Hjálmar Jónsson sendi mér póst fyrir margt löngu: „Sá á fésinu að Halldór Blöndal er gestur Framsóknarflokksins í vöfflukaffi um helgina og flytur limrur. Það kallar á viðbrögð: Halldór nú stígur á stokkinn og streymir af honum þokkinn.

Hjálmar Jónsson sendi mér póst fyrir margt löngu: „Sá á fésinu að Halldór Blöndal er gestur Framsóknarflokksins í vöfflukaffi um helgina og flytur limrur. Það kallar á viðbrögð:

Halldór nú stígur á stokkinn

og streymir af honum þokkinn.

Limrur hann flytur,

léttbrýnn og vitur

og gengur í Framsóknarflokkinn.“

Ég fékk góðan póst á þriðjudag: „Kunningi Jóns Ásgeirssonar á Þingeyrum kom til hans og leitaði ráða um brúnan hest sem hann átti og hélt að væri gæðingsefni. Þegar Jón hafði reynt hestinn kastaði hann fram þessari vísu:

Brúnn á gangi gerist rýr

garp sem ber óhrelldan.

Gjöktir eins og gamalkýr.

Gerðu það fyrir mig: Seld'ann.

Önnur óskyld. Ort til barnsmóður sinnar:

Gleymdu ekki góðum vin,

þó gefist aðrir nýir,

þeir eru eins og skúraskin,

skyndilega hlýir.“

Sigurlín Hermannsdóttir segir frá því á Boðnarmiði að eftir helgi upphófst hér smá umræða um nafn leikara frá liðinni öld.

Gary Grant eða Cary?

Hann gjarnan var kallaður Gary

þeim gömlu fannst hann svo „starry“

g virtist þar G

sem var reyndar C

svo vinurinn hét eins og karrí.

Erlingur Sigtryggsson yrkir „veðurvísu“ með athugasemdinni „e.t.v. stæld eða stolin“:

Hér er hvorki hlýtt né kalt.

Hráblaut þoka leggst um allt

Hitinn svona hangir við

helvískt bölvað frostmarkið.

„Áfram veginn“ segir Ármann Þorgrímsson:

Bæði kemur skúr og skin

og skaflar uppi á heiðum.

Er að þyngjast umferðin

á öllum mínum leiðum.

„Úr neðstu skúffunni. – Rómantík ca. 1966“ skrifar Hörður Björgvinsson:

Stjörnur skarta og skína á

skugga svartrar nætur,

ljóma bjartir logar þá

ljúft við hjartarætur.

Gömul vísa í lokin:

Laxinn stekkur strauminn á

og stiklar á hörðu grjóti.

Illt er að leggja ást við þá

er enga kann á móti.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is