Guðný Kristjánsdóttir fæddist í Reykjavík 12. ágúst 1949. Hún lést á Landspítalanum við Hringbraut 24. desember 2021.


Foreldrar hennar voru Kristján Pálsson húsasmíðameistari, f. 4.12. 1929, d. 4.2. 1965, og Helga Sæmundsdóttir fóstra og húsmóðir, f. 5.10. 1929, d. 2.9. 1991. Foreldrar Kristjáns voru Ósk Guðmundsdóttir vinnukona og Páll Þorgilsson sjómaður og foreldrar Helgu voru Guðný Jónsdóttir framkvæmdastjóri og Sæmundur Pálsson kaupmaður.


Systkini Guðnýjar eru Páll, f. 1951, listamaður í Álafossi, Mosfellsbæ, á fjögur börn; Kristjana, MA í samskiptum og verkefnastjóri, búsett í Kaupmannahöfn, á tvö börn; Bjarni Þór, f. 1954, kennari og listamaður í Reykjavík, kvæntur Edeltrude Mantel og eiga þau fjögur börn; Gunnar, f. 1958, vélstjóri í Reykjavík, sambýliskona Svava Þóra Þórðardóttir hjúkrunarfræðingur, hann á fjögur börn af fyrra hjónabandi; Anna Katrín, f. 1963, búsett í Reykjavík, barnlaus.

Eiginmaður Guðnýjar var Alfreð Þorsteinsson fv. framkvæmdastjóri og borgarfulltrúi, f. 15.2. 1944, d. 27.5. 2020. Foreldrar hans voru Sigríður Lilja Gunnarsdóttir húsmóðir, f. 7.1. 1909, d. 22.1. 1971, og Ingvar Þorsteinn Ólafsson verkamaður, f. 25.10. 1901, d. 25.10. 1964.

Börn Guðnýjar og Alfreðs eru: 1) Lilja Dögg, f. 4.10. 1973, ferða-, viðskipta- og menningarmálaráðherra, gift Magnúsi Óskari Hafsteinssyni, f. 5.6. 1975, hagfræðingi í atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu, börn eru Eysteinn Alfreð, f. 2007, og Signý Steinþóra, f. 2009. 2) Linda Rós, f. 31.5. 1976, sérfræðingur í félagsmálaráðuneytinu, barn Guðný Gerður. f. 2014.

Guðný ólst upp á Miðbraut á Seltjarnarnesi og gekk í Mýrarhúsaskóla og Hagaskóla. Hún nam prentsmíði í Iðnskólanum í Reykjavík og hönnun í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti. Guðný vann hjá Samvinnutryggingum fyrstu starfsárin, svo fór hún í Blaðaprent og á Tímann. Síðustu árin starfaði hún í Prentsmiðjunni Odda, sem prentsmiður og við umbrot. Í Odda kom hún að gerð bóka á borð við Íslensku orðabókina, Lærdómsrit Hins íslenska bókmenntafélags, Matreiðslubækur Hagkaups og margar fleiri.

Guðný var mikil hannyrðakona, saumaði og prjónaði. Peysurnar sem hún prjónaði rötuðu í prjónatímarit. Guðný tók þátt í starfi Sambands ungra framsóknarmanna.


Útför Guðnýjar fer fram frá Fríkirkjunni í Reykjavík í dag, 21. janúar 2022, klukkan 13. Streymt verður frá athöfninni á

https://youtu.be/ycg3nurfFsk

Hlekkur á streymi:

https://www.mbl.is/andlat

Kær vinkona kvaddi þennan heim á aðfangadag jóla. Ég var viss um að við ættum góða tíma fram undan og krabbinn sem sýkti Guðnýju í vor hörfaði og hún yrði heil heilsu á ný. Ég les hér á netinu samtal okkar um komandi göngutúr, en Guðný var nýflutt íbúð í nágrenni við mig í Hlíðunum. Þegar við hittumst síðast var ekki að sjá á henni veikindi, hún var uppáklædd eins og henni var tamt, heldur grennri, en hárið byrjað að vaxa aftur eftir lyfjameðferðina í sumar. Hún var alls ekki að fara að deyja, enda sagði ég henni að það væri bannað. Það er sárt að sættast á að Guðný sé farin og ég finn enga huggun nema í þeim orðum að vegir guðs eru órannsakanlegir og að minningar okkar um hina látnu lifa áfram með þeim sem eftir lifa.

Við Guðný kynntumst þegar ég hóf vinnu í Blaðaprenti í Síðumúla sem prófarkalesari á Tímanum fyrir um 40 árum. Þar vann hún sem setjari og þegar prentvinnan og umbrotið í Blaðaprenti hætti og flutti yfir götuna í höfuðstöðvar Tímans urðu kynni okkar nánari og hinn svokallaði Tímaskvísuhópur varð til. Hann varð reyndar ekki formlegur fyrr en Tíminn hætti að koma út, við komnar í önnur störf, og þá orðnar talsvert eldri og miklu meiri skvísur en við vorum á þessum ungdómsárum 1980 upp úr. Við höfum hist nokkrum sinnum á ári og erum alltaf jafnskemmtilegar.

Á Tímaárunum vorum við stelpurnar í prentdeildinni mjög nánar. Við vorum á svipuðum aldri og á svipuðum stað í lífinu, rétt byrjaðar að halda heimili með börnum og maka. Guðný var aðeins eldri en ég og með talsverða reynslu í jólamatseld og öllu því stússi sem þá fylgdi jólunum. Það voru mörg ráðin sem við þær yngri fengum hjá henni, t.d. hvernig best væri að brúna kartöflur eða hvað væri til ráða gleymdi húsmóðirin að laga sósuna. Desembermánuður var alltaf mjög annasamur á blaðinu og unnar langar vaktir. Við þær yngri vorum stundum stressaðar á þessum tíma hvort við næðum að gera allt fyrir kl. 6 á aðfangadag. Ég man ekki til þess að karlarnir hjálpuðu mikið til á heimilinu í þá daga. Það var helst að þeir sinntu börnunum. Guðný sendi Alfred í jólamessu með stelpurnar svo hún gæti einbeitt sér að eldamennskunni í friði.

Þá þegar tók ég eftir því hvað Guðný var alltaf pollróleg, sama hvað gekk á. Dætur hennar voru þá nokkurra ára gamlar og strax ákveðnar hvernig jólakjól þær vildu. Það var aldrei kjóll sem hægt var að kaupa í búð heldur varð Guðný að sauma kjólana sjálf. Mér þótti þetta nú óþarfa dekur en Guðnýju þótti aldrei sem hún gerði of mikið fyrir dætur sínar og fjölskylduna. Og víst er um það að stelpurnar Lilja og Linda urðu engar dekurrófur heldur dugnaðarforkar eins og mamma þeirra var.

Þegar ég tala um að Guðný saumaði jólakjóla þá var það enginn venjulegur saumaskapur, heldur listaverk úr efni. Stundum sat hún í matartímanum á Þorláksmessu og bróderaði síðustu sporin og sagðist myndu ljúka við kjólana þegar hún kæmi heim eftir kvöldvaktina. Hún var ekki þreytt heldur naut þess að skapa falleg föt.

Guðný var einstaklega listfeng þegar kom að handavinnu hvort heldur var saumar eða prjón. Litir, snið og frágangur var eins og hjá frægustu hönnuðum heims. Guðný var líka hjálpsöm þegar ég hafði ætlað mér um of á sviði handmennta. Hún kenndi mér alls konar fiff við saumaskapinn og fullvissaði mig um að ég gæti þetta alveg, ég yrði bara að sýna smá þolinmæði. Líka að kaupa ekki köflótt eða röndótt efni án þess að læra að láta allt standast á. Þótt ég væri alvön prjónaskap gat hún alltaf kennt mér einhver trix sem gerðu fráganginn fallegri. Ég gat ekki látið það vera að sýna henni nýjasta stykkið mitt nú í haust, myndprjónspeysu af Jesper og ljóninu úr Kardemommubænum til að fá hennar álit. Ég var mjög montin þegar ég fékk hrós fyrir peysuna. Það þarf ekki að nefna það að Guðný var alltaf í fallegum viðeigandi klæðnaði sem fór henni vel og aldrei sást eiginmaðurinn illa til fara.

Listfengi Guðnýjar sýndi sig ekki aðeins við handavinnu og í klæðaburði, heldur í öllum hennar verkum og ekki síst í prentverkinu sem hún vann við alla sína tíð. Hún var ekki bara að setja texta heldur var hún alltaf að fullkomna vinnu sína og finna upp á einhverju nýju útliti þegar tölvurnar komu til sögunnar. Hún gat ekki hugsað sér að koma nálægt ljótu prentverki, og var eftirsótt til vinnu. Ég brosti því hringinn þegar hún í vor hrósaði umbrotinu á bókinni minni Litli-Skygnir, nefndi sérstaklega hvað fóturinn og letrið væri fallegt.

Þótt Guðný væri lágvaxin og fínleg í alla staði var hún algjör nagli og stóð eins og klettur með þeim sem henni þótti vænt um. Aldrei kvartaði hún yfir hlutskipti sínu þegar hún sinnti veikum eiginmanni sínum heima árum saman þar til hann lést fyrir ekki löngu. Hún fagnaði hverri stund sem hún varði í að hjálpa dætrum sínum við barnagæslu en barnabörnin voru hennar líf og yndi. Hún var þeirrar gerðar að hún hreykti sér aldrei af verkum sínum og var að mínu mati of hógvær þegar kom að því að þiggja hrós. Guðný talaði ekki mikið um sjálfa sig, en ég vissi að hún var ekki fædd með silfurskeið í munni.

Einn ónefndur kostur Guðnýjar, sem allir sem þekktu hana eiga eftir að sakna, er hversu góður hlustandi hún var. Nýlega þegar ég heimsótti hana í nýju íbúðina ætlaði ég að spyrja hana hver hefði kennt henni að sauma svona listavel. Sú umræða varð að engu því ég var allt í einu farin að tala út í eitt um eigin hörmungar og Guðný sat og hlustaði. Þegar ég síðar bað hana afsökunar á þessu rausi mínu sagði hún: Blessuð vertu, ekkert mál, ég vissi að þú þyrftir að tala um þetta. Þannig var Guðný, góður vinur gulli betri og hennar er sárt saknað af okkur Tímaskvísunum; mér, Ingu, Ellu, Önnu, Systu og Þórunni.

Ég sendi fjölskyldu Guðnýjar alla mína samúð með ósk um huggun harmi gegn.

María Anna Þorsteinsdóttir.

Elsku mamma okkar er fallin frá eftir stutt veikindi. Eftir situr mikið tómarúm en hugljúfar minningar um móður sem lagði allan sinn metnað í að veita börnum sínum og barnabörnum ást og umhyggju.
Hún andaðist á sjálfan aðfangadagsmorgun en hún var mikið jólabarn. Jólin áttu að vera fullkomin, þar sem allir áttu að njóta sín og því var oft vakað langt fram á nótt til þess að leggja lokahönd á jólafötin okkar, ævintýralega fallega kjóla ásamt jökkum í stíl. Oft var þetta úr nýjasta tískublaðinu Burda en mamma hafði mikið dálæti á hönnun og tísku. Við fengum að rölta með henni í vefnaðarvörubúðina og velja efni í kjólana og garn í peysurnar. Nokkrum dögum eða vikum síðar birtist meistaraverk. Hún lét ekki þar við sitja heldur fengu einnig vinir okkar og vandamenn að njóta þessara verka og fengu þeir einnig heimasaumuð jólaföt eða prjónaða peysu. Ást og natni lýsir henni allra best, hún setti alúð í allt sem hún gerði.
Mamma var alin upp á Seltjarnarnesi, elst sex systkina. Foreldrar hennar reistu sér hús við Miðbrautina og var faðir hennar Kristján húsasmíðameistari og móðir Helga Sæmundsdóttir, fóstra og húsmóðir. Hún var elst sex systkina og var mikið fjör á heimilinu. Því miður lést afi okkar ungur eða tæplega 36 ára. Eftir stóð amma með sex börn og fyrirvinnan farin. Þetta var mömmu mikið áfall hún og skynjaði söknuð eftir föðurástinni fram til hinstu stundar. Við tóku hjá fjölskyldunni erfiðir tímar en systkinin stóðu þétt saman og sameinuð gátu þau allt. Skrautlegar sögur eru til af þessum stóra og þétta systkinahóp sem var víst ansi uppátækjasamur.
Mamma fór snemma að heima enda heimilisaðstæður erfiðar og varð sjálfstæð, eitthvað sem skipti hana miklu máli. Hún vildi aldrei vera háð neinum og einkenndist margt af því sem hún gerði af þessari sjálfstæðisþrá. Hún þurfti að kunna allt og gat því tengt rafmagn, flísalagt, smíðað borð og mátti sjá það á verkfærasafninu hennar að þarna var konan sem gat tekið að sér flest verkefni.
Hún gekk í Hagskóla, hlutstaði á Bítlana og fór svo að vinna fyrir Samvinnutryggingar og hafði afskipti af stjórnmálum í gegnum Samband ungra framsóknarmanna. Mamma var mjög ákveðin og hafði afar skýra pólitíska sýn sem gekk út á að við ættum alltaf að hugsa um okkar minnstu bræður í samfélaginu. Á þessum vettvangi kynnast þau pabbi, en svo að því sé haldið til haga, þá var mamma komin í pólitíkina á undan pabba. Þau giftu sig svo í Fríkirkjunni 18. júlí 1971 og hefðu fagnaði gullbrúðkaupsafmæli, þarsíðasta sumar ef pabbi hefði ekki fallið frá sex vikum áður. Þau bjuggu fyrst í Fossvoginum og síðar reistu þau sér raðhús í Vesturberginu. Þar bjuggu þau í hálfa öld og var Breiðholtið þeim afar kært. Heimilið og heimilislífið einkenndist af þeirra alúð og umhyggju. Smáfuglarnir höfðu þar öruggt skjól og trygga fæðu þegar kalt var og stóð mamma vaktina að fæla kettina í burt. Kettir voru líklega þeir einu sem nutu ekki velvildar hennar.
Mamma veitti okkur þá ást og umhyggju sem engin landamæri náðu utan um. Hún var af þeirri kynslóð kvenna sem fóru fyrst út á vinnumarkaðinn en jafnframt sá hún um heimilið. Eftir á að hyggja er einhver ofurhetjuljómi yfir henni, hvernig hún náði að vinna langan vinnudag, elda dýrindismat hvert kvöld og í hjáverkum voru saumað föt, hannaðir grímubúningar, smíðað og flísalagt. Mamma var mjög úrræðagóð og studdi okkur systur ávallt í námi, vinnu og svo hin síðari ár við uppeldi barna okkar. Hún ferðaðist með okkur bæði innanlands og um heim allan; Hong Kong, Kaupmannahöfn, Akureyri, New York, Öræfasveitin, Brussel, Washington DC, Tenerife, Túnis og margir fleiri staðir. Hún var dásamlegur ferðafélagi og tilbúin til þess að taka áskorunum um að fara út fyrir þægindarammann, hvort sem það var á bak kameldýri eða í vatnsrennibraut með barnabörnunum. Hún naut þess að borða góðan mat enda listakokkur sjálf. Það var unaður að borða matinn hennar þó svo að hann væri sjaldnast til á réttum tíma - enda gat það verið tímafrekt að framleiða hina fullkomu máltíð dag hvern. Þegar við systurnar reynum að herma eftir matnum hennar, þá vantar ávallt eitthvað upp á enda betrumbætti hún ávallt allar uppskriftir sem hún rakst á. Allt sem hún gerði var af slíkri snilld að við vildum ávallt að hún myndi stofna fyrirtæki í kringum það - enda ættu fleiri að njóta hæfileika hennar.
Mamma var dásamleg amma og elskaði það hlutverk. Sinnti barnabörnunum þremur; Eysteini Alfreð, Signýju Steinþóru og Guðnýju Gerði jafn vel og okkur. Veitti þeim endalausa ást og stóð foreldravaktina með okkur dag og nótt. Hún var ávallt tilbúin til þess að fara í ævintýraferð með barnabörnunum, lautarferð á Hvaleyravatn, fótboltamót eða einfaldlega að smyrja góða samloku fyrir þau: hún lagði mikla áherslu á að þau ættu góð sængurver, hlýja sokka og góða nærboli. Grunnurinn að vellíðan samkvæmt henni.
Ein góð saga af mömmu er sú að þegar önnur okkar sagði henni að nú ætlaði hún að taka þátt í stjórnmálum, þá svaraði hún strax að þá myndi hún hætta að aðstoða á heimilinu! Sú fullyrðing stóð í eina mínútu og stóð hún þétt við bakið á okkur, eins og pabba, alla tíð. Hún var okkar stoð og stytta og fyrirmynd.
Mamma varð veik í sumar og þetta voru erfið veikindi. Hún barðist eins og ljón og æðruleysið var algjört. Hún ætlaði sér í gegnum þessi veikindi til að eiga fleiri góð ár með barnabörnunum, ferðast um heiminn og sitja á svölunum í nýju íbúðinni sinni yfir sumartímann með hvítvínsglas í hönd með vinum og vandamönnum. Baráttan hafði skilað góðum árangri en hún varð skyndilega bráðkvödd á sjálfan aðgangadag. Okkar síðustu samskipti við hana voru að skipuleggja jólahaldið; rjúpurnar komnar í hús, heitreyktar andabringur og búið að pakka öllum gjöfunum. Hún var spennt að koma heim eftir stutta dvöl á spítalanum og nokkuð sannfærð um að betri tímar væru í vændum. Missir okkar er mikill og enn meiri hjá barnabörnunum en hún lék stórt hlutverk í þeirra lífi, brúaði bilið þegar við systurnar þurftum að vinna fram eftir og passaði ávallt að þeirra uppáhaldsmatur væri til staðar.
Efst í huga okkar nú á þessari stundu er þakklæti fyrir að fá njóta hennar samveru þó að við hefðum viljað lengri tíma með henni. Nærvera hennar er sterk og hvert sem við lítum á heimilum okkar sjáum við handbragð hennar. Mömmu farnaðist vel í verkum sínum og var farsæl og hamingjusöm.
Nú ertu sameinuð pabba að nýju í Draumalandinu, elsku mamma. Við erum vissar um að þú hefur verið kölluð inn til að sinna einhverju fallegu. Hafðu miklar þakkir fyrir allt sem þú hefur gefið okkur sem manneskjum! Við elskum þig að eilífu.



Hún bar þig í heiminn og hjúfraði að sér.
Hún heitast þig elskaði' og fyrirgaf þér.
Hún ætíð er skjól þitt, þinn skjöldur og hlíf.
Hún er íslenska konan, sem ól þig og þér helgaði sitt líf.

(Ómar Ragnarsson)



Þínar dætur,



Lilja Dögg og Linda Rós.