Flatey Ær og tvö lömb hennar átu egg í kríuhreiðri.
Flatey Ær og tvö lömb hennar átu egg í kríuhreiðri. — Ljósmynd/Kane Brides
Sumarið 2019 sást til kinda í Flatey á Breiðafirði sem ýttu kríu af hreiðri sínu og átu síðan egg hennar. Frá þessu er greint í Náttúrufræðingnum undir fyrirsögninni Sauðfé étur kríuegg og unga.

Sumarið 2019 sást til kinda í Flatey á Breiðafirði sem ýttu kríu af hreiðri sínu og átu síðan egg hennar. Frá þessu er greint í Náttúrufræðingnum undir fyrirsögninni Sauðfé étur kríuegg og unga. Þar kemur fram að hér á landi hafi örfá tilvik verið skráð um slíkt afrán þar sem kindur urðu uppvísar að eggja- eða ungaáti. Ætla megi að það sé algengara en þau tilvik sýni. Afrán sauðfjár á eggjum og ungum villtra fugla sé einnig þekkt erlendis.

Krían þeyttist af hreiðrinu

Höfundar greinarinnar eru Ævar Petersen, Sverrir Thorstensen, Scott Petrek og Kane Brides og segir í greininni um atvikið sem vitnað var til hér í upphafi: „Sumarið 2019 urðum við vitni að því að ær og tvö lömb hennar umkringdu kríu á hreiðri. Fuglinn sat sem fastast uns annað lambið hnippti í hann þannig að krían þeyttist af hreiðrinu og tók flugið. Tóku kindurnar sig þá til og átu eggin. Á meðan renndi fuglinn sér í kindurnar eins og kríur eiga vanda til en þær létu ekki segjast.“

Síðar sama sumar fundust í Flatey bæði lifandi og dauðir kríuungar með hluta vængjar eða allan vænginn afstýfðan, svo og dauðir hauslausir ungar. Einnig fannst hauslaus stelksungi og síðar fleiri kríuungar. Alls fundust 17 hauslausir og vængstýfðir kríuungar þetta sumar. Kindur voru rétt hjá en engir aðrir hugsanlegir orsakavaldar. Sumrin 2020 og 2021 fundust einnig dauðir hauslausir ungar og lifandi ungar sem á vantaði hluta vængjar, segir í Náttúrufræðingnum. aij@mbl.is