynni í eitt skipti þarna um árið þegar nákvæmt inntak þess að vera „boðinn í mat á gamlárskvöld“ varð skyndilega að eldfimu álitaefni. Já, eða í hitt skiptið þarna um hitt árið, þegar ágreiningur blossaði upp án fyrirvara um lið nr. 04.10 í fjárlögum íslenska ríkisins. Það var nú allt og sumt.

Hún flíkaði tilfinningum sínum ekki svo glatt en var týpan sem „lækaði“ mann í frumeindir í orði og verki, löngu áður en sýndarþumallinn og lyndistáknin urðu til. Við vorum stofnfélagi nr. 1 og 2 í huldufélaginu HLB, sem í fyrstu sinnti starfsemi með ófjárhagslegan tilgang á borð við samtalsþerapíur og líknarverk. Hin síðari ár einskorðaðist sýslan félagsins fremur við ýmsar jarðneskar lystisemdir, jafnvel málverk og hlutabréf, í bland við trúnaðarsamtölin, fréttirnar, dægurmálin – naglalakk sem bar heitið Gold Digger.

Arna var viðkvæm og stolt, hlý og mild, stundum brothætt. Stundum stífari en læstur steinbítskjálki. Kankvís og hláturmild. Góð manneskja. Hún efldist jafnt og þétt og teygði sig langt út fyrir það sem maður hélt að væri þægindaramminn hennar, með tímanum. Lengi vel eftir að hún veiktist síðsumars 2020 stóð hún síðan æðrulaus og keik, sjálf háhæla- og tískudrottningin, pels- eða kápuklædd, prýdd silkiklútum, túrbönum, hárkollum. Loðhúfumeistarinn. Hún umvafði sig líka sínum nánustu, sem og fólki sem hún valdi að hafa í kringum sig á þar til gerðum vettvangi. Þar var hægt að styðja hana og hvetja, og „læka“ og „hjarta“, upp í himinhæðir. En það var hún sjálf sem var kletturinn í gegnum öll þessi ósköp, skerið sem krabbameinið steytti á og átti að halda áfram að steyta á þar til það yrði að engu. Allt þar til hún gat ekki meira.

Og nú er hún farin, sú sem var „brú yfir boðaföllin“. Eftir situr stofnfélagi nr. 2 í HLB-félaginu, „hugstola, svo ömurlega einmana“.

Æðri máttur sé með ykkur, elsku Birna, ljósið hennar Örnu, Anna, Ásdís, Höski, Aldís, aðrir nákomnir.

Helga Kristín Einarsdóttir.

Þrátt fyrir að hafa fylgst með alvarlegum veikindum Örnu gerði ég engan veginn ráð fyrir að hún myndi kveðja svona fljótt. Það segir mikið um hana sjálfa, þessa einstöku konu sem gekk í gegnum erfið veikindi með óbilandi bjartsýni að vopni í bland við æðruleysi. Á laugardagskvöldinu áður en Arna lést fékk ég skilaboð frá henni með spurningum um nýjan veitingastað sem ég hafði nýverið sótt. Hún vildi vita hvernig maturinn og staðurinn væri. Það hvarflaði því ekki annað að mér en að við myndum fljótlega sitja þar saman, enda var Arna farin að skipuleggja endurkomu í starf sitt hjá Reykjavíkurborg.

Við Arna kynntumst á vormánuðum 2017, þá báðar nýráðnar sem sviðsstjórar hjá Reykjavíkurborg. Atvikin höguðu því þannig að við urðum herbergisfélagar á ferðalagi, án þess að þekkjast. Ég vissi hver hún var og rifjaði upp blaðaviðtal sem hún hafði tekið við mig tuttugu árum fyrr þegar hún var ungur blaðamaður og ég að stíga mín fyrstu skref í Miðgarði. Þetta kvöld í Hrísey möluðum við saman langt fram á nótt og lögðum grunn að trúnaðarsambandi sem dýpkaði bara með árunum. Vináttan styrktist ekki síst í gegnum hóp dásamlegra samstarfskvenna sem hittist reglulega. Það trausta bakland hefur fleytt okkur öllum í gegnum á tíðum róstusama tilveru í krefjandi stjórnunarstarfi.

Eftirminnilegust er borgarferðin til að halda upp á að fyrri lyfjameðferð Örnu var lokið. Að sjálfsögðu var ferðin innanlands þar sem við bjuggum við ferðahöft vegna faraldursins. Á ísköldum vetrardegi tókum við okkur frídag, þræddum verslanir og veitingahús, skelltum okkur í dekur og enduðum í gistingu á hóteli í miðborginni.

Arna var einstök. Hún var skarpgreind, tíguleg í fasi, létt og skemmtileg með þetta glettnislega blik í augum. Hún klæddist gjarnan litríkum fötum sem hún bar mjög vel. Arna var fagmanneskja fram í fingurgóma og vílaði ekki fyrir sér að taka erfiðar ákvarðanir ef þær þjónuðu hagsmunum borgarbúa að hennar mati.

Það sem hún hafði umfram svo marga aðra var einlægur áhugi hennar á fólki. Hún var svo góður hlustandi. Bakgrunnur hennar hjálpaði mér mikið þegar kom að fjölmiðlasamskiptum. Arna fylgdist með á hliðarlínunni og stappaði ávallt í mig stálinu.

Við áttum frábæra kvöldstund hjá samstarfskonu okkar núna í byrjun desember og Arna lagði grunninn að bataferlinu, enda útskrifuð úr síðari lyfjameðferð. Hún var búin að búa sér til nýtt fallegt heimili í sama húsi sem hún sýndi okkur stolt. Lífið sjálft var fram undan með alls konar skemmtilegheitum.

Við hittumst síðan aftur rétt fyrir jól í fjölmennara boði og Arna sagði spennt frá því að hún væri að skoða ferðalag á suðrænar slóðir áður en hún kæmi til vinnu, til að ná upp orkunni.

Sú ferð verður ekki farin þar sem Arna fór í annað og lengra ferðalag. Ég mun sakna þess að geta ekki speglað vinnutengd mál við Örnu en líka að vera saman og spjalla um lífið og tilveruna.

Ég sendi mínar innilegustu samúðarkveðjur til elsku Birnu og annarra ástvina.

Megi minningin um þessa einstöku konu lifa í hjörtum okkar allra.

Regína Ásvaldsdóttir.

Það var óumræðanlega sorglegt að fá fréttir af andláti Örnu Schram og óvænt. Arna geislaði af lífsvilja, sínum meðfædda metnaði og krafti, líka í harðri baráttu sinni við erfitt krabbamein undanfarin misseri. Hún var bjartsýn um jólin og lagði drög að því að koma til baka að stýra menningar- og ferðamálasviði borgarinnar allt fram á fyrstu daga þessa árs. Meðferðin hafði sannarlega tekið á hana en við deildum öll með henni þeirri bjargföstu trú að þetta gengi vel og hlökkuðum til að fá hana til baka. Þegar við hittumst fyrir jól var hún ekki síður með blik í auga og eftirvæntingu í svipnum, eins og þegar hún gekk til liðs við borgina fyrir fimm árum til að leiða menningar- og ferðamálin, uppfull af nýjum hugmyndum, framtíðarsýn og krafti.

Arna fæddist 15. mars árið 1968 í Reykjavík, dóttir Ellerts B. Schram, fv. ritstjóra og þingmanns, og Önnu Guðlaugar Ásgeirsdóttur tölvuritara. Hún ólst upp í Vesturbænum. Arna lauk stúdentsprófi frá MR, og BA-gráðu í stjórnmálafræði og heimspeki frá Háskóla Íslands og Kaupmannahafnarháskóla, auk MBA-gráðu með áherslu á stjórnun, rekstur og markaðsmál frá Háskólanum í Reykjavík.

Arna hóf störf í blaðamennsku ung að árum og starfaði á DV og Morgunblaðinu um árabil og var einnig aðstoðarritstjóri Krónikunnar og fréttastjóri Viðskiptablaðsins. Hún gegndi stöðum sem varaformaður og formaður Blaðamannafélags Íslands fyrst kvenna. Arna varð upplýsingafulltrúi Kópavogsbæjar árið 2010 og síðar forstöðumaður menningarmála í Kópavogi. Frá 2017 var hún sviðsstjóri menningar- og ferðamálasviðs Reykjavíkurborgar.

Reykjavíkurborg hefur borið einstaka gæfu til að laða að sér sterkar konur í stjórnendahóp borgarinnar og Arna Schram var sannarlega ein af þeim. Alltaf vakandi yfir verkefnum dagsins, einbeitt og áræðin og náði ótrúlegum árangri í verkefnum sínum. Borgin, menningarlífið og framtíð hennar fyllti án efa stóran hluta af vökutíma Örnu – og mér kæmi ekki á óvart að menningin og borgin hafi líka komið við sögu í draumum hennar, slík var ástríðan og metnaðurinn. Það var aðeins Birna dóttir hennar og fólkið hennar og fjölskylda og nánir vinir sem skipaði æðra sæti. Þar var ekki um að villast. Missir borgarinnar er mikill en missir Birnu og fjölskyldu Örnu er bæði djúpur, sár og ósanngjarn. Það er þyngra en tárum taki að við fáum ekki notið krafta, samveru, visku og vináttu Örnu lengur. Ég votta þeim mína dýpstu samúð. Blessuð sé minning Örnu Schram.

Dagur B. Eggertsson,

borgarstjóri Reykjavíkur.

Kveðja frá Blaðamannafélagi Íslands

Mér finnst það gerast æ oftar að ég skrifi um samferðafólk sem fellur frá í blóma lífsins. Þannig er það með Örnu Schram, samstarfsmann á Morgunblaðinu í á annan áratug og formann Blaðamannafélags Íslands um árabil, sem fallin er frá allt of snemma. Við vorum nánir samstarfsmenn hjá Blaðamannafélaginu, einkum árin sem hún var formaður og ég framkvæmdastjóri. Ég var líka sá sem nefndi það við hana fyrst hvort hún væri tilbúin til þess að gefa kost sér í stjórn Blaðamannafélagsins. Hún tók sér umhugsunarfrest, eins og hennar var von og vísa, en samþykkti svo og kom inn í stjórnina árið 1999, varð varaformaður árið 2003, formaður 2005 og var það til ársins 2009. Allan þennan tíma starfaði hún jafnframt sem blaðamaður, fyrst á Morgunblaðinu, síðan á Krónikunni um tíma og loks sem fréttastjóri á Viðskiptablaðinu eftir að hún var hætt sem formaður félagsins. Það er styrkur að því fyrir formann í stéttarfélagi að vinna á gólfinu við hliðina á félagsmönnum sínum. Þannig finnur hann best hvar eldurinn brennur heitast.

Arna var öflugur formaður félagsins á umbrotatímum í fjölmiðlum og í samfélaginu öllu. Hún var gegnheil og samviskusöm í öllum störfum sínum og mátti ekki vamm sitt vita, en jafnframt sveigjanleg og lausnamiðuð þegar þess þurfti. Hún hafði mikinn metnað fyrir hönd góðrar blaðamennsku og var mjög meðvituð um mikilvægi starfsins fyrir samfélagið í heild. Hún bar hag félagsins og fagsins mjög fyrir brjósti og vildi veg þess sem mestan. Hún var formaður félagsins í hruninu, haustið 2008, þegar virkilega reyndi á félagið og hlutverk fjölmiðla. Arna sat í starfshópi félagsins sem settur var á laggirnar til þess að bregðast við ábendingum í skýrslu rannsóknarnefndar Alþings um það sem betur mætti fara á sviði fjölmiðlunar. Þannig sýndi hún í verki hug sinn til blaðamennskunnar og enn frekar þegar hún gerðist fyrsti fulltrúi félagsins í fjölmiðlanefnd, þótt hún væri horfin til annarra starfa. Þessum störfum og öðrum sem hún tók að sér fyrir félagið sinnti hún af mikilli trúmennsku.

Arna var einstaklega heill og góður samstarfsmaður. Því miður minnkaði samband okkar síðustu árin, eins og oft vill verða, en milli okkar var alltaf strengur sem aldrei slitnaði. Hennar er sárt saknað. Dóttur og öðrum aðstandendum er vottuð innileg samúð. Guð blessi minningu Örnu Schram.

Hjálmar Jónsson

Í dag kveðjum við með sorg í hjarta kæra samstarfskonu, Örnu Schram, sviðsstjóra menningar- og ferðamálasviðs Reykjavíkur, sem lést langt fyrir aldur fram. Minning um geislandi hlátur og bjarta nærveru Örnu fylgir okkur sem störfuðum með henni og yljar okkur þessa dimmu sorgardaga í janúar. Arna var vakin og sofin í starfi sínu sem sviðsstjóri menningar- og ferðamálasviðs, jafnvel líka þegar hún þurfti að stíga til hliðar vegna erfiðra veikinda. Áhugi hennar og ástríða fyrir menningarlífi borgarinnar hélst allt fram á síðasta dag.

Arna kom til starfa á menningarsviði borgarinnar fyrir fimm árum með glæsibrag, full eldmóðs og með nýja sýn sem hún brann fyrir að láta verða að veruleika. Hún studdi við góðar og oft óhefðbundnar hugmyndir og var líka alltaf tilbúin að skoða nýjar leiðir, hafði reyndar gjarnan á orði að það mætti gera hlutina öðruvísi en áður og það væri hollt að stokka upp og breyta til. Sjálf var hún óhrædd við að gera það, enda töffari sem gat staðið fast á sínu.

Arna var orkumikil og alltaf að. Við eigum ótal minningar af henni á hlaupum milli staða og verkefna, stundum grípandi með sér súkkulaðimola sem henni fannst nú ekki vont, en hún var líka oft kyrrlát og íhugul og vildi halda sínu út af fyrir sig. Við vorum farin að hlakka til að fá Örnu aftur til vinnu með vorinu, ætluðum svo sannarlega að eiga góðar stundir saman í og utan vinnu og vorum vongóð yfir því hvað hún var bjartsýn þrátt fyrir erfið veikindi, síðast í símtali við Huld staðgengil sinn aðeins nokkrum dögum áður en hún kvaddi.

Þegar við fylgjum Örnu síðasta spölinn minnumst við bjarts hláturs, glæsileika og kviks hugar og þökkum fyrir vináttu og samfylgd þau ár sem við fengum að njóta samvista við hana.

Kærleikur

Með kvöldinu birti stöðugt

Um miðnætti voru létt ský á himni

geislandi glaðvær

Ský sem heita örugglega eitthvað

við heitum líka örugglega eitthvað

Hvaðan kemur þessi birta

sem stöðugt vex með kvöldinu?

Hvaðan kemur þessi

geislandi glaðværð?

Öll þessi heilaga gleði!

Vatn í geislandi skál

Geislandi vatn í skál

(Sigurður Pálsson)

Við sendum Birnu, einkadóttur Örnu, foreldrum hennar og öðrum ástvinum okkar innilegustu samúðarkveðjur. Minningin lifir.

F.h. samstarfsfólks á menningar- og ferðamálasviði Reykjavíkurborgar.

Huld Ingimarsdóttir.